Fögnuður Katrín Ómarsdóttir fagnar hér með Hólmfríði Magnúsdóttur og Fanndísi Friðriksdóttur eftir að Hólmfríður hafði komið Íslendingum í forystu.
Fögnuður Katrín Ómarsdóttir fagnar hér með Hólmfríði Magnúsdóttur og Fanndísi Friðriksdóttur eftir að Hólmfríður hafði komið Íslendingum í forystu. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í laugardalnum Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Valkyrjurnar í íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta sýndu mikla fagmennsku með því að leggja stöllur sínar frá N-Írlandi, 2:0, í næst síðasta leiknum í undankeppni Evrópumótsins.

Í laugardalnum

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Valkyrjurnar í íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta sýndu mikla fagmennsku með því að leggja stöllur sínar frá N-Írlandi, 2:0, í næst síðasta leiknum í undankeppni Evrópumótsins. Með sigrinum tryggði íslenska liðið sér í það minnsta umspilsleiki um farseðilinn í úrslitakeppni EM sem haldin verður í Svíþjóð á næsta ári. Sigurinn skaut Íslendingum líka aftur í toppsæti riðilsins sem Norðmenn höfðu náð fyrir leikinn eftir sigur á Belgum en það ræðst á miðvikudaginn hvort það verða Íslendingar eða Norðmenn sem tryggja sér EM-sætið því liðin eigast við í hreinum úrslitaleik í Osló þar sem Íslendingum dugar jafntefli.

„Ég hélt að við myndum vinna leikinn með meiri mun og fengum tækifæri til þess. Það var smá stress í byrjun og við vorum að þruma boltanum of langt fram en þetta kom þegar á leikinn leið og sigurinn var afar öruggur og þægilegur,“ sagði Edda Garðarsdóttir við Morgunblaðið eftir leikinn. Hún hlakkar mikið til að mæta Norðmönnum. „Norsku stelpurnar eru mjög grobbnar með sig. Þær hafa kallað á Solveigu Guldbrandsen sem á að bjarga málunum en hún verður bara söltuð. Við vitum allar hvað þarf að gera til að tryggja okkur efsta sætið sem við ætlum okkur að gera,“ sagði Edda.

Það tók íslenska liðið tæpar 40 mínútur að brjóta n-írska varnarmúrinn en þrátt fyrir harðlífið hélt íslenska liðið ró sinni og yfirvegun og vann ákveðinn skyldusigur á afar sannfærandi hátt þó svo engin flugeldasýning hafi verið í boði að þessu sinni.

„Þessir leikir á móti N-Írunum hafa eiginlega allir spilast eins. Mér fannst við gera vel. Við vorum skynsamar og gáfum engin færi á okkur,“ sagði Dóra María Lárusdóttir við Morgunblaðið en að þessu sinni spilaði hún sem hægri bakvörður.

„Það er þægilegt að vera búnar að tryggja okkur inn í umspilið en nú er framundan úrslitaleikur sem við stefndum á að búa til. Þetta eru leikirnir sem maður vill spila. Okkur hefur gengið vel á móti Norðmönnum og við förum í þennan leik með gott sjálfstraust og ætlum okkur að vinna riðilinn og tryggja EM sætið,“ sagði Dóra María.

Ísland – N-Írland 2:0

Laugardalsvöllur, undankeppni EM, laugardaginn 15. september 2012.

Skilyrði : Hægur vindur, skýjað og hitinn um níu gráður. Völlurinn mjög góður.

Skot : Ísland 21 (11) – N-Írland 2(2).

Horn : Ísland 12 – N-Írland 0.

Lið Íslands : (4-3-3) Mark : Þóra B. Helgadóttir. Vörn : Dóra María Lárusdóttir, Katrín Jónsdóttir (Glódís Perla Viggósdóttir 77.), Sif Atladóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir. Miðja : Katrín Ómarsdóttir, Edda Garðarsdóttir (Magrét Lára Viðarsdóttir 61.), Sara Björk Gunnarsdóttir. Sókn : Fanndís Friðriksdóttir (Sandra María Jessen 69.), Elín Metta Jensen, Hólmfríður Magnúsdóttir.

Lið N-Írlands : (4-5-1) Mark : Emma Higgins. Vörn : Alex Hurst, Sara McFadden, Julie Nelson, Demi Vance. Miðja : Allison Smith (Aoife Lennon 54.), Ashley Hutton, Nadane Caldwell, Simone Magill, Caragh Milligan (Laura Nicholas 87.). Sókn : Rachel Furness (Kelly Bailie 74.).

Dómari : Thalia Mitsi frá Gikklandi.

Áhorfendur : 2.929

Þetta gerðist á Laugardalsvelli

FÆRI 29. Fanndís Friðriksdóttir átti gott skot rétt utan teigs en boltinn fór framhjá markinu.

1:0 37. Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði með laglegri kollspyrnu eftir fyrirgjöf frá Fanndísi Friðriksdóttur frá hægri kanti.

2:0 53. Katrín Ómarsdóttir átti góða sendingu á Fanndísi Friðriksdóttur sem fékk boltann rétt utan við vítateigshornið. Fanndís lék á varnarmann og skoraði með góðu vinstrifótar skoti. Boltinn hafnaði efst upp í markhorninu.

SLÁ 69. Hólmfríður Magnúsdóttir átti þrumufleyg úr vítateignum en boltinn small í þverslánni.

STÖNG 83. Katrín Ómarsdóttir skaut knettinum í stöngina af stuttu færi.

FÆRI Miðvörðurinn Sif Atladóttir fékk mjög gott færi en Emma Higgins markvörður N-Íra varði skot hennar af stuttu færi.

Gul spjöld:

Enginn.

Rauð spjöld:

Enginn.

MMM

Enginn.

MM

Enginn.

M

Þóra B. Helgadóttir

Dóra María Lárusdóttir

Sif Atladóttir

Hallbera Guðný Gísladóttir

Fanndís Friðriksdóttir

Edda Garðarsdóttir

Katrín Ómarsdóttir

Hólmfríður Magnúsdóttir

* Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði sitt 29. mark með íslenska landsliðinu í 73. landsleiknum.

* Fanndís Friðriksdóttir skoraði sitt annað mark með landsliðinu í sínum 30. landsleik.

* Sif Atladóttir lék sinn 40. landsleik en þess má geta að faðir hennar, Atli Eðvaldsson , lék á sínum tíma 70. landsleiki. Sif á enn eftir að skora en Atli skoraði 8 mörk.

*Fyrirliðinn Katrín Jónsdóttir hélt áfram að bæta landsleikjametið en hún lék sinn 119. landsleik.

* Elín Metta Jensen framherji úr Val, sem varð markadrottning Pepsi-deildarinnar í sumar, var í fyrsta sinn í byrjunarliðinu en hún var að spila sinn annan landsleik.

* Dóra María Lárusdóttir lék sinn 80. landsleik og Hallbera Guðný Gísladóttir lék sinn 30. landsleik.

*Íslenska landsliðið hélt utan til Noregs í morgun en það mætir Norðmönnum í lokaleik riðilsins á Ullevaal leikvanginum í Osló á miðvikudaginn.

Þurfum að hefna okkar

„Maður er í þessu sporti til fá að taka þátt í svona leikjum,“ sagði Sif Atladóttir, miðvörðurinn sterki, við Morgunblaðið þegar hún var spurð út í rimmuna við Norðmenn á miðvikudaginn en liðin eigast við í Osló í hreinum úrslitaleik um efsta sætið í riðlinum.

„Við ætlum að vinna riðilinn sannfærandi og ég get alveg sagt þér að engin okkar hefur gleymt 1:0-tapinu á móti Norðmönnum á EM 2009 þar sem þær norsku skoruðu skítamark. Við þurfum svo sannarlega að hefna fyrir það,“ sagði Sif eftir sigurinn gegn Norður-Írum.

Fyrir lokaumferðina í riðlinum er Ísland með 22 stig í efsta sæti, Noregur hefur 21 og Belgía er í 3. sæti með 17 stig. gummih@mbl.is