Hanna Jónsdóttir fæddist á Kálfsstöðum í Vestur-Landeyjum 21. júlí 1934. Hún lést á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi 3. september 2012.

Útför Hönnu fór fram frá Laugarneskirkju 14. september 2012.

Haustið er komið til að vera og veturinn nálgast. Ekki bara haustið og veturinn sem dagatalið afmarkar, heldur líka í hugum okkar sem kveðjum hana Hönnu nú. Veröldin verður fátækari án hennar.

Ég kynntist Hönnu fyrir margt löngu þegar Kristín dóttir hennar passaði elsta drenginn minn. Hanna fullvissaði mig um að Kristín væri barngóð og traust og það reyndist alveg rétt. Mig grunar nú reyndar að stundum hafi stelpuskarinn sem fylgdi Kristínu og krakkaangarnir sem þær voru að passa lent öll inni hjá Hönnu og hún hafi gefið þeim öllum eitthvað heimabakað að borða áður en þau fóru út aftur. Þannig var Hanna. Gestrisnin einkenndi hana og það tók hana aðeins nokkrar mínútur að leggja heimabakaðar kleinur og kökur á borð ef maður kom í heimsókn.

Hanna var ein af þeim sem vinna sín verk í hljóði. Hún var alltaf til staðar fyrir þá sem þurftu þess með og hugsaði alltaf síðast um sjálfa sig. Þarfir annarra voru mikilvægari en hennar og það átti jafnt við heima og heiman. Hún vann í mörg ár verslunarstörf í versluninni Allt í Breiðholti. Í gegnum þá vinnu kynntist hún fjölda kvenna, barna og karla sem muna eftir henni fyrir einstaka vinsemd, þolinmæði og þjónustulund. Alltaf var hún tilbúin að aðstoða viðskiptavinina og alltaf tilbúin að taka þátt í hverju því sem mögulega gat orðið til þess að verslunin gengi betur. Þekking Hönnu á handavinnu, saumaskap og prjóni kom sér vel þegar viðskiptavinir komu með eitthvert handverk sem hafði farið úrskeiðis. Henni dugði að fara höndum um stykkið og á einhvern undraverðan hátt passaði allt þegar hún hafði farið höndum um það.

Það væri hægt að skrifa heila bók um öll verkin hennar Hönnu, allt sem hún gerði án þess að mikið bæri á. Hanna er persónugervingur hinnar íslensku húsmóður, eiginkonu og móður. Konunnar sem svo lítið ber á en gegnir svo mikilsverðu hlutverki. Henni fannst óþarfi að hafa orð á allri þeirri vinnu heima og heima. „Maður bara gerir það sem þarf að gera“, sagði hún og lét þar við sitja.

Hanna tók veikindum sínum af sömu rósemi og æðruleysi og öllu öðru. „Þetta fer einhvern veginn,“ sagði hún á sinn hægláta máta.

Ég votta eiginmanni, börnum, barnabörnum og öðrum ættingjum Hönnu einlæga samúð mína. Missir ykkar er mikill en minning um afburðakonu lifir í huga okkar allra.

Vigdís Stefánsdóttir.

Ég trúi á framhaldslíf og veit að Hönnu líður vel núna. Hún er búin að hitta ástvini sína sem á undan eru farnir. Svona er lífshlaupið okkar, við fæðumst og deyjum. Það er það eina sem við göngum að vísu, þó enginn sé kannski ekki alveg tilbúinn í ferðina til Sumarlandsins.

Elsku Hanna er fallin frá eftir langa og hetjulega baráttu við ókindina sem marga tekur. Kynni okkar Hönnu hófust er börnin okkar felldu hugi saman. Stína og Óli eignuðust þrjú yndisleg börn. Þó þau bæru ekki gæfu til að ganga saman lífsbrautina, rofnaði aldrei samband mitt við Hönnu og Júlíus. Það efldist frekar með tímanum. Þau hjónin tóku mikinn þátt í uppeldi á barnabörnunum, það var gott að hafa athvarf hjá afa og ömmu. Hanna var mikil húsmóðir, mamma, amma og eiginkona. Það var augljóst að Hrísateigur var annað heimili barnabarnanna. Hanna lifnaði öll við þegar þau komu í heimsókn, það var komið með kræsingar og hugsað um að börnin nærðust vel.

Eftir að Hanna greindist með þennan vágest var hún ákveðin í því að sigra og stóð alltaf upp á hverju sem gekk og var ekki að kvarta. Ástvinur minn var á þessum tíma að berjast við sama óvin, ávallt spurði Hanna um hans líðan og fylgdist vel með. Umhyggja fyrir öðrum var svo stór partur af Hönnu. Ég hugsa um það með gleði og söknuði þegar mér var boðið í mat á hvítasunnudag. Hanna var þá sárlasin en samt ekki að velta sér upp úr því. Þetta var falleg og góð stund.

Mér er efst í huga þakklæti til Hönnu fyrir það hvað hún hugsaði vel um barnabörnin okkar. Allir áttu griðastað á Hrísateig. Hanna ömmubarn hafði sérstakt herbergi til að læra. Hanna amma var svo stolt af nöfnu sinni þegar hún útskrifaðist úr menntaskóla í vor með glæsibrag. Við áttum oft gott spjall er ég sat við rúmið hjá Hönnu. Ég sat og hélt í höndina á henni eftir að hún fékk að vita að hún væri að fara á líknardeild. Hún var svo æðrulaus. Ég sagði henni hvað það hefði verið mikil Guðsgjöf að barnabörnin hefðu átt hana Hönnu ömmu sína að, stundum hlaut það að hafa verið erfitt. Það var nú annað, sagði Hanna, hún var svo þakklát fyrir umganginn, þá lifnaði yfir heimilinu og þau hjónin yngdust bara við það. Hanna var einstök kona og ég er þakklát fyrir að hafa kynnst henni.

Elsku Hanna, ég skal reyna að hugsa vel um börnin okkar þó ég komi aldrei í þinn stað.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Elsku Júlíus, Gréta, Jón, Siggi og Stína mín, ég sendi ykkur tengdabörnum, barnabörnum og öðrum ættingjum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Vertu Guði falin, Hanna mín, við hittumst í Sumarlandinu þegar þar að kemur.

Aðalheiður Árnadóttir.