Warren Buffett
Warren Buffett
Auðjöfurinn áhrifamikli, Warren Buffett, er allur hinn hressasti eftir að hafa lokið geislameðferð við krabbameini í blöðruhálskirtli. Í vor upplýsti hinn 82 ára gamli Buffett um meinið og hófst meðferð strax í kjölfarið.

Auðjöfurinn áhrifamikli, Warren Buffett, er allur hinn hressasti eftir að hafa lokið geislameðferð við krabbameini í blöðruhálskirtli.

Í vor upplýsti hinn 82 ára gamli Buffett um meinið og hófst meðferð strax í kjölfarið. Krabbameinið hafði greinst á byrjunarstigi og var því ekki talið lífshættulegt.

Í viðtali við Omaha World-Herald, sem er í eigu Buffetts, fagnar hann því að hafa lokið fertugasta og fjórða og síðasta degi geislameðferðar.

Ekki á honum fararsnið

Fréttir af veikindum Buffetts hleyptu nýju lífi í umræður um hversu lengi hinn aldni milljarðamæringur getur haldið um stjórnartaumana í fjárfestingarfyrirtækinu Berkshire Hathaway.

Til stendur að skipta skyldum Buffetts á milli þriggja stjórnenda þegar sá gamli dregur sig í hlé. Næsti framkvæmdastjóri mun stýra Berkshire-hlutanum en tveir stjórnendur annast fjárfestingahliðina. Elsti sonur Buffetts á að taka við sem stjórnarformaður, að því er AP greinir frá.

Ekki er þó talið sennilegt að Warren Buffett fari að hægja ferðina alveg strax. Í viðtalinu við Omaha World-Herald kvaðst hann stefna á að verða elsti maður í heimi. ai@mbl.is