„Spár háskólans fyrir næsta ár eru að ekki verði greitt með um 350 nemendaígildum sem gera 520 nemendur (miðað við meðalvirkni nemenda).
„Spár háskólans fyrir næsta ár eru að ekki verði greitt með um 350 nemendaígildum sem gera 520 nemendur (miðað við meðalvirkni nemenda). Sú staðreynd veldur Stúdentaráði miklum áhyggjum, sem og úreltir reikniflokkar, og er þessi niðurskurðargjörningur ætlaður til að vekja athygli stjórnvalda á málinu ásamt því að krefjast úrbóta,“ segir í tilkynningu frá Stúdentaráði Háskóla Íslands í gærkvöldi. Stúdentaráðsliðar ætla að mæta fyrir utan Alþingishúsið í dag kl. 13 og afhenda fjármálaráðherra um þrjú þúsund póstkort sem nemendur við HÍ hafa undirritað. Ráðist var í það verkefni að hanna fimm útgáfur af póstkortum sem hvert endurspegli eitt fræðasvið skólans. Tilgangurinn er að vekja athygli á að ekki sé greitt með fjölda nemenda við skólann eins og eigi að gera.