Júlíus Valdimarsson
Júlíus Valdimarsson
Frá Júlíusi Valdimarssyni: "Á því sögulega augnabliki sem við lifum höfum við engan til þess að reiða okkur á nema hvern einasta mann. Þess vegna þurfum við frelsi allra manna og kvenna undan áþján fámennisvalds þ.e."

Á því sögulega augnabliki sem við lifum höfum við engan til þess að reiða okkur á nema hvern einasta mann. Þess vegna þurfum við frelsi allra manna og kvenna undan áþján fámennisvalds þ.e. því feðraveldi fáfræði og kúgunar sem ógnar framtíðinni; framtíð okkar sjálfra og komandi kynslóða.

Viskan er hjá hinum mörgu

Allt er undir hverjum og einum komið því framtíð okkar er sameiginleg hvort sem okkur líkar það betur eða verr. En framtíðin er björt vegna þess að sameiginlega eru okkur allir vegir færir. Það eina sem við getum misst er fáfræðin því viskan og þekkingin liggur ekki hjá hinum fáu og valdamiklu heldur hjá hinum mörgu sem sjá til þess að heimurinn hreyfist frá degi til dags.

Fólkið krefst öðruvísi heims

Það sem til þarf er lítils háttar, en verður að óstöðvandi afli þegar það gerist hjá hverjum og einum samtímis. Við þurfum aðeins að vakna...... Þetta gerist ekki í einu vetfangi, þetta gerist af því að við höfum verið að rumska af svefni um alllanga hríð. Þessi svefnrof hafa birst á öllum breiddargráðum þar sem fólkið fer í gegnum óttamúrinn út á götur og torg til þess að krefjast öðruvísi heims.

Fyrir allt fólkið 100%

Öðruvísi heimur er mögulegur, engin völd, ekkert fyrirkomulag er sterkara sameinuðum vilja hinna mörgu. Þannig getur opnast ný framtíð án ofbeldis, fyrir fólkið, já en fyrir allt fólkið 100%.

Einnig í þágu ráðamanna

Það er ekkert sem ráðandi öfl óttast meira en að svona þróun eigi sér stað. Þess vegna mæta þau fólkinu grá fyrir járnum. Ráðamennirnir ættu hins vegar að geta skilið að uppreisn fólksins er líka í þeirra þágu. Núverandi kerfi og sú einstaklingshyggja og hagvaxtarstefna sem það byggist á ógnar vistkerfinu og þar með tilveru jarðarbúa, ekki síst komandi kynslóða. Þar eru ráðamennirnir og afkomendur þeirra taldir með.

Við þurfum að vakna

Það er ekkert annað en jákvætt og skemmtilegt að vakna til vitundar um möguleika okkar til að umbreyta heiminum og gera hann að stað þar sem allir geta átt gott líf. Umbreyting mun hins vegar ekki eiga sér stað á sama vitundarstigi og bjó til vandamálið. Þess vegna þurfum við að vakna.

JÚLÍUS VALDIMARSSON,

í landsráði Húmanistaflokksins.

Frá Júlíusi Valdimarssyni