[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aðalheiður Rósa Harðardóttir , landsliðskona úr Breiðabliki, keppti á laugardaginn á Banzai Cup í karate sem haldið var í Berlín í Þýskalandi og hafnaði í fimmta sæti eftir að hafa barist um bronsverðlaunin.
A ðalheiður Rósa Harðardóttir , landsliðskona úr Breiðabliki, keppti á laugardaginn á Banzai Cup í karate sem haldið var í Berlín í Þýskalandi og hafnaði í fimmta sæti eftir að hafa barist um bronsverðlaunin. Yfir 750 keppendur tóku þátt í mótinu og þar af um 25 í kata kvenna frá sjö þjóðum, þ.ám. landsmeistararnir frá Svíþjóð, Noregi og Danmörku.

Aðalheiður gerði sér lítið fyrir og vann fyrstu þrjár viðureignirnar nokkuð örugglega og var þar með komin í undanúrslit þar sem hún mætti Karin Hägglund frá Svíþjóð. Karin, sem varð Norðurlandameistari í kata kvenna í apríl síðastliðnum, lagði Aðalheiði eftir harða og jafna viðureign. Aðalheiður fékk í staðinn uppreisnarglímu og réttinn til að keppa um 3. sætið þar sem hún mætti skoskri landsliðskonu, Jeannette O'Neill . Skemmst er frá því að segja að Aðalheiður beið lægri hlut með minnsta mögulega mun og endaði með því í 5. sæti í flokknum.

Víkingar unnu stórsigur á Skautafélagi Reykjavíkur, 10:1, þegar liðin mættust á Íslandsmótinu í íshokkíi karla á Akureyri um helgina. Þetta var fyrsti sigur Víkinga á tímabilinu en SR-ingar hafa eitt stig eftir tvo leiki. Víkingar höfðu töluverða yfirburði í leiknum eins og tölurnar gefa til kynna og Ingvar Þór Jónsson , sem þessa dagana stjórnar liði Víkinga, tók undir það. „ SR-ingar mættu með unga leikmenn hingað og þá vantar reynslu en hana fengu þeir svo sannarlega úr þessum leik, “ sagði Ingvar.

Landsliðsmaðurinn Þórir Ólafsson átti flotta endurkomu með pólska liðinu Kielce þegar liðið vann Legnica með tíu marka mun, 31:21. Þórir, sem hefur jafnað sig af meiðslum, var markahæstur í liði pólsku meistaranna en hornamaðurinn frá Selfossi skoraði sjö mörk.

María Guðsteinsdóttir úr Ármanni og Aron Lee Du Teitsson , Gróttu, hrósuðu sigri í karla- og kvennaflokki í Íslandsmótinu í réttstöðulyftu sem haldið var í Smáranum. María lyfti 180 kg í 72 kg flokki og fékk fyrir það 190,58 sig sem er nýtt Íslandsmet. Aron vann einnig á nýju Íslandsmeti en hann lyfti 270 kg í 83 kg flokki. Lið Gróttunnar varð stigameistari félaga.

H ildigunnur Einarsdóttir skoraði fjögur mörk í sínum fyrsta leik með Tertnes í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik sem hófst í gær.

Hildigunnur og stöllur hennar fögnuðu stórsigri, 34:24, gegn nýliðum Glassverket. Tertnes var þremur mörkum undir í hálfleik, 16:13, en í síðari hálfleik hrökk allt í baklás hjá nýliðunum og Tertnes skoraði hvert markið á fætur öðru. Þess má geta að Tertnes mætir Fram í 2. umferð EHF-keppninnar og fara báðir leikirnir fram á heimavelli Fram í Safamýri helgina 20.-21. október.