Kröftug Sprengingin var svo öflug að bútur úr millivegg þeyttist 50-60 metra út úr íbúðinni og lenti á nærliggjandi bílastæði þar sem gler lá á víð og dreif.
Kröftug Sprengingin var svo öflug að bútur úr millivegg þeyttist 50-60 metra út úr íbúðinni og lenti á nærliggjandi bílastæði þar sem gler lá á víð og dreif. — Morgunblaðið/Júlíus
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.

Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

Maðurinn sem slasaðist í sprengingunni í íbúð í fjölbýlishúsi í Ofanleiti í gærmorgun er enn í lífshættu og er haldið sofandi en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins virðist sem um mjög öfluga gassprengingu hafi verið að ræða. Nær allar rúður í íbúðinni, sem er á jarðhæð, brotnuðu og skemmdust nokkrir bílar á bílastæðinu fyrir utan þegar gleri og braki rigndi yfir þá. Glerbrot, brak og innanstokksmunir, t.d. kertastjaki og biti úr millivegg, dreifðust á 50-60 metra radíus umhverfis húsið og féllu m.a. á leikvöll þar sem börn höfðu verið skömmu áður. Hundur, sem var í íbúðinni þegar sprengingin varð, slapp ómeiddur.

Haukur Þorgeirsson, sem var heima í íbúð sinni á þriðju hæð hússins þegar sprengingin varð, segist hafa upplifað hana eins og eitthvað mjög þungt hefði dottið nálægt sér. Hann hljóp strax að sjö mánaða gömlum syni sínum, sem lá sofandi í rúmi sínu, en þegar hann leit út sá hann eld í grasinu fyrir utan húsið og síðan hvernig rúður höfðu sprungið og eldur logaði í íbúðinni á jarðhæðinni. Hann segir að lögreglu, slökkvilið og sjúkrabifreiðir hafi borið fljótt að og tók tæknideild lögreglu við rannsókn á vettvangi þegar tekist hafði að slökkva eldinn í íbúðinni.

Rannsókn stendur enn yfir á tildrögum slyssins en ljóst er að sprengingin var mjög öflug og hrundi m.a. milliveggur í íbúðinni sem skildi að þvottahús og geymslu. Gaseldavél var ekki í íbúðinni né önnur gastæki, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Að sögn Jóns Viðars Matthíassonar slökkviliðsstjóra urðu mjög miklar skemmdir á íbúðinni og var allt tiltækt slökkvilið kallað út til að slökkva eldinn sem kviknaði. Hann sagði í samtali við mbl.is í gær mestu mildi að rúður í íbúðinni fyrir ofan hefðu ekki brotnað en Sigurbjörn Guðmundsson, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu, sagði fólk í húsinu í miklu áfalli. Sprenging af þessu tagi hefði ekki orðið í mjög langan tíma.

Íbúum nærliggjandi íbúða var gert að rýma heimili sín í kjölfar sprengingarinnar og dvelja annars staðar í nótt en fengu þó að skreppa heim og sækja nauðsynjar um eftirmiðdaginn. „Okkur var sagt að okkur væri ekki heimilt að vera í íbúðinni í nótt, enda hefði ekkert vit verið í því, bara út af reykjarbrælunni,“ segir Haukur. „Það er vond lykt af fötum, gluggatjöldum og sængum og það þarf örugglega að þvo eitthvað og kannski henda einhverju,“ segir hann, en hann átti von á því að verða hleypt aftur heim í dag.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu átti von á því í gærkvöldi að vettvangur slyssins yrði innsiglaður yfir nótt. Þrif voru þó hafin utanhúss í gær og aðstoðuðu íbúar í nágrenninu við að hreinsa burtu gler og brak á leikvellinum og bílastæðinu við húsið.