Fögnuður Fyrirliðinn Gunnleifur Gunnleifsson fagnaði í fyrsta sinn Íslandsmeistaratitli sem FH-ingur í gær og stýrði fagnaðarlátunum eins og sjá má en þeir Pétur Viðarsson, Viktor Örn Guðmundsson, Guðmann Þórisson, Freyr Bjarnason og Ólafur Páll Snorrason eru vel með á nótunum.
Fögnuður Fyrirliðinn Gunnleifur Gunnleifsson fagnaði í fyrsta sinn Íslandsmeistaratitli sem FH-ingur í gær og stýrði fagnaðarlátunum eins og sjá má en þeir Pétur Viðarsson, Viktor Örn Guðmundsson, Guðmann Þórisson, Freyr Bjarnason og Ólafur Páll Snorrason eru vel með á nótunum. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• FH Íslandsmeistari í sjötta skiptið á síðustu níu árum • Tryggði titilinn með jafntefli í Garðabænum þótt enn séu þrjár umferðir eftir • Skorað mest og varist vel • Björn Daníel í „himnaríki“ • Tíu ár af einstökum gæðum

í Garðabæ

Tómas Þór Þórðarson

tomas@mbl.is

Eftir að hafa þurft að sætta sig við silfrið tvö undanfarin ár eru FH-ingar aftur bestir á landinu í fótbolta en þeir tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn með 2:2-jafntefli í Garðabænum í gær. Fyrir leikinn tapaði KR illa fyrir Breiðabliki og var ljóst að FH þyrfti aðeins eitt stig.

Leikurinn sjálfur var fjörugur og Stjarnan í raun betri aðilinn lengst af. FH náði þó í stigið sem það þurfti og endurheimti Íslandsmeistaratitilinn. Þetta er í sjötta skiptið á níu árum sem FH verður Íslandsmeistari en liðið hefur ekki endað neðar en í öðru sæti síðustu tíu ár. Einstakur árangur.

Erum með besta liðið

Fjölmargir stuðningsmenn FH sungu til miðjumannsins Björns Daníels Sverrissonar þegar Morgunblaðið tók hann tali eftir leikinn. „Tilfinningin er æðisleg. Svo erum við líka með svo æðislega stuðningsmenn,“ sagði Björn og veifaði til fólksins í stúkunni við mikla ánægju þess.

„Taflan sýnir bara að við erum með besta liðið,“ sagði Björn Daníel en enn eru þrjár umferðir eftir af deildinni. „Ég gæti ekki verið ánægðari með þetta. Ég er líka að spila stærra hlutverk núna en þegar við unnum 2008 og 2009. Ég er bara í himnaríki,“ sagði Björn Daníel sem fór ekki leynt með það að hann vildi taka að sér stærra hlutverk í liðinu eftir brotthvarf Matthíasar Vilhjálmssonar.

Björn tók tíuna hans Matthíasar og spilaði eins og sá sem valdið hefur í sumar. „Mér finnst ég hafa spilað vel í ár og verið mun stöðugri. Ég skora líka meira. Ég vildi stærra hlutverk og mér finnst ég hafa skilað því vel af mér,“ sagði Björn Daníel Sverrisson um leið og hann hljóp til stuðningsmanna FH.

Ótrúlegur árangur

Hvorki Björn né taflan ljúga neinu. Besta liðið, líklega það langbesta, er Íslandsmeistari 2012. FH-ingar eru vel að titlinum komnir. Að vera í efstu tveimur sætunum tíu ár í röð er magnaður árangur og til marks um félag með ótrúlegan metnað fyrir gæðum innan sem utan vallar.

FH-ingar prófuðu svolítið nýtt í ár. Þeir ákváðu að verjast eins og menn. Heimir Guðjónsson, sem er að vinna sinn þriðja Íslandsmeistaratitil sem þjálfari, smíðaði varnarlínu sem hefur fengið á sig næstfæst mörk í sumar.

En það er ekki eins og FH hafi unnið titilinn með einhverjum leiðindum. Þvert á móti. Liðið hefur einnig skorað langmest í deildinni og er jafnvægið í spilamennsku þess mjög gott. Það er til marks um vel þjálfað lið.

Titill FH er svo sannarlega sigur liðsheildarinnar því það hafa margir leikmenn verið góðir. Nýir menn hafa smellpassað í liðið og aðrir gamlir (og ungir) og góðir átt sitt besta tímabil. Til hamingju, FH.

Stjarnan – FH 2:2

Samsungvöllur, Pepsi-deild karla, 19. umferð, sunnudaginn 16. september 2012.

Skilyrði : Kalt og nokkur vindur.

Skot : Stjarnan 11 (6) – FH 9 (6).

Horn : Stjarnan 4 – FH 5.

Lið Stjörnunnar : (4-3-3) Mark : Ingvar Jónsson. Vörn: Jóhann Laxdal, Daníel Laxdal, Tryggvi Sveinn Bjarnason (Baldvin Sturluson 59.), Hörður Árnason (Garðar Jóhannsson 84.). Miðja: Kennie Chopart, Atli Jóhannsson, Alexander Scholz. Sókn: Gunnar Örn Jónsson (Mark Doninger 74.), Ellert Hreinsson, Halldór Orri Björnsson.

Lið FH : (4-3-3) Mark : Gunnleifur Gunnleifsson. Vörn: Guðjón Árni Antoníusson, Guðmann Þórisson, Freyr Bjarnason, Danny Thomas. Miðja: Pétur Viðarsson, Bjarki Bergmann Gunnlaugsson, Björn Daníel Sverrisson (Einar Karl Ingvarsson 90.). Sókn: Hólmar Örn Rúnarsson (Viktor Örn Guðmundsson 69.), Albert Brynjar Ingason (Kristján Gauti Emilsson 85.), Atli Guðnason.

Dómari : Þóroddur Hjaltalín jr. – 7.

Áhorfendur : 1.257.

Þetta gerðist á Stjörnuvelli

FÆRI 3. Ellert Hreinsson komst upp að marki FH hægra megin en Gunnleifur Gunnleifsson varði í horn.

FÆRI 3. Hörður Árnason náði skalla á markið eftir hornspyrnu en Hólmar Örn Rúnarsson varði á línu.

FÆRI 10. Ellert Hreinsson komst í dauðafæri upp við mark FH en Freyr Bjarnason bjargaði í horn með stórkostlegri tæklingu.

1:0 10. Eftir hornspyrnuna barst boltinn út fyrir teiginn á Halldór Orra Björnsson sem þrumaði boltanum í nærhornið.

1:1 15. Björn Daníel Sverrisson tók hornspyrnu frá hægri. Guðmann Þórisson stökk hæst í teignum og skallaði boltann yfir á fjærstöngina þar sem Albert Brynjar Ingason stangaði knöttinn í netið.

FÆRI 22. Eftir glæsilega sókn Stjörnunnar og fyrirgjöf frá vinstri fékk Ellert Hreinsson dauðafæri en skaut framhjá.

STÖNG 46. Bjarki Bergmann Gunnlaugsson átti skot fyrir utan teig sem small í stönginni eftir 21 sekúndu í seinni hálfleik.

FÆRI 50. Albert Brynjar Ingason komst í dauðafæri eftir laglega sókn FH en skot hans úr teignum fór í varnarmann.

FÆRI 63. Jóhann Laxdal átti frábæra fyrirgjöf á Ellert Hreinsson sem brenndi af enn einu dauðafærinu. Skallaði framhjá einn og óvaldaður fyrir framan markið.

FÆRI 77. Björn Daníel Sverrisson tók aukaspyrnu og spyrnti boltanum beint í vegginn og þaðan barst hann til Alberts Brynjars Ingasonar sem komst í gott færi í teignum en Ingvar varði glæsilega í horn.

1:2 81. Viktor Örn Guðmundsson gaf frábæra sendingu inn fyrir vörnina á Atla Guðnason sem var ekki rangstæður. Atli kláraði færið vel með því að setja boltann á milli fóta Ingvars í markinu.

2:2 90.+3 Á þriðju mínútu í uppbótartíma jafnaði Mark Doninger metin með skoti af stuttu færi.

Gul spjöld:

Engin.

Rauð spjöld:

Engin.

MMM

Enginn.

MM

Enginn.

M

Jóhann Laxdal (Stjarnan)

Hörður Árnason (Stjarnan)

Kennie Chopart (Stjarnan)

Halldór Orri Björnsson (Stjarnan)

Ellert Hreinsson (Stjarnan)

Guðjón Árni Antoníusson (FH)

Pétur Viðarsson (FH)

Freyr Bjarnason (FH)

Björn Daníel Sverrisson (FH)

Atli Guðnason (FH)

Albert Brynjar Ingason (FH)

*FH hefur unnið sex Íslandsmeistaratitla á síðustu níu árum og aldrei lent neðar en í öðru sæti í 10 ár.

*Þetta er í fyrsta skipti sem Stjarnan og FH skilja jöfn á Stjörnuvellinum síðan Stjarnan kom aftur upp í efstu deild.