Óttarr Proppé
Óttarr Proppé
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrr á árinu útskýrði Einar Örn Benediktsson, borgarfulltrúi Besta flokksins, að hann væri aðeins borgarfulltrúi á milli níu á morgnana og fimm síðdegis og þess vegna þyrfti hann ekki að fara að siðareglum borgarinnar á öðrum tímum dags.

Fyrr á árinu útskýrði Einar Örn Benediktsson, borgarfulltrúi Besta flokksins, að hann væri aðeins borgarfulltrúi á milli níu á morgnana og fimm síðdegis og þess vegna þyrfti hann ekki að fara að siðareglum borgarinnar á öðrum tímum dags.

Með þessari óvenjulegu röksemdafærslu var að hans mati greið leið í boðsferð til Parísar sem hefði ekki verið innan fyrrgreindra tímamarka.

Annar borgarfulltrúi Besta flokksins, Óttarr Proppé, er ekki síður óviss en Einar Örn um það hvenær hann er borgarfulltrúi og olli það misskilningi á dögunum.

Þegar blaðamaður hringdi í hann gerði hann að eigin sögn „þau mistök að gleyma því að blaðamaðurinn væri að tala við mig sem borgarfulltrúa meirihlutans í borginni“.

Vissulega getur verið snúið fyrir margbrotna menn að vita hvers vegna blaðamaður hringir í þá og ræðir atvinnuástandið í borginni.

Ekki var síður líklegt að blaðamaður væri að hringja til að fá álit tónlistarmannsins, handritshöfundarins eða leikarans Óttars Proppé á stöðu og þróun atvinnumála í borginni.

Þess vegna er mjög trúlegt að þegar Óttarr hallmælti árangri yfirvalda í atvinnumálum hafi hann í raun ekki verið að hallmæla árangri yfirvalda heldur verið að tala um eitthvað allt annað.