Fjárhaf Skeiðarétt er afrétt Flóa- og Skeiðamanna og var þar margt um mann og fé um helgina enda gjarnan margir sem vilja fylgjast með réttum.
Fjárhaf Skeiðarétt er afrétt Flóa- og Skeiðamanna og var þar margt um mann og fé um helgina enda gjarnan margir sem vilja fylgjast með réttum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
María Ólafsdóttir maria@mbl.is Réttað var í mörgum sveitum landsins um helgina og því víða mikill atgangur þegar bændur og búalið drógu fé sitt í dilka.

María Ólafsdóttir

maria@mbl.is

Réttað var í mörgum sveitum landsins um helgina og því víða mikill atgangur þegar bændur og búalið drógu fé sitt í dilka. Eftir umhleypinga í veðri í síðustu viku fyrir norðan virðist sem víðast hvar hafi viðrað ágætlega nú um helgina þegar fé kom af fjalli. Sameinuðust kynslóðir við það verk að finna fé sitt í vænum hópi sauðfjár.

Í Hrunaréttum í Hrunamannahreppi var margt um manninn og hátt á sjötta þúsund fjár komið til rétta. Lentu fjallmenn í miklu illviðri í Kerlingarfjöllum og nágrenni en með miklum dugnaði og skipulagi tókst að smala svæði á einum degi sem venjulaga er smalað á tveim dögum og kom því ekki til að fresta þyrfti réttunum. Í Hraunsrétt í Aðaldal var fjöldi fólks samankominn til þess að draga það fé í dilka sem verið hafði úti í hretinu á Þeistareykjum á dögunum. Yfir þrjú þúsund fjár voru í réttinni og töldu margir að unnist hefði varnarsigur í þessum erfiðleikum, en leitum á Þeistareykjum er þó ekki lokið. Í Tungnaréttum í Bláskógabyggð og Skeiðaréttum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi var einnig margt um manninn um helgina.