Ljótur hálfviti Sævar Sigurgeirsson er textasmiður, tónlistarmaður, leikskáld, leikari og ljótur hálfviti.
Ljótur hálfviti Sævar Sigurgeirsson er textasmiður, tónlistarmaður, leikskáld, leikari og ljótur hálfviti. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvað ertu að hlusta á um þessar mundir? Í bílnum hljóma tvær plötur til skiptis, góðkunningjar mínir í Múgsefjun og fyrri plata Moses Hightower sem ég fjárfesti í á ferðalaginu í sumar og er algjörlega skítfallinn fyrir.
Hvað ertu að hlusta á um þessar mundir?

Í bílnum hljóma tvær plötur til skiptis, góðkunningjar mínir í Múgsefjun og fyrri plata Moses Hightower sem ég fjárfesti í á ferðalaginu í sumar og er algjörlega skítfallinn fyrir. Bæði bönd með betri hljómsveitum á landinu og eðaltextasmiðir. Í tölvunni hins vegar er ég að hlusta á splunkunýja og óútkomna plötu Skálmaldar, Börn Loka (af því ég er með klíkusambönd). Fáránlega mögnuð!

Hvaða plata er sú besta sem nokkurn tíma hefur verið gerð að þínu mati?

Ég hef ekki hugmynd um það – og ég á örugglega eftir að hlusta á hana.

Hver var fyrsta platan sem þú keyptir og hvar keyptir þú hana?

Var mjög afkastalítill plötukaupandi á yngri árum – naut þess að ganga í tónlist eldri systkina minna og tók upp safnspólur – en mig minnir að fyrsta spólan sem ég keypti hafi verið Welcome to the show með Drýsli, í einhverri tannréttingaferðinni til Akureyrar.

Hvaða íslensku plötu þykir þér vænst um?

Æfintýri í Mararþaraborg með lestri og söng Helga Skúlasonar leikara. Það var barnaplatan með stóru B á mínu heimili og Helgi heitinn algjörlega stórkostlegur. Ég er ennþá skíthræddur við Krabba Kubb.

Hvaða tónlistarmaður værir þú mest til í að vera?

Baldur Ragnarsson. Af því þá kynni ég á allt sem hægt er að spila á. (Ég væri samt til í að vera ljótari en hann – hitt er bara vesen).

Hvað syngur þú í sturtunni?

Ég leggst yfirleitt í bað. Og hef það svo sjóðbullandi heitt að söngvöðvarnir lamast.

Hvað fær að hljóma villt og galið á föstudagskvöldum?

Minnist þessi ekki að hafa sett tónlist í gang á föstudagskvöldi síðan löngu fyrir aldamót. Þá hljómar bara barnasuð um pizzur og kósíkvöld og sjónvarpsgláp, þ.e.a.s.ef ég er ekki einhvers staðar að troða upp með hálfvitum. Þá hljóma þeir.

En hvað yljar þér svo á sunnudagsmorgnum?

Sönglaust og sjóðandi heitt bað, með útvarpstæki á brúninni, helst lágt stilltu á Rás 1 – eða dauðaþögn.