Hjalti Geir Erlendsson
Hjalti Geir Erlendsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Davíð Ingason og Hjalta Geir Erlendsson: "En um tvítugt verða ákveðin kaflaskil og það má segja að veruleikinn ráðist á íþróttamanninn. Þú ert fullorðinn og til þess að vera tekinn alvarlega er nauðsynlegt að leggja allt í sölurnar."

Til hamingju Íslendingar með frábæran árangur íslenskra íþróttamanna. Á Ólympíuleikunum og Ólympíumóti fatlaðra í London, svo nærtæk dæmi séu nefnd, kepptu glæsilegir fulltrúar Íslands sem fönguðu athygli allrar þjóðarinnar og reyndar margfalt fleiri áhorfenda. Það er engin tilviljun að við eigum svo glæsilega íþróttamenn. Aðstaða og aðbúnaður til íþróttaiðkunar hefur stórbatnað á undanförnum árum en þótt það segi ekki alla söguna skiptir það miklu máli. En oft má gott bæta og við trúum því að Íslendingar geti átt enn fleiri afreksmenn – t.d. á Ólympíuleikunum í Ríó 2016. Meðal þess sem þarf að endurskoða er aðstoð við ungt fólk í einstaklingsíþróttum sem er að stíga sín fyrstu skref á afrekabrautinni.

Kaflaskipti um tvítugt

Mikil ánægja fylgir því að vera efnilegur unglingur í íþróttum. Markvissar æfingar í góðum félagsskap og kannski ein eða tvær æfinga- eða keppnisferðir á ári. Þú ert ung(ur), átt framtíðina fyrir þér og hefur litlar áhyggjur á meðan foreldrarnir geta aðstoðað við að borga þessar fáu æfingaferðir sem farið er árlega. En um tvítugt verða ákveðin kaflaskil og það má segja að veruleikinn ráðist á íþróttamanninn. Þú ert fullorðinn og til þess að vera tekinn alvarlega er nauðsynlegt að leggja allt í sölurnar. Gríðarlegur tími fer í æfingar og þú ferð í a.m.k. fjórar til fimm keppnis- eða æfingaferðir árlega sem hefur mikinn kostnað í för með sér.

Komast ekki á stórmót vegna kostnaðar

Á þessum tímamótum upplifa margir íþróttamenn sig munaðarlausa. Þeir hafa enn ekki „slegið í gegn“ en hafa þó alla burði til að gera það á stórmótum næstu ára. Félagarnir eru hættir að æfa íþróttir og samfélagið ætlast ekki til þess að þú eyðir of miklum tíma í eitthvert „sprikl“. Ekkert fyrirtæki vill styrkja óþekktan íþróttamann en eftir að hann hefur náð athygli keppast þau um að bendla nafn sitt við árangurinn. Á tyllidögum keppist svo hver um annan þveran við að hampa afrekunum og hrósa íþróttamönnum fyrir að vera frábærar fyrirmyndir. Allir vildu Lilju kveðið hafa.

Það er full vinna að vera góður íþróttamaður. Oftar en ekki geta íþróttamenn ekki stundað hefðbundna vinnu vegna æfinga svo erfitt getur verið að greiða fyrir keppnisferðir. Styrkir ÍSÍ duga í sumum tilvikum aðeins fyrir einni keppnisferð á ári. Dæmi eru um að ungir íslenskir íþróttamenn hafi þurft að hætta við að keppa á heimsmeistaramótum vegna þess að það er of kostnaðarsamt! Vert er að taka fram að samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar eru öllu íþróttastarfi í landinu ætlaðar 385,3 milljónir úr ríkissjóði á næsta ári. Þar af fær ÍSÍ 154,2 milljónir króna sem er skammarlega lág upphæð en til að setja hana í samhengi fær Sinfóníuhljómsveit Íslands 901,1 milljón árið 2013 samkvæmt frumvarpinu. En vandinn felst þó ekki aðeins í litlu fjármagni heldur einnig skorti á viðurkenningu.

Íþróttamenn í námi fái stuðning

Fjölmargir stunda nám jafnhliða íþróttaiðkun. Eins og gefur að skilja fylgir því ekki mikill peningur og til þess að eiga rétt á fullum námslánum þarf að vera í fullu námi. Það er ekki í öllum tilvikum hægt að ætlast til þess að íþróttamaður sem t.d. æfir af kappi fyrir heimsmeistaramót klári 30 einingar á önn til að fá fullt lán frá LÍN. Íþróttamenn eiga ekki að þurfa að fórna námi fyrir íþróttaafrek eða öfugt. Slík skammsýni á ekki heima í háþróuðu samfélagi á 21. öld. Íþróttamenn eiga að fá stuðning til að sinna námi og keppni. ÍSÍ ætti t.d. að hafa heimild til að votta um að tiltekinn einstaklingur sé keppnisíþróttamaður og slíkt vottorð gæfi handhafanum heimild til að stunda hálft háskólanám en þó á fullum námslánum hjá LÍN. Slíka tilhögun mætti útfæra þannig að aðeins þeir sem keppa fyrir Ísland á stórmótum fengju þannig passa og aðeins til eins árs í einu. Það yrði hvetjandi fyrir íþróttamennina og skólana.

Sérsamböndin og ÍSÍ reyna af veikum mætti að styðja við bakið á íþróttamönnum en strúktúrinn virðist veikur og samböndin standa mörg hver höllum fæti fjárhagslega. Þá gerist það að kostnaður við keppnisferðir lendir á sjálfum íþróttamönnunum, sem þó keppa fyrir hönd allrar þjóðarinnar, og það er algjörlega óásættanlegt. Hvers virði er það fyrir hróður, ímynd og hagsmuni Íslands að eiga afreksfólk sem vekur athygli á landi og þjóð alþjóðlegum vettvangi með glæsilegri framgöngu? Afreksmenn í íþróttum gefa þjóðinni svo mikið að það ætti að vera forgangsatriði að standa við bakið á þeim!

Höfundar hafa báðir starfað innan íþróttahreyfingarinnar á Íslandi.