Þó að erfitt sé að ímynda sér það í skjóli húsanna í borginni, þá er nútímamaðurinn þrátt fyrir allt leiksoppur náttúrunnar og á líf sitt undir henni.

Þó að erfitt sé að ímynda sér það í skjóli húsanna í borginni, þá er nútímamaðurinn þrátt fyrir allt leiksoppur náttúrunnar og á líf sitt undir henni.

Kvikmyndin Djúpið sem forsýnd var í gærkvöldi minnir óþyrmilega á þessa miskunnarlausu staðreynd – að náttúran verði ekki umflúin. Hún fjallar um eina af þeim stéttum sem sækja lífsviðurværi sitt í greipar náttúrunnar og vel við hæfi að hún sé tileinkuð íslenska sjómanninum.

Kvikmyndin Djúpið er byggð á þeim hörmungaratburði þegar Hellisey VE 503 sökk við Vestmannaeyjar og fjórir menn fórust. Ungur sjómaður, Guðlaugur Friðþórsson, storkaði örlögunum og synti til lands.

„Manni verður kalt af því að horfa á þessa mynd,“ sagði einn bíógesturinn á leið út. Óhætt er að taka undir það. En það er ekki bara kuldinn sem nístir mann, heldur líka sorgin og þjáningin. Um leið gleðst maður yfir lífinu og þrautseigjunni og æðruleysinu.

Og kuldinn herðir mann. Tilfinningin ekki ósvipuð því að lesa Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson, sem byggð er á svaðilför Fjalla-Bensa í leit að kindum um hávetur. Það verður mun bærilega að fara út í frostið og snjóinn að skafa af bílnum eftir að hafa sett sig í spor Fjalla-Bensa og þraukað öræfin með hundi og hrút í glórulausum hríðarbyl í jólamánuðinum.

„Mig langaði til að segja sögu sem myndi tengja okkur við hver við erum og hvaðan við komum,“ sagði leikstjórinn Baltasar Kormákur á forsýningunni í gær. Og merkilegt nokk, þá veit ég ekki til þess, að gerð hafi verið íslensk kvikmynd um sjóslys, að heimildarmyndum slepptum. Í viðtali sem ég átti við Baltasar Kormák í Sunnudagsmogganum sagði hann sjóslys stærsta marblettinn á þjóðinni:

„Og kannski með því að segja sögu þess sem lifir af er verið að segja sögur þeirra sem fórust, við hvaða aðstæður menn vinna og hversu hrikaleg lífsbaráttan er. Það er engin saga að segja frá bát sem sekkur og allir farast. Þess vegna kallar þessi atburður á mann.“

Það þekkja allir örlagasögur af sjómönnum fyrr á tímum eða öðrum sem glímdu við náttúruna í grimmilegri lífsbaráttu. Ísland var fátækasta ríki Evrópu um aldamótin 1900 og lífsskilyrðin svo ströng um aldir að Íslendingum hafði fjölgað lítið á þúsund árum. Það segir sína sögu að enn gerðu menn út á árabátum og seglbátum undir lok 19. aldar.

Þetta er forsagan að búsetu Íslendinga á þessari harðbýlu eyju hér á norðurhjaranum og hún mótar auðvitað veru okkar hér. Og það er mikils vert að Baltasar Kormákur skuli hafa ráðist í það verk með Djúpinu, sem er hrífandi og sterk kvikmynd, að spinna þráð milli fortíðar og nútíðar, en úr honum er öll menning og lærdómur þjóðarinnar ofinn. Þjóð sem týnir þeim þræði hefur tapað áttum.

pebl@mbl.is

Pétur Blöndal