Narssarsuaq Ana Hansen og Steingrímur J. Sigfússon undirrita.
Narssarsuaq Ana Hansen og Steingrímur J. Sigfússon undirrita. — Ljósmynd/Valdimar Halldórsson
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, og Ane Hansen, sjávarútvegsráðherra Grænlands, undirrituðu á föstudag samning um stjórn grálúðuveiða í hafinu á milli landanna.

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, og Ane Hansen, sjávarútvegsráðherra Grænlands, undirrituðu á föstudag samning um stjórn grálúðuveiða í hafinu á milli landanna.

Íslendingar munu eiga tilkall til 60% kvótans en Grænlendingar 40%. Grálúðukvótinn á næsta ári verður 26.000 tonn en 15% minni árið 2014 eða 22.100 tonn. Þá kveður samningurinn á um að á næstu tveimur árum verði búin til stjórnunaráætlun og mótuð aflaregla sem taki gildi 1. janúar 2015, samkvæmt frétt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Steingrímur sagði meginefni ferðarinnar hafa snúist um landbúnaðarsamstarf landanna, en Ana Hansen fer einnig með landbúnaðarmál í grænlensku landstjórninni.

„Við auðvitað ræddum sjávarútvegsmálin og skrifuðum undir þennan samning sem er mjög ánægjulegur áfangi í samskiptum þessara tveggja landa,“ sagði Steingrímur. Hann sagði það hafa verið nokkurt áhyggjuefni að ekki var samkomulag um grálúðuna, en það náðist núna.

„Það er verulega stór áfangi í að leysa úr óleystum málum milli Grænlands og Íslands að klára þennan grálúðusamning. Fyrir skömmu náðist utan um karfann, þar sem við erum líka stórir aðilar, Grænland og Ísland. Þannig að það hefur nú mjög fækkað þeim óleystu málum sem á milli okkar eru.“

Aðspurður hvort rætt hafi verið um makríllandanir sagði Steingrímur að makrílmálin og önnur sjávarútvegsmál hefði borið á góma án þess að til tíðinda drægi.

gudni@mbl.is