Veldi Facebook-leikur EA er einfölduð útgáfa af Sims-leikjunum vinsælu.
Veldi Facebook-leikur EA er einfölduð útgáfa af Sims-leikjunum vinsælu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Aukin harka hefur færst í deilur á milli leikjafyrirtækjanna Electronic Arts og Zynga.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Aukin harka hefur færst í deilur á milli leikjafyrirtækjanna Electronic Arts og Zynga. Átökin hófust í síðasta mánuði þegar Electronic Arts, EA, höfðaði mál og sakaði Zynga um að hafa hermt eftir leikjaumhverfi Sims-leikjanna vinsælu í lífhermileiknum The Ville.

Sims-leikjaröðin er þróuð af Maxis leikjasmiðjunni, sem heyrir undir Electronic Arts. Sims-leikirnir eru með vinsælustu leikjum fyrr og síðar. Er t.d. Sims 2 frá árinu 2004 mest seldi PC-leikur allra tíma og hefur selst í yfir 20 milljónum eintaka á heimsvísu. Árið 2008 höfðu yfir 100 milljón eintök af leikjum í Sims-seríunni verið seld.

Frumsamið eða stolið?

Að sögn tækniritsins Techcrunch þykir EA sem Zynga hafi greinilega hermt eftir Facebook-leiknum Sims Social, en um er að ræða einfaldaða útgáfu af hinum hefðbundna Sims-leik. Þykir EA svo margt vera líkt með leikjum Maxis og Zynga að varla sé hægt að greina þar á milli. Zynga þvertekur fyrir þetta og segir The Ville byggjast á áralangri þróun og sækja efnivið í fjöldamarga aðra leiki Zynga til þessa s.s. YoVille, CityVille og CastleVille. Þvert á móti þykir Zynga að nýi EA leikurinn SimCity Social sé furðulíkur Zynga-leiknum Cityville.

Nýjasta útspilið kemur svo úr herbúðum Zynga, sem síðdegis á föstudag kærði EA fyrir að beita ólögmætum samkeppnishamlandi brögðum til að hinda Zynga í að ráða til sín fyrrverandi starfsmenn EA. Zynga hefur tekist að laða til sín nokkra hátt setta EA-liða. Þannig náði Zynga að krækja í EA stjórnandann Mark Pincus og markaðsmanninn Jeff Karp á síðasta ári en reyndar eru þeir báðir horfnir á brott í dag, að því er Wall Street Journal greinir frá.

Lækkandi hlutir flækja málin

Zynga hefur átt í basli með að halda í stjórnendahóp fyrirtækisins vegna lækkandi hlutabréfagengis. Hefur léleg frammistaða á markaði rýrt virði markaðstengdra kaupauka og þannig minnkað tryggð stjórnenda við vinnustaðinn. Zynga fór á markað í desember og var þá hluturinn verðlagður á 10 dali, en er nú að seljast á 3,18 dali.

Höfundarréttarlögfræðingar á San Francisco-svæðinu hafa í það minnsta í nógu að snúast þessa dagana. Zynga hefur einmitt ráðið í sína þjónustu lögfræðistofuna Quinn, Emanuel Urquhart & Sullivan sem hefur annast málflutning fyrir hönd raftækjarisans Samsung í yfirstandandi deilum við Apple.