Jón Gauti Kristjánsson fæddist í Reykjavík 25. mars 1949. Hann lést 2. september 2012.

Útför Jóns Gauta var gerð frá Fossvogskapellu 11. september 2012.

Jón Gauti Kristjánsson frændi okkar er látinn aðeins 63 ára að aldri. Við vorum systkinabörn, börn systkina sem misstu báða foreldra sína úr spönsku veikinni í sömu vikunni, pabbi hans aðeins fimm og mamma okkar þriggja ára að aldri og milli þeirra var alltaf sérstakt samband af ást og kærleika. Jón Gauti og systur hans þrjár hafa líka verið okkur tengdari en önnur frændsystkin enda mikill samgangur á milli okkar meðan foreldrar okkar beggja héldu heimili. Jón Gauti var hjá okkur í sveit í Kollsvík nokkur sumur og minntist þeirra tíma alltaf með gleði og mundi þá ótrúlega vel. Jón Gauti var sérstakur maður, hláturmildur, góðhjartaður og umhyggjusamur og hans sérgáfa voru ættartengsl og afmælisdagar og var ótrúlegt hvað hann hafði þetta allt á hreinu. Hann þurfti að klífa brattari brekkur en við flest á lífsleiðinni en hefur nú horfið af braut til annarra vega en við stöndum eftir og söknum hans, þá sérstaklega systur hans þrjár og nær 100 ára gömul móðir hans sem sér nú á eftir frumburði sínum.

Við frændsystkinin sendum ykkur, Kristjana, Þórdís Anna, Guðbjörg Eva og Eva frænka, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Farðu, frændi, í guðsfriði.

Þórdís Todda, Jón Halldór, Ástbjörg, Hansína, Esther, Guðbjartur Ástráður, Sólrún Anna og Trausti Ólafsbörn og tengdafólk.