Lífefnafræðingur Hin danska Rikke Poulsen stefnir á doktorsnám og langar í framtíðinni að fást við frekari rannsóknir á sínu sviði.
Lífefnafræðingur Hin danska Rikke Poulsen stefnir á doktorsnám og langar í framtíðinni að fást við frekari rannsóknir á sínu sviði. — Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
María Ólafsdóttir maria@mbl.is Daninn Rikke Poulsen útskrifaðist með háa 1. einkunn úr BS-námi í lífefnafræði frá Háskóla Íslands nú í vor.

María Ólafsdóttir

maria@mbl.is

Daninn Rikke Poulsen útskrifaðist með háa 1. einkunn úr BS-námi í lífefnafræði frá Háskóla Íslands nú í vor. Lokaeinkunn Rikke var 8,8 en hún var ein af fimm nemendum sem í ár hlutu viðurkenningu úr verðlaunasjóði Guðmundar P. Bjarnasonar frá Akranesi. Hlaut Rikke 500 þúsund krónur úr sjóðnum.

„Það er frábært að fá svona stuðning sem námsmaður og í fyrsta skipti sem það hefur borgað sig fjárhagslega að vera duglegur við námið,“ segir Rikke sem hóf nám við Háskóla Íslands árið 2009. Áskorun felst í því að hefja nám á nýju tungumáli en Rikke segir kennara sína hafa reynst sér vel. Eins þyki sér Íslendingar góðir í því að búa til ný orð og íslensku orðin í lífefnafræðinni hafi því flest reynst rökrétt og hægt að giska á hvað þau þýddu.

Meistaranám í Danmörku

Rikke talar góða íslensku en hún á íslenskan kærasta sem hún segir að hafi verið duglegur að tala við sig íslensku. Hún hóf að læra íslensku vorið 2009 en settist þá um haustið á skólabekk og sótti nokkra íslenskukúrsa í Háskóla Íslands til að læra grunninn í málinu. Hún segir íslenskuna hafa verið erfiða til að byrja með en málfærnin hafi komið smám saman.

Rikke hefur nú hafið meistaranám í umhverfisefnafræði og heilbrigðisfræði í Danmörku. Í framhaldi af því stefnir hún á doktorsnám og langar í framtíðinni að fást við rannsóknir.

„Þetta er svolítið eins og að vera í eldhúsi þar sem maður prófar sig áfram við að blanda saman hlutum nema þetta er meira spennandi þar sem hlutir geta sprungið og slíkt. Ég hef lent í slíku af og til,“ segir Rikke í léttum dúr.

Spilar öðru hvoru á trompet

Í lokaverkefni sínu kannaði Rikke hvaða áhrif flúor sem fer út í jarðveginn eftir eldgos hefur á umhverfið og lífríkið og þá sérstaklega örverur í jarðvegi. Hún segist gjarnan vilja nýta nám sitt frekar á þennan hátt í framtíðinni með því að færa vísindin meira inn í daglegt líf fólks. T.a.m. með því að skoða áhrif ýmissa efna á matinn sem fólk neytir. Þá umræðu mætti auka hér á landi og sér Rikke jafnvel fyrir sér að geta tekið þátt í slíku hérlendis í framtíðinni. Rikke hefur lítinn tíma aflögu fyrir utan námið en hún spilar þó öðru hvoru á trompet og lék í Lúðrasveitinni Svani meðfram náminu.

„Það er gaman að hafa eitthvað annað að gera með náminu. Það er alltaf smáheppni að verða hæst en ég held að ég sé góð í að vinna mikið og reyni að gera mitt besta,“ segir Rikke.

VERÐLAUNASJÓÐUR

Fimm nemendur verðlaunaðir

Verðlaunasjóður Guðmundar P. Bjarnasonar frá Akranesi var stofnaður árið 2000 með rausnarlegri gjöf Guðmundar. Tilgangur sjóðsins er að verðlauna efnilega útskriftarnemendur í eðlisfræði og efnafræði við Háskóla Íslands. Verðlaunin miðast við BS-nemendur í eðlisfræði, efnafræði og lífefnafræði. Guðmundur fæddist á Sýruparti á Akranesi 1909 og átti þess ekki kost að stunda háskólanám en starfaði sem netagerðarmaður og fiskmatsmaður á Akranesi. Verðlaunahafar í ár voru Tómas Örn Rosdahl, Kristinn Kristinsson og Sveinbjörn Finnsson, allir úr eðlisfræði, sem útskrifuðust með ágætiseinkunn. Hlutu þeir hver um sig eina milljón króna en auk Rikke hlaut einnig verðlaun Sara Björg Sigurðardóttir sem útskrifaðist úr efnafræði með háa 1. einkunn og hlaut hún 500 þúsund.