John McCain
John McCain
50 manns hafa verið handteknir í Líbíu í tengslum við árásina á ræðisskrifstofu Bandaríkjanna í Benghazi í síðustu viku. Fjórir Bandaríkjamenn, þar á meðal sendiherra landsins í Líbíu, féllu í árásinni.

50 manns hafa verið handteknir í Líbíu í tengslum við árásina á ræðisskrifstofu Bandaríkjanna í Benghazi í síðustu viku. Fjórir Bandaríkjamenn, þar á meðal sendiherra landsins í Líbíu, féllu í árásinni. Bandaríkjamenn og Líbíumenn eru ekki sammála um hverjir voru að verki. Susan Rice, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði í gær að áhlaupið væri afleiðing sjálfsprottinna mótmæla sem öfgamenn hefðu blandað sér í. Þungavopnum hefði verið beitt sem væru því miður of algeng í Líbíu í kjölfar byltingarinnar gegn Gaddafí. „Við sjáum ekki á þessu stigi málsins að þetta hafi verið skipulögð árás,“ sagði Rice.

Augljóslega hryðjuverk

Mohammed al-Megaryef, forseti líbíska þingsins, tilkynnti í dag handtökur 50 manna sem grunaðir væru um verknaðinn. Hann tók í annan streng en Rice og sagði að árásin hefði verið skipulögð fyrirfram af nokkrum erlendum öfgamönnum sem hefðu komið til landsins frá Malí og Alsír. „Augljóst er að ódæðið var skipulagt fyrirfram og framkvæmt af mikilli ákveðni,“ sagði al-Mefaryef.

Ummæli Rice þykja varfærnisleg, en bandarísk yfirvöld höfðu áður gefið til kynna að árásin hefði verið fyrirfram skipulögð. John McCain sagði að fráleitt væri að trúa því að árásin hefði ekki verið skipulögð af öfgamönnum. „Fæstir taka með sér flugskeytabyssur og þungavopn til mótmæla,“ sagði hann og fullyrti að árásin hefði verið hryðjuverk. „Ef einhver er ósammála þeirri staðreynd hunsar viðkomandi staðreyndir málsins,“ sagði hann enn fremur.