Heimir Snær Guðmundsson heimirs@mbl.is „Á þessu stigi get ég sagt að ég hef aldrei séð lögtækni gert jafn hátt undir höfði í íslenskri réttarsögu.

Heimir Snær Guðmundsson

heimirs@mbl.is

„Á þessu stigi get ég sagt að ég hef aldrei séð lögtækni gert jafn hátt undir höfði í íslenskri réttarsögu. Þetta er gert með því að einskorða umboðið til þess að fara yfir grundvallarlög landsins með lögtækni, hugtaki sem enginn veit hvað er. Það er áberandi þversögn falin í því hjá forsætisráðherra að biðja um lögtæknilega úttekt en nefna úttektina engu að síður degi seinna lögfræðilegan gæðastimpil,“ segir Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og lektor við Háskólann á Akureyri, aðspurð um niðurstöður sérfræðihóps um tillögur stjórnlagaráðs. Kristrún og Bryndís Hlöðversdóttir, rektor Háskólans á Bifröst, halda erindi á sameiginlegum fundi háskólanna um niðurstöðu sérfræðihópsins í Háskólanum í Reykjavík í dag.

„Ég sé ekki betur en að í ábendingunum felist að einhverju leyti efnislegar breytingar. Enda er kannski vandrataður meðalvegurinn á milli þess að gera lagatæknilegar og efnislegar breytingar. Að öðru leyti finnst mér þetta verk vel unnið að flestu leyti. Þeir sníða af ákveðna vankanta en koma svo með efnislegar ábendingar í almennum athugasemdum,“ segir Bryndís.

„Vönduð, djúp og þverfagleg“

Kristrún er á því að sérfræðihópurinn hafi gert sér grein fyrir þeim annmörkum sem á því eru að vinna út frá svo þröngu umboði og þess vegna leggi hópurinn áherslu á það í skilabréfi sínu að nauðsynlegt sé að gera heildstæða úttekt á réttaráhrifum tillagnanna. „Ég held að það sé skylda Alþingis og þingmanna hvar í flokki sem þeir standa að fara fram á að slík úttekt verði gerð, hún verði vönduð, djúp og þverfagleg,“ segir Kristrún.

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að skoða vandlega þau áhrif sem tillögur stjórnlagaráðs og ábendingar sérfræðihópsins hafa á stjórnskipun landsins. Alþingi fer með málið en hefur að sjálfsögðu umboð til að fela öðrum að gera slíka úttekt, sé vilji fyrir slíku,“ segir Bryndís.

Stjórnarskrármálið afgreitt 2, 26