Yndislestur Hópur barna mætir í sögustund á Amtsbókasafninu á Akureyri á fimmtudögum og sumir gleyma sér í bókahillunum.
Yndislestur Hópur barna mætir í sögustund á Amtsbókasafninu á Akureyri á fimmtudögum og sumir gleyma sér í bókahillunum. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BAKSVIÐ Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.

BAKSVIÐ

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

„Yndislestur getur einn og sér styrkt mjög stöðu nemenda í skólanum, nemendahópsins sem heildar og þar með samkeppnisstöðu þjóðarinnar,“ segir Brynhildur Þórarinsdóttir, stjórnarformaður Barnabókaseturs Íslands á Akureyri.

Brynhildur segir að margar rannsóknir séu til um lestrarvenjur ýmissa árganga á Íslandi og þróun lestrarvenju, sem sýni minnkandi lestur barna. „Okkur langaði að snúa við sjónarhorninu, hætta að tala um vandamálið og reyna að finna út hvernig læra megi af krökkum sem ennþá lesa eitthvað, nýta sterku lesendurna,“ segir hún um lestrarannsóknina.

Foreldrarnir mikilvægir

Í rannsókninni var rætt við krakkana um lestrarvenjur, lestraruppeldi, hver læsi heima, hvernig þeir kynntust bókum og lestri og svo framvegis til þess að finna út hver þáttur foreldra er og uppeldis í áhuga krakka á lestri. Brynhildur segir að markmiðið hafi verið að komast að því hvað geri krakka að sterkum lesendum og hvernig efla megi hópinn til þess að fjölga krökkum sem lesa.

Starfsfólk Barnabókasetursins vinnur út frá því að lestur sé ekki einkamál krakkanna. Allar viðkomandi rannsóknir sýni að lestur barna sé í beinu sambandi við fjölskylduaðstæður, menntun og efnahag foreldranna. Lestraráhugi barna og lestrarvenjur hefjist heima og ráðist mikið af því hvernig foreldrar standi sig í lestraruppeldinu. Rannsóknin hjálpi því til við að ná til foreldra og fjölskyldna auk þess sem hún aðstoði yfirvöld á sviði mennta, menningarmála og félagsmála við að móta stefnu með það að leiðarljósi að lestur sé spurning um menningarlegan auð og félagslega stöðu krakkanna.

„Við sjáum að börn þurfa að alast upp við bóklestur og það þarf að lesa fyrir þau frá því þau eru pínulítil,“ segir Brynhildur. „Þau þurfa að sjá bækur í kringum sig. Þau þurfa að sjá lesendur sem fyrirmyndir, bæði pabba og mömmu. Þegar þau eru komin í skólann þurfa þau að hafa kennara sem hefur áhuga á bóklestri. Þau þurfa að hafa gott skólasafn.“

Bóklestur og námsárangur

Brynhildur bendir á að rannsóknir hafi sýnt að beint samband sé milli áhuga og ánægju af bóklestri og árangurs í lesskilningi og þar með námsárangurs. Til dæmis sé mjög sterk fylgni á milli lesskilnings og árangurs í stærðfræðiprófum enda séu flest dæmin lesskilningsdæmi. Börn og unglingar sem lesi daglega standi sig allt að einu og hálfu skólaári betur í lesskilningi heldur en börn sem geri það ekki. Mikilvægt sé því að nýta niðurstöðurnar í skólunum og það sé til dæmis hægt að gera með því að taka 20 til 30 mínútur á dag í yndislestur, því yndislestur styrki lesskilning og þar með námsárangur. „Lestur er ekki bara tómstundastarf, afþreying eða tímasóun eins og maður, því miður, finnur stundum að skólayfirvöldum finnst,“ segir Brynhildur. Hún bætir við að þetta eigi sérstaklega við um eldri bekkina, það sé eins og svigrúm til yndislestrar detti svolítið niður í 5. og 6. bekk og sé meira og minna horfið í unglingadeildum. Hún áréttar að gott starf sé unnið í mörgum skólum hvað þetta varðar, en aldrei sé of vel gert. „Það hefur verið sýnt fram á að krakkarnir okkar lesa minna að jafnaði en krakkar í þeim löndum sem standa sig betur í lesskilningi.“

LESTRARRANNSÓKN BARNABÓKASETURS ÍSLANDS

Lestrarhestar víða virkir

Helstu niðurstöður lestrarrannsóknar Barnabókasetursins eru þær, að sögn Kristínar Hebu Gísladóttur sem sá um rannsóknina ásamt Þorbjörgu Ólafsdóttur, að allir lestrarhestarnir ólust upp við það að báðir foreldrar lásu fyrir þá en öll börnin í viðmiðunarhópnum nutu aðeins lestrar mæðra sinna. Lestrarhestarnir nefndu ýmsar ástæður fyrir lestrinum s.s. til þess að geta lesið texta á bíómyndum, til að standa sig í skóla eða til þess að geta farið í háskóla en aðeins eitt barn í viðmiðunarhópnum gaf upp þá ástæðu fyrir lestri sínum að geta lesið orðadæmi í stærðfræði. Engin neikvæð viðhorf voru gagnvart lestrarhestum og þeir reyndust vera mjög virkir á öðrum sviðum eins og t.d. í íþróttum og tónlistarnámi. Lestrarhestarnir sögðu að það væri einstaklingsbundið hvað hver læsi en börnin í viðmiðunarhópnum voru hörð á því að ákveðnar bækur væru fyrir stelpur og aðrar fyrir stráka. „Þau voru þröngsýnni,“ segir Kristín Heba.

Í sumar tóku 44 börn þátt í sumarlestrarnámskeiði Amtsbókasafnsins og 17 þeirra, fædd 2002 og 2003, tóku þátt í lestrarrannsókninni. Auk þess sjö börn á sama aldri úr viðmiðunarhópum. Kristín Heba greinir frá niðurstöðunum á málþingi sem hefst kl. 16 í dag í Háskólanum á Akureyri.