Ólafur Óskar Angantýsson fæddist á Flateyri við Önundarfjörð 30. apríl 1953. Hann andaðist á heimili sínu, Þorfinnsgötu 6, 6. nóvember 2012.

Foreldrar hans voru Angantýr Guðmundsson skipstjóri, f. 1. júlí 1916, d. 21. maí 1964 og Arína Þórlaug Íbsensdóttir ritari, f. 11. september 1923, d. 14. október 1994. Systkini Ólafs eru: a. Íbsen Angantýsson fyrrverandi skipstjóri, f. 3. október 1941, kvæntur Huldu Guðmundsdóttur, b. Bára Angantýsdóttir fyrrverandi bankastarfsmaður, gift Einari Sigurgeirssyni, c. Auður Angantýsdóttir hjúkrunarfræðingur, d. Haukur Angantýsson efnafræðingur sem er látinn, e. Guðrún Angantýsdóttir framhaldsskólakennari, gift Viðari Má Matthíassyni. Uppeldissystir Ólafs Óskars var Soffía Jóna Vatnsdal Jónsdóttir sem er látin.

Ólafur Óskar giftist árið 1978 Álfheiði Kristveigu Lárusdóttur. Þau skildu og áttu soninn Styrmi Þór Ólafsson, f. 16. ágúst 1981. Sambýliskona Styrmis er Sandra Ingrid Penttinen og þau eiga tvær dætur, Miranda Ingrid Arína og Alva Björk.

Ólafur Óskar útskrifaðist frá Menntaskólanum við Tjörnina 1973. Á árunum 1975-1978 starfaði hann við myndblöndun og lýsingu í myndveri Sjónvarpsins. Hann hóf nám í fjölmiðlafræði frá Stockholms Universitet árið 1978 og útskrifaðist sem fil.kand. 1985. Á árunum 1985-1990 vann hann sem dagskrágerðarmaður fyrir Ríkisútvarpið, skrifaði stakar greinar og greinaflokka í hin ýmsu rit um kvikmyndir og fjölmiðla, en starfaði jafnframt sem kennari við fjölbrautaskólann Flensborg í Hafnarfirði og hjá Námsflokkum Reykjavíkur. Hann hóf störf hjá Iðntæknistofnun Íslands sem seinna varð Nýsköpunarmiðstöð Íslands árið 1990 og vann þar til dauðadags.

Útför Ólafs Óskars fer fram í Guðríðarkirkju í Grafarholti í dag, 16. nóvember 2012, og hefst athöfnin kl. 13.

Sólin skín inn um stofugluggann og veitir yl og birtu inn í litlu stofuna við Þorfinnsgötu 6. Fuglarnir syngja í trjánum fyrir utan. Hálflesin bók liggur á sófaborðinu og gleraugu þar við hlið. Það er notalegt að sitja í stofunni. Hér ríkir friður. Það er eins og Óli bróðir hafi rétt skroppið frá, en því miður er hann farinn.

Óli óx úr grasi og átti góða bernsku. Hann var á sumrin hjá þeim Indíönu Eyjólfsdóttur og Gissuri Friðbertssyni á Suðureyri. Það var svo skemmtilegt að heyra hann segja frá hvernig allir krakkarnir í þorpinu léku sér saman á kvöldin. Frásögnin var svo lifandi að í huganum var hlustandinn kominn í leikinn með þeim.

Á unglingsárum var Óli til sjós öll sumur með bræðrum sínum, þeim Íbsen og Hauki. Á menntaskólaárunum var hann bæði á síldveiðum í Norðursjó með Íbsen og með Hauki á Ísafoldinni.

Á síðasta ári í menntaskóla kynntist hann Álfheiði Lárusdóttur og fluttu þau fljótt saman. Óli útskrifaðist úr Menntaskólanum við Tjörnina árið 1973. Hann hóf nám í viðskiptafræði, en 1975 starfaði einnig hjá Sjónvarpinu. Hann hafði mikinn áhuga á ljósmyndun og tók frábærar myndir sem skreyttu íbúðina sem var hlýleg þrátt fyrir lítil efni þeirra. Þau giftu sig 1978 og héldu til Svíþjóðar í nám. Þar lærði Óli fjölmiðlafræði við Stokkhólmsháskóla og þar fæddist sonur hans, Styrmir Þór, árið 1981.

Óli kom heim frá Svíþjóð árið 1985. Hann vann sem dagskrárgerðarmaður fyrir Ríkisútvarpið, sem kennari við fjölbrautaskólann Flensborg og hjá Námsflokkum og skrifaði bókina Myndbandaskólinn, handbók um myndmál kvikmynda. Óli hóf störf hjá Iðntæknistofnun Íslands, síðar Nýsköpunarmiðstöð Íslands árið 1990 og vann á fræðsludeildinni. Óli hefur hannað mest af því fræðsluefni sem stofnunin hefur gefið út. Hann hafði alla tíð mikinn áhuga á að innleiða helstu strauma og nýjungar og sinnti starfinu af alúð og metnaði.

Óli bróðir var hæglátur og hógvær maður. Sólargeislinn í lífi hans var sonurinn Styrmir Þór. Samband þeirra feðga var einstakt og náið. Þeir voru alltaf nánir félagar. Nú seinustu ár hefur verið gaman að fylgjast með Óla sem afa. Hann naut þess að spjalla við Styrmi, Söndru, Miröndu og Ölvu litlu á netinu. Fyrir stuttu varð Miranda fjögurra ára. Óli hafði bakað súkkulaðiköku og skreytt hana með 4 kertum.

Hann stillti kökunni upp fyrir framan tölvuskjáinn og kveikti á kertunum. Hann bað Miröndu að koma nær og blása á kertin. Hún blés en henni tókst ekki að slökkva á þeim. Hún kom nær og blés og blés þar til ljósin á kertunum höfðu verið slökkt. Þá var sunginn afmælissöngur og Óli skar sneið af tertunni og rétti henni. Hún rétti fram höndina og reyndi að ná í kökuna. Þá var henni ljóst að Óli var ekki í stofunni heima hjá henni heldur langt í burtu. Hann þurfti að borða kökuna og segja henni hvernig hún smakkaðist.

Óli gaf hversdagslegum hlutum lit og líf. Við sendum Styrmi, Söndru og litlu telpunum samúðarkveðjur. Við kveðjum Óla bróður með söknuði en erum þakklát fyrir öll árin sem við áttum saman.

Ibsen, Bára, Auður og

Guðrún Angantýsbörn.

Það bar brátt að. Okkur fannst í sumar eins og það væru ótal margar stundir í leik, lestri og hlátri framundan með afa og litlu afastelpunum.

Minningarnar frá því í sumar glitra eins og stjörnur, tærar og greinilegar lýsa þær í myrkrinu. Það er alveg sama í hvaða röð þær koma, þær eru allar bjartar. Það er svo sárt að kveðja. Minningarnar eru svo margar með honum Ólafi. Einni göngu er lokið. Önnur er hafin.

Við berum birtuna saman inn í framtíðina með litlu stúlkunum, Miröndu Arínu og Ölvu Björk. Og litla barninu sem fæðist inn í desembermánuð. Nýtt ljós. Þær kveðja afa sinn með djúpri virðingu og söknuði, með okkur öllum, fjölskyldu Söndru og Styrmis í Stokkhólmi, systrum Styrmis, Mithru Björk og Elínu Þóru og föður þeirra, og fjölskyldu minni allri og kærum vinum. Eilífðin býr í minningunum. Megi minning þín lifa, Ólafur.

Hér stilltu guðir streng;

hann struku dægrin blíð;

þann óm til eyrna bar

mér árblær forðum tíð.

Ég nem hann ljósar nú

er nálgast rökkrið svalt.

Svo fer einn dag að flest

mun fullnað, jafnvel allt.

(Þorsteinn frá Hamri)

Með djúpri virðingu sendi ég systkinum Ólafs og fjölskyldum þeirra einlægar samúðarkveðjur.

Megi hin eilífa birta lýsa þé, Ólafur.

Álfheiður Kristveig

Lárusdóttir.

Þær voru óvæntar og óraunverulegar fréttirnar að þú værir farinn. Við vorum að búast við þeim fréttum að þú værir orðinn enn ríkari, þ.e. að þriðja afabarnið væri komið í heiminn. En fréttunum sem við fengum er erfitt að trúa.

Óli var hlýr, skemmtilegur og einstaklega fróður maður. Alltaf var gaman að spjalla við Óla um allt milli himins og jarðar. Þegar kom að fjölskylduboðum var Óli eimmitt maðurinn sem maður settist hjá og spjallaði við, helst um kvikmyndir eða stöðuna í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Þá tókst honum að opna nýjar víddir á upplifun bóka og kvikmynda. Það var til dæmis einstaklega skemmtilegt að ræða við hann eftir að hafa séð kvikmynd og horfa svo á hana aftur og sjá hana í allt öðru ljósi. Enn betra var að horfa með honum á kvikmyndina, sjá og skilja svo miklu meira af henni en maður hefði annars gert. Eftirminnilegt var Lord of the Rings-maraþonið en þá eyddum við heilum degi hjá Óla frænda og horfðum á Lord of the Rings en dagurinn endaði svo á bíóferð á síðustu myndina í þríleiknum.

Óli hafði mjög skemmtilegan húmor. Eitt dæmi þess var í brúðkaupsveislu þeirrar næstyngstu af okkur, sem haldin var á sama tíma og úrslitaleikur milli Manchester United og Barcelona í Meistaradeild Evrópu í fótbolta. Sá yngsti af okkur hefur alla tíð haldið mikið upp á Man. Utd, var þá að heilsa upp á ættingjana sem óskuðu honum allir til hamingju með systur hans en þegar kom að Óla frænda sagði hann: „Til hamingju með Rooney.“ Þá var Wayne Rooney, liðsmaður Man. Utd, nýbúinn að jafna leikinn.

Það var alltaf gaman að kíkja í heimsókn til Óla frænda, alltaf eitthvað spennandi að gera. Margar minningarnar eru frá sumrum en þá var aldrei að vita hvort Styrmir frændi væri heima. Þeir feðgar voru stór partur af okkar uppvaxtarárum. Óli frændi var mjög duglegur að kynna okkur heim kvikmyndanna og stundum voru hreinlega búnar til stuttmyndir. „Galdramyndböndin“ stóðu líklega mest upp úr en þar leikstýrði Óli frændi og við frændsystkinin vorum í aðalhlutverki. Reyndar var sú næstyngsta ekki með í fyrstu myndunum því hún kunni ekki að galdra, slíkar voru tæknibrellurnar.

Það má með sanni segja að draumaverksmiðja æsku okkar hafi verið heima hjá Óla frænda og kunnum við honum margar þakkir fyrir ótal heimboðin, bara verst að þau geta ekki verið fleiri. Hvíldu í friði, elsku frændi.

Logi, Hildur Ýr, Harpa

og Orri Viðarsbörn.

Óli frændi er farinn yfir móðuna miklu. Hann var okkur allt í senn föðurbróðir, kennari, ráðgjafi og vinur. Við bræður vorum slegnir þegar fréttir bárust af skyndilegu fráfalli hans og trúum þeim varla enn. Eins og þruma úr heiðskíru lofti og hugurinn ferðast á ljóshraða aftur í tímann; ritgerðasmíðar, kvikmyndagerð, rökræður um alls kyns bókmenntir, trúarbrögð, vísindi og pólitík. Óli var hafsjór af visku og fróðleik og hann kunni þá list að miðla og gefa af sér. Hann hafði sérstaka sýn á lífið, svona nokkurs konar blöndu af uppskriftum frá Akira Kurosawa, Richard Dawkins og Gandálfi gráa. Hann opnaði nýja heima. Hans áhrif voru mikil. Hann verður alltaf með okkur. Við trúum því að hann sé nú kominn á betri stað með meiri yfirsýn, þar sem hann brosir blíðlega yfir þessu öllu saman, eða eins og Chaplin orðaði það: „Lífið er harmleikur í nærmynd, en gamanleikur séð úr fjarlægð.“

„Gandálfur: Endir? Nei, ferðalaginu lýkur ekki hér. Dauðinn er bara annar vegur, sá sem við verðum öll að ganga. Hin gráu regntjöld þessa heims dragast frá, og allt breytist yfir í silfrað gler, og þá sérðu það.“

(Hringadróttinssaga – J.R.R. Tolkien)

Með söknuði og þakklæti,

Ríkharður Ibsen, Marteinn Ibsen og Davíð Ibsen.

Fallinn er frá langt fyrir aldur fram kær æskufélagi okkar og vinur Ólafur Angantýsson. Kynni okkar Óla hófust á barnsaldri í Vogaskóla, þar sem við vorum allir í sama bekk. Við þrír urðum fjótlega mjög samrýmdir.

Í hönd fóru hjá okkur áhyggjulaus ár, allt var að gerast. Bítlarnir og Rolling Stones komu fram á sjónarsviðið og 68-kynslóðin varð til. Áhugamálin mörg. Við vorum heimagangar á heimili Óla í Goðheimum og gerðum við okkur sérstaklega títt um heimsóknir um kaffileytið á laugardögum, en þá bakaði Arína mamma hans dýrindis skúffuköku. Á þessum árum var Óli mjög liðtækur í fótbolta, harður keppnismaður og fylginn sér. Mikið farið í bíó og Óli var sérstakur áhugamaður um kvikmyndir og dægurtónlist. Að hans áeggjan lögðum við það á okkur einn vetur í menntaskóla að vera í kvikmyndaklúbbi Menntaskólans við Tjörnina og horfa á sígildar myndir gömlu meistaranna. Að sýningum loknum var Óli iðulega uppnuminn af listinni en við hinir tveir oft hálf deprimeraðir, enda ekki listrænt þenkjandi. Óli var eins og farfugl, hann hvarf strax eftir að skóla lauk á Súgandafjörð og síðar gerðist hann síldarsjómaður í Norðursjónum. Honum var sjómennska í blóð borin og var hann eftirsóttur háseti, var m.a. á dansk-íslenska aflaskipinu Ísafold. Þegar hann kom úr Norðursjónum hélt hann sig flott með fulla vasa af peningum og kom með góðan toll. Litu hann margar snótir hýru auga, hávaxinn og spengilegan. Eitt gamlárskvöld týndum við Óla í Klúbbnum og náðum við ekki í hann í nokkra daga. Hafði hann það kvöld kynnst tilvonandi eiginkonu sinni og þarna voru örlög hans ráðin.

Margar góðar stundir áttum við hjá Óla eftir að hann fór að búa í risholunni á Laugavegi 76. Á þessum tíma lagði hann stund á viðskiptafræði en síðar snérist hugur hans til lista og menningar. Hann hafði næmt listrænt auga og var mjög músíkalskur. Eftir starf hjá Sjónvarpinu fór hann síðar til náms í kvikmyndagerð í Svíþjóð. Eftir erfiðan skilnað flutti Óli einn heim frá Svíþjóð og var það upp úr því sem hann fór að draga sig inn í sína eigin skel. Þá minnkuðu samskipti okkar við hann og urðu því miður nær engin síðustu árin. Þau fáu skipti sem við hittumst sl. vor, var alltaf eins og við hefðum hist deginum áður, hann kátur og reifur. Þegar hann varð 50 ára náðum við með ákveðni að halda honum góða veislu og varð hann það kvöld líkur sjálfum sér eins og hann var á góðri stundu í gamla daga, röltum við þrír í bæinn og rifjuðum upp gamla daga.

Ólafur var greindur mannkostamaður, átti mjög gott með allan þann lærdóm sem hann hafði áhuga á, hæglátur, réttsýnn og tranaði sér ekki fram. Hann var rökfastur um sínar skoðanir á mönnum og málefnum, kátastur og skemmtilegur í góðra vina hópi. Með þessum orðum kveðjum við góðan félaga sem hefur kvatt þetta jarðlíf allt of snemma.

Við vottum Styrmi syni hans og fjölskyldu hans og systkinum Ólafs og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð.

Eyþór Björgvinsson

og Ingileifur Einarsson.

Takk Óli:

Fyrir leiðsögnina, stuðninginn og húmorinn.

Fyrir að vera alltaf þú sjálfur, hvað sem tautaði og raulaði.

Fyrir að vera sannur fagmaður í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur.

Fyrir sýnina þína, sem var einstök, á alls konar útfærslur og framsetningu sem engum öðrum hefði dottið í hug.

Fyrir að vera beittur, hvass og skarpur. Takk fyrir að beita þér.

Og svo miklu fleira. Takk fyrir að gefa þér tíma til að segja mér til um leturfræði, litapælingar um hönnun, listir, West Ham United og um Murakami. Það var stutt í húmorinn hjá þér og einlægnina og viljann til að skila góðu og eftirminnilegu verki. Takk fyrir að vera eftirminnilegur, Óli.

Ég man sérstaklega eftir þegar ég kom fyrst til þín með ómótaðar hugmyndir að markaðsefni fyrir Intelscan og hvernig þú gafst þér tíma til að skoða það út frá alls konar sjónarhornum sem mér hafði ekki dottið í hug. Þú varst með sjónarhorn listamannsins. Takk fyrir listina, Óli. Fyrir allar pælingarnar. Og takk fyrir að hrista upp í mér þegar ég þurfti á því að halda. Þú varst ekki beint að tipla á tánum með útpældar skoðanir þínar á framsetningu markaðsefnis, byggðar á margra ára reynslu þinni, ef maður vogaði sér inn á þann völl með þér. Það mátti heyra á þér að þú vildir að ég gerði betur. Héldi áfram. Að ég ætti ekki að sætta mig við meðalmennsku. Ekki gera bara eitthvað og vona það besta. Hafa metnað. Vaxa. Stækka.

Ég var að skoða gamla pósta frá þér þar sem við vorum að ræða um rithöfundinn Haruki Murakami og pælingar hans með tvo heima. Þú varst eitthvað að velta því fyrir þér af hverju vatnsbrunnar kæmu svo oft fyrir í sögunum hans. Alveg dæmigert að þú skyldir hafa kveikt á þessu, gúglað og komist að eftirfarandi (þetta er úr pósti frá þér, lauslega þýtt): „Japanir trúa að þegar þeir deyja fari þeir í aðra veröld sem þeir kalla „Yomo-no-kuni“ eða „land næturinnar.“ Margir eru á því að leiðin inn í þá veröld liggi í gegnum brunna. Í kvikmyndinni „Akahige eftir meistara Kurosawa,“ sem gerist á Edo-tímanum fyrir 150 árum, kalla nágrannar látins drengs eftir sál hans í vatnsbrunni þorpsins. Þau vildu kalla sál hans aftur úr brunninum og inn í þennan heim. Sennilega stafar þessi trú af því að fólk getur speglað andlit sitt af vatnsyfirborði brunnsins. Í dag fáum við allt vatn úr krana og líklega þess vegna hefur fólki fækkað sem trúir þessu.“

Þetta voru nú bara svona dæmigerðar pælingar frá þér á venjulegum þriðjudegi. Víðlesinn, fróður, hjálpfús, alltaf að skapa og hugsa. Þannig minnist ég þín, kæri vinur. Ég votta aðstandendum mína dýpstu virðingu. Hvíl í friði.

Auðun Georg Ólafsson.

Þegar ég hóf störf hjá gömlu Iðntæknistofnun Íslands, til að sjá þar um tölvumálin, var þar fyrir meðal annarra hann Ólafur Angantýsson. Listamaður á sínu sviði en ekki mikið fyrir tæknilegan bakgrunn stýrikerfa og annars í þeim dúr. En þegar hann fékk tölvu og góðan hugbúnað var hann manna fyrstur til að tileinka sér nýjungar og að láta hugarleikfimi framkalla allskonar listaverk í formi auglýsinga, umbrots prentverka og myndbandavinnslu.

En vegna þess að hann hafði ekki mikinn áhuga á vélbúnaði hófst mjög fljótlega gott samstarf á milli okkar. Hann hafði sérstaka ánægju af að sjá mig opna „Command prompt“ og í kjölfarið að skrifa inn allskonar skipanir og láta tölvuna gera einhverja dularfulla hluti. Þá skemmti hann sér konunglega. Seinna skildi ég betur aðdáun hans á Lisbeth Salander í þríleik Stig Larson út frá þessu.

En í gegnum áhuga okkar beggja á ljósmyndun og öllu er varðar vinnslu á „video“ í tölvum náðum við strax vel saman og nutum báðir góðs af þekkingu hins og lærðum þar af leiðandi mikið hvor af öðrum.

Nokkrum mánuðum seinna, vorið 1998, fékk ég að fara á landsfrægt myndbandanámskeið sem Óli hélt á þeim tíma á vegum fræðsludeildar. Þar lærði maður að horfa á kvikmyndir. Fyrirlestrar hans voru ógleymanlegir og verkefnavinna undir hans stjórn eitthvað það skemmtilegasta sem ég hef tekið þátt í. Hann lærði þessi fræði í Svíþjóð á sínum og hafði mikla ást á því landi alla tíð.

Þegar „Lord of the Ring“-myndirnar komu til sýningar kom í ljós að hann hafði lesið Tolkien sundur og saman og gat frætt okkur hin um öll minnin og táknin sem erfitt er að koma til skila í kvikmyndunum sjálfum þótt þrjár væru og allar langar. Ég kom oft í heimsókn til Óla, oftast til að glíma við einhver vandamál í heimatölvunni eða uppfæra einhvern hugbúnað, en eitt er það heimboð sem ég hef alltaf séð eftir að hafa ekki komist í. Það var þegar þeir feðgar, Óli og Styrmir og einhverjir fleiri útvaldir mættu til hans, um það bil þegar frumsýna átti þriðju myndina, snemma dags og horfðu á fyrstu tvær myndirnar á DVD og svo átti að steðja í bíó og horfa á þriðju myndina. Svona skemmtilegar hugmyndir framkvæma ekki nema fáir útvaldir.

Einhverju sinni vorum við í kaffitíma að ræða myndir Spielbergs. Ég missti það út úr mér að ég hefði aldrei séð E.T. því ég hélt að þetta væri bara krakkamynd. Minn maður var auðvitað mjög hneykslaður, en lét ekki þar við sitja. Daginn eftir kom hann með DVD-mynd með E.T. og skipaði mér að horfa. Sem ég og auðvitað gerði mér til mikillar ánægju. Og í næsta kaffitíma var hún rædd fram og til baka.

Því var það óvænt ánægja að sjónvarpið sýndi E.T. á laugardagskvöld – aðeins nokkrum dögum eftir fráfall míns góða vinar. Og þegar E.T. labbar upp stigann um borð í geimskipið, sem flytur hann brott frá jörðinni og út í óravíddir geimsins, segir E.T. eitthvað á þá leið að hann verði alltaf hér. Þannig vil ég líka hugsa til Óla – þótt hann sé farinn þá verður hann alltaf hér.

Meira um Óla á http://www2.nmi.is/oli

Einar Karlsson.

Þriðjudagurinn 6. nóvember hófst svo sannarlega ekki með venjubundnum hætti í höfuðstöðvum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Keldnaholti því þegar starfsmenn fóru að tínast til vinnu á Holtið var Bimminn hans Óla hvergi sjáanlegur á bílaplaninu og enginn kaffiilmur mætti mannskapnum. Eitthvað var öðruvísi. Eitthvað hlaut að hafa komið upp á!

Líklegast hefði enginn kippt sér upp við það á vinnustaðnum ef einhver annar starfsmaður mætti ekki á ákveðnum tíma eða léti ekki vita af ferðum sínum, en hvað Óla varðaði giltu önnur lögmál. Það var nefnilega nánast hægt að stilla klukkuna sína eftir ferðum hans og því varð samstarfsfólk hans strax verulega áhyggjufullt þegar hann hvorki var mættur til vinnu fyrstur allra né svaraði síma.

Óli andaðist í svefni á heimili sínu aðfaranótt þessa þriðjudags eftir hefðbundinn mánudagsvinnudag, með glaðværð og léttu spjalli við vinnufélagana yfir hádegissoðningunni. Áfall okkar, sem eftir sitjum, er mikið og söknuðurinn sár eftir einstaklega ljúfum samstarfsmanni.

Óli átti 22 ára farsælan starfsferil að baki á Iðntæknistofnun, sem síðar varð hluti af Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Hann setti svo sannarlega sitt mark á stofnunina því nánast allt efni, sem birtist í formi auglýsinga, blaðaútgáfu, myndbanda, bóka og bæklinga, hefur farið í gegnum hans faglegu hendur.

Þegar hugsað er til Óla koma orð eins og vandvirkni, samviskusemi, stundvísi, sköpunargleði og fagmennska upp í hugann. Þrátt fyrir að Óli væri ákaflega ljúfur maður og þægilegur í allri umgengni sló hann aldrei af faglegum kröfum og það komst ekki nokkur maður upp með að hugsa ekki hlutina til enda eða ætla sér að fara á auðveldri hraðferð í gegnum það efni, sem átti að birtast í nafni stofnunarinnar. Óli sá til þess á sinn hægláta, ljúfa en jafnframt ákveðna hátt að ekkert færi „í loftið“ nema „rúmlega“ fullkomið. Hvert viðfangsefni skyldi vera útpælt og hugsað út frá öllum sjónarhornum og aldrei skyldi slakað á sjálfsögðum fagurfræðilegum kröfum þrátt fyrir að tímaþröng væri farin að banka upp á. Óli var sannkallaður listamaður í sinni grein.

Fjölskyldan var Óla afar hugleikin og mjög oft ræddi hann stoltur um Styrmi son sinn, sem býr í Svíþjóð, og fjölskyldu hans. Feðgarnir voru mjög nánir og notuðu hvert tækifæri til að hittast. Styrmir var nýbúinn að vera í heimsókn á Íslandi hjá pabba sínum og Óli hafði ráðgert að dvelja í Svíþjóð um jólahátíðina.

Oft er rætt um að enginn viti hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Við, samstarfsfólk Óla á Nýsköpunarmiðstöð Íslands, höfum alltaf vitað að við vorum með einstakan fagmann með ákaflega góða nærveru í okkar röðum. Hann var aldrei að trana sér fram, en var ætíð til staðar fyrir þá, sem þurftu á honum að halda. Óli var einn af þeim lykilstarfsmönnum, sem settu sitt persónulega fingrafar á miðstöðina. Góðs samstarfsmanns og yndislegs vinar verður sárt saknað.

Forstjóri og samstarfsfólk á Nýsköpunarmiðstöð Íslands senda fjölskyldu Óla innilegar samúðarkveðjur.

Minning hans mun lifa.

Sigríður Ingvarsdóttir.

Við kveðjum þig kæri vinur með þessu ljóði:

Ég veit þú fékkst engu, vinur, ráðið

um það,

en vissulega hefði það komið sér betur,

að lát þitt hefði ekki borið svo

bráðan að.

Við bjuggumst við að hitta þig

oft í vetur.

Og nú var um seinan að sýna þér allt það traust,

sem samferðafólki þínu hingað til láðist

að votta þér. Það virtist svo ástæðulaust

að vera að slíku fyrst daglega

til þín náðist.

En dánum fannst okkur sjálfsagt að þakka þér

og þyrptumst hljóðir um kistuna

fagurbúna.

Og margir báru þig héðan á

höndum sér,

sem höfðu í öðru að snúast þangað

til núna.

En þetta er afrek, sem einungis

látnum vinnst,

í allra þökk að gerast virðingamestur.

Því útför er samkoma, þar sem oss flest um finnst

í fyrsta sinn rétt, að annar sé

heiðursgestur.

Loks fundum við til þess með stolti

og sorg í senn

er síðast héldum við burt frá

gröfinni þinni,

að við, sem þig kvöddum, vorum þá

lif andi enn,

að vísu með Allt eins og blómstrið

í fersku minni.

En þó að við sjáum til ferða dauðans hvern dag

og drottinn stuggi við okkur á

marga lundu,

er þetta hið eina ævinnar ferðalag,

sem aldrei er ráðið fyrr en á

síðustu stundu.

Mér dylst að vísu þín veröld

á bak við hel,

en vænti þess samt, og fer þar að prestsins orðum,

að þú megir yfirleitt una hlut þínum vel,

því okkar megin gengur nú flest úr skorðum.

Og hér eru margir horfnir frá þeirri trú,

að heimurinn megi framar skaplegur gerast,

og sé honum stjórnað þaðan, sem

þú ert nú,

mér þætti rétt að þú létir þau

tíðindi ber ast.

(Tómas Guðmundsson)

Elsku Styrmir og fjölskylda, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Minning um góðan dreng lifir.

Þínir vinir og samstarfsfélagar,

Ósk Sigurðardóttir

og Kristján Óskarsson.

Hver er mikilvægasta manneskjan í þínu lífi? spurði Óli mig daginn áður en hann kvaddi þennan heim, alveg upp úr þurru. Ég svaraði sem svo að hann væri mikilvægasta manneskjan í mínu lífi enda hægri og vinstri hönd mín í mínum verkefnum hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Hann brást hneykslaður við og hafði á þessari stundu sjálfur í huga son sinn og það hversu mikilvægur hann væri honum. Hafði sjálf að sjálfsögðu fjölskyldu mína í huga en fannst tilvalið að skella þessu fram til að láta hann vita af því hversu miklu máli hann skipti mig líka.

Síðustu daga og vikur var Óli búinn að ljóma enda sonur hans væntanlegur til landsins með vinum sínum. Hann hlakkaði ekki lítið til þeirrar helgar og gladdist mjög yfir því að taka á móti syni sínum og vinum hans. Óli lifði fyrir fjölskylduna, fyrir litlu prinsessurnar sínar tvær og fyrir litla ófædda gullmolann sem væntanlegur er í desember. Við byrjuðum morgnana oft á því að sitja fyrir framan tölvuna hans og skoða nýjar myndir og myndbönd af fjársjóðnum hans í Svíþjóð; Styrmi, tengdadótturinni og barnabörnunum tveimur. Óli var stoltur faðir, stoltur og montinn afi og var duglegur að segja okkur samstarfsfélögunum sögur af fjölskyldu sinni enda mikill barnakarl og góður vinur.

Fyrir mér er Óli einstakur maður sem kenndi mér margt. Hann kenndi mér að meta litlu hlutina í lífinu, reyndi á þolrif mín með þrjósku sinni sem varð til þess að ég skilaði betra verki, átti það til að tuða svolítið mikið en með tímanum fór mér að þykja vænt um tuðið í honum sem oft endaði bara í hlátri. Á sínu sviði var hann fagmaður fram í fingurgóma, mikill heimspekingur og víðlesinn snillingur sem ég á eftir að sakna mikið.

Það er afar einmanalegt að koma í vinnu þessa dagana. Enginn grænn BMW fyrir utan í stæðinu sínu. Engin kaffilykt. Ekki búið að kveikja ljósin á skrifstofunni okkar. Enginn Óli sem tekur á móti mér með bros á vör með orðunum: Góðan og blessaðan daginn, dísin mín, mikið er nú gaman að sjá þig!

Takk fyrir allt, elsku Óli.

Árdís Ármannsdóttir.

Við Ólafur vorum samstarfsmenn um skeið án þess að kynnast að nokkru ráði öðru en því að ég sótti til hans námskeið í gerð prentgripa og kynningarmyndbanda og komst þar að því að þessi maður sem var kyrrlátur í sínu dagfari bjó yfir eldlegum áhuga á sjónlist og prentlist og kviknaði virkilega til lífsins þegar viðfangsefnin vöktu áhuga hans. Ólafur var svipmikill maður, með þykkt grásprengt hár, sem hann bar jafnan sítt og tók tilgerðarlaust saman í tagl, hafði sinn eigin stíl í klæðaburði sem bar bæði keim af rótum hans í kynslóð hippatímans og fagmanns á sviði kvikmyndunar. Hann var stórvaxinn en leið nokkuð af gigt á síðustu árum og fór sér hægt í hreyfingum. Hann var fagurkeri í bestu merkingu, með næman smekk og beitti þeim kostum að fullu í sínu starfi, sem hann hafði mikla ánægju af og sinnti af aga og festu. Hann sá um alla gerð prentgripa, myndbanda eða tilfallandi verkefna á sviði fjölmiðlunar fyrir Nýsköpunarmiðstöð og gladdi okkur samstarfsfólkið líka ævinlega með vönduðu handbragði sínu þegar gera þurfti skemmtiefni af sjónrænu tagi.

Fyrir þó nokkrum árum fór ég að gera mér far um að kynnast Ólafi og komst að því sem mig hafði grunað, að við áttum mörg sameiginleg áhugamál og milli okkar tókst hinn ágætasti kunningsskapur. Ólafur var menningarviti, fjölfróður og gríðarlegur lestrarhestur. Hann var hrifnæmur og minnugur og gat rakið söguþráð úr bók eða sviðsetningar í kvikmyndum af lifandi nákvæmni og innlifun. Hann hafði ákveðnar skoðanir en fordómalausar á flestu sem við festum vit og önd okkar við, hann hallaðist til vinstri í pólitík og fannst Svíþjóð, þar sem hann hafði stundað nám og búið um nokkurt skeið, um margt fyrirmyndarríki, það fór ekki á milli mála. Þar bjuggu líka afkomendur hans, sem voru forgangsmál, Ólafur hafði þau á hreinu, vinna, fjölskylda, listir. Til hans var hægt að leita um hvaðeina, kvikmyndir, heimildarmyndir og bækur um efni sem hann hafði áhuga á, hann stóð báðum fótum í tuttugustu öldinni og var með tækni nýrrar aldar áreynslulaust í fingurgómunum. Hann var alls ekki átroðslusamur maður, blandaði sér ekki í umræðu nema efnið gripi huga hans, en gat staðið fast á sínu ef svo bar til.

Þegar dauðinn fer um og hefur svo hratt á hæli, verður það bæði sárt og skýrt að vinur er horfinn, hann er farinn fyrir fullt og allt og við sitjum eftir með þá tilfinningu að við gátum ekki kvatt hann, gátum ekki sagt honum að við kynnum að meta hann með sínum kostum og kynjum og myndum sakna hans, að hann væri sem pálmatré í okkar mannlífsvin sem við vildum ekki missa. Og vandfyllt skarð hans sem í áratugi óf lífsverk sitt úr þráðum listhneigðar, vandvirkni og þekkingar, sem safnað var til af áhuga og smekkvísi, þessa bera vitni verkin sem hann lætur eftir sig. Ég minnist Ólafs með miklum söknuði og veit að þar mæli ég fyrir munn okkar samstarfsmanna og vina hans. Genginn er drengur góður.

Hermann Þórðarson, Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Það hefur verið höggvið skarð í hópinn okkar hér á vinnustaðnum. Ólafur eða Óli, eins og við kölluðum hann jafnan, var hér í fullu fjöri á mánudegi en varð síðan bráðkvaddur aðfaranótt þriðjudags. Síðustu dagarnir hafa því verið hálfóraunverulegir án hans og við eigum ennþá erfitt með að trúa að hann sé farinn frá okkur.

Óli hóf störf á fræðsludeild Iðntæknistofnunar Íslands á árinu 1990, sem breyttist í Nýsköpunarmiðstöð Íslands á árinu 2007, og hafði því verið samstarfsmaður minn í rúmlega 22 ár. Upphaflega vann hann hönnunarvinnu við námsgagnagerð en starf hans þróaðist í hönnun og uppsetningu kynningarefnis og annarra prentaðra gagna frá okkur svo og gerð myndbanda af ýmsu tagi, bæði fræðsluefnis, funda og annarrar margmiðlunar. Hann var hugmyndaríkur og snillingur á sínu sviði, hafði skýrar skoðanir á því hvernig hlutirnir ættu að líta út og vildi ekkert hálfkák enda mikill fagmaður.

Sem félagi var Óli góður vinur og hjálpsamur, ég tel mig heppna að hafa átt hann sem vinnufélaga og ágætan vin svo lengi. Hann var gjarnan aðalhugmyndasmiðurinn að skemmtiatriðum okkar deildar fyrir árshátíðir, undirbjó þau í smáatriðum og lét okkur æfa og æfa þar til hann sætti sig við árangurinn. Þarf ekki að spyrja að því að þetta varð hin besta skemmtun. Hann var manna fróðastur um kvikmyndir og vissi bókstaflega allt á því sviði. Þótt kvikmyndir væru stórt áhugamál hans var fjölskyldan í fyrsta sæti. Hann naut þess fyrst og fremst að heimsækja Styrmi, son sinn, og hans fjölskyldu til Svíþjóðar eða fá þau til sín í heimsókn og fylgjast með barnabörnunum eftir að þau komu til sögunnar.

Ég kem til með að sakna Óla en bæði hann og verkin hans munu lifa lengi með okkur. Ég votta Styrmi og hans fjölskyldu og systkinum Óla samúð mína. Blessuð sé minning þín.

Sigríður Halldórsdóttir.