Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Sveitarfélög og hafnarsjóðir hefðu fengið verulega auknar tekjur á síðasta ári ef allur bolfiskafli sem veiddur er við Ísland hefði verið seldur á opnum fiskmarkaði.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Sveitarfélög og hafnarsjóðir hefðu fengið verulega auknar tekjur á síðasta ári ef allur bolfiskafli sem veiddur er við Ísland hefði verið seldur á opnum fiskmarkaði. Tekjur hafnarsjóða og -samlaga hefðu hækkað um tæplega 280 milljónir króna árið 2011 vegna viðskipta með fjórar helstu tegundir bolfisks. Að sama skapi hefðu útsvarstekjur sveitarfélaga aukist um tæpan milljarð á síðasta ári og er þá miðað við 14,41% meðalútsvar. Gert er ráð fyrir að verð á mörkuðum haldist óbreytt þótt framboð aukist og allur fiskur fari á markað.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í samantekt sem er unnin af fyrirtækjasviði KPMG ehf. fyrir stjórn Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ). Skoðað var verð á þorski, ýsu, ufsa og karfa. Borið var saman verð í beinum viðskiptum milli aðila samkvæmt Verðlagsstofu skiptaverðs og meðalverð á fiskmörkuðum.

19 milljarða aukið verðmæti

Miðað við forsendur KPMG hefði heildaraflaverðmæti á síðasta ári aukist um tæplega 19 milljarða í fyrra ef allur þorskur, ýsa, ufsi og karfi hefðu farið í gegnum fiskmarkað og verð þar haldist óbreytt. Tekjur hafnarsjóða vegna viðskipta á markaði með þessar fjórar tegundir hefðu verið 1.358 milljónir. Aflagjöld hefðu hækkað um u.þ.b. 25%. Áhrifin hefðu verið mest á suðvesturhorni landsins þar sem aflagjöld hefðu hækkað um tæpar 119 milljónir.

Í skýringum á bakgrunni verkefnisins segir: „Að þeirri forsendu gefinni að fiskverð hækki við það að stærri hluti af afla fer um markað mun það væntanlega leiða til meiri tekna fyrir hafnarsjóði þar sem hluti gjalda þeirra er lagður á aflaverðmæti. Hærra fiskverð myndi líka hafa áhrif á heildartekjur sjómanna til hækkunar sem myndi leiða til þess að útsvarstekjur sveitarfélaga myndu hækka samsvarandi.“

Myndi jafna samkeppnisstöðu

Skýrsla KPMG var lögð fram á aðalfundi SFÚ síðdegis í gær, en á fundinum var athyglinni sérstaklega beint að verðlags- og samkeppnismálum í sjávarútvegi. SFÚ hafa sett fram þau sjónarmið að viðskipti með sjávarafla ættu að mestu leyti að fara í gegnum opinberan fiskmarkað. Slíkt fyrirkomulag myndi að þeirra mati jafna samkeppnisstöðu fiskverkenda, auka gagnsæi í verðmyndum og leiða til hærra fiskverðs.

Reiknistofa Fiskmarkaða tengir 14 fiskmarkaði á 28 stöðum á landinu saman í eitt uppboðsnet. Á undangengnum árum hefur heldur aukist það magn sem fer um fiskmarkaði. Frá 2003 hefur virkum kaupendum á fiskmarkaði fækkað úr 380 í 230. Leiða má að því líkur að ótryggt framboð og hátt verð hafi leitt til fækkunar fiskkaupenda, segir í skýrslu KPMG.