Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.

Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

Eftir mikinn kosningaósigur Sjálfstæðisflokksins árið 1978 fór Geir Hallgrímsson, þáverandi formaður flokksins, í viðamiklar aðgerðir til að rétta flokkinn af og endurnýja með ýmsum hætti, en það hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki gert eftir hrun.

Þetta segir Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, en hann hefur ritað bók um átökin í Sjálfstæðisflokknum frá láti Bjarna Benediktssonar árið 1970 og fram til ársloka 1985.

„Mér finnst að Sjálfstæðisflokkurinn hefði þurft nú þegar að vera búinn að ganga í gegnum svona endurskoðun og endurnýjun, bæði á starfsháttum og stefnu, en mér finnst hann ekki vera búinn að því,“ segir Styrmir um uppgjör flokksins við hrunið.

Bókina, Sjálfstæðisflokkurinn – Átök og uppgjör , ætlaði Styrmir að rita fyrir um tuttugu árum en kom því ekki við vegna anna.

„Ég hef haft þörf fyrir að skrifa þessa bók og ástæðan er einfaldlega sú að mér fannst á sínum tíma að það væri svolítið erfitt fyrir okkur sem studdum Geir Hallgrímsson, á þeim árum sem mest átök voru í Sjálfstæðisflokknum eftir lát Bjarna Benediktssonar, að tala hreint út. Vegna þess að það skipti öllum máli að halda Sjálfstæðisflokknum saman, frá hans sjónarhóli séð,“ segir Styrmir.

Í bókinni rekur hann mjög ítarlega innanhúsmál í Sjálfstæðisflokknum og gerir það á grundvelli minnisblaða sem hann tók saman um ýmis samtöl við forystumenn í stjórnmálunum á þessum tíma. Hann segir þessa aðferðafræði ekki óumdeilda en langt sé um liðið og langflestir sem komi við sögu séu horfnir á braut eða hafi hætt þátttöku í stjórnmálum.

„Ég tel að ég sé ekki að meiða neinn með því að gera þetta með þessum hætti. En auðvitað opnar þetta fólki ákveðna sýn inn í það hvernig kaupin gerast á eyrinni, að tjaldabaki, ef svo má komast að orði,“ segir Styrmir.

Á BAK VIÐ TJÖLDIN

Tilraunir til klofnings

Í bókinni segir Styrmir m.a. frá tilraunum til að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn en þar kemur m.a. fram að Ólafur Ragnar Grímsson hafi „legið“ í Alberti Guðmundssyni í byrjun árs 1982 og boðið honum borgarstjóraembættið að því gefnu að hann færi fram með sérlista í borgarstjórnarkosningunum eða jafnvel ef hann færi á lista sjálfstæðismanna fyrir kosningarnar en klyfi sig síðan úr flokkinum að þeim loknum.