Fréttaskýring
Helgi Vífill Júlíusson
helgivifill@mbl.is
Auðlegðarskatturinn er útfærður með þeim hætti að í mörgum tilfellum þurfa hluthafar að greiða hærri skatt af eign sinni í fyrirtækjum sem skráð eru í Kauphöll en óskráðum fyrirtækjum. Hluthöfum fyrirtækja er því mismunað og dregur þetta úr vilja lykilhluthafa til að skrá fyrirtæki sín á markað, en eðli málsins samkvæmt taka lykilhluthafar fyrirtækja ákvörðun um skráningu á markað.
Veturinn 2009 var tilkynnt um sérstakan auðlegðarskatt sem svarar til 1,25% af nettóeign umfram 90 milljónir króna hjá einstaklingi og 120 milljónir króna hjá hjónum. Við þessa skattlagningu er m.a. horft til markaðsverðs hlutabréfa skráðra fyrirtækja í eigu skattborgara, þegar svo ber undir, en skattalegs eigin fjár fyrirtækja ef bréfin eru ekki skráð í Kauphöll.
Markaðsverðið er hærra
Reyndin er sú að markaðsverð fyrirtækja er oft hærra en eigið fé þeirra. Skatturinn horfir reyndar til þess sem heitir skattalegt eigið fé en til að átta sig á heildarmyndinni er ágætt að horfa til bókfærðs eigin fjár skráðra fyrirtækja, enda er auðvelt að nálgast þær upplýsingar. Í Evrópu er markaðsverðið að meðaltali 18% hærra en eigið fé, það er tvöfalt hærra í Bandaríkjunum og samkvæmt heimsmeðaltali er markaðsverðið 45% hærra en bókfært eigið fé. Í íslensku kauphöllinni er markaðsverð fyrirtækja um 40% hærra en eigið fé, samkvæmt samantekt sem Morgunblaðið er með undir höndum.Að því gefnu að allir hluthafar Marels greiði auðlegðarskatt upp í topp (sem er ekki reyndin) nemur heildarauðlegðarskatturinn 1,2 milljörðum króna af hlutabréfum fyrirtækisins. Ef fyrirtækið væri ekki skráð á markað næmi auðlegðarskatturinn um 820 milljónum króna, ef miðað er við eigið fé fyrirtækisins við lok síðasta ársfjórðungs og gengi evru í gær. Hér er þó mikilvægt að hafa í huga að í raun og veru greiða ekki allir hluthafar auðlegðarskatt, t.d. ef þeir eru einfaldlega ekki nógu efnaðir auk þess sem lífeyrissjóðir greiða ekki auðlegðarskatt, en þeir eru áberandi á hluthafalistum fyrirtækja í Kauphöll.
Hluthafar geta þurft að standa straum af háum skattgreiðslum fyrir það eitt að eiga hlutabréf. Það er ekki óvarlegt að áætla að margir hluthafar horfi til þess að fá greiddan arð til þess að geta greitt auðlegðarskattinn af hlutabréfaeigninni. Þeir geta einnig veðjað á að bréfin hækki meira en sem nemur skattheimtunni og selt hluta af bréfunum til að greiða skattinn. En hluthafar greiða auk þess 20% fjármagnstekjuskatt af arðgreiðslum og gengishagnaði.
Ef allir hluthafar Haga greiddu auðlegðarskatt næmi hann 320 milljónum, en ef fyrirtækið væri ekki á markaði, og horft væri til bókfærðs eigin fjár síðasta fjórðungs, næmi sú skattheimta 90 milljónum króna.
Skattalegt óhagræði
» Markaðsvirði fyrirtækja er oft hærra en eigið fé þeirra. Það er þó ekki algild regla.
» Auðlegðarskattur leggst á markaðsvirði fyrirtækja í Kauphöll en miðað er við eigið fé þeirra ef þau eru óskráð.
» Ekki greiða allir hluthafar auðlegðarskatt.
» Skráningu í Kauphöll fylgir auk þess kostnaður.