Undir fölsku flaggi Ben Affleck í mannþröng í Teheran í hlutverki sínu í myndinni Argo þar sem sögð er sönn saga um æsilegan björgunarleiðangur.
Undir fölsku flaggi Ben Affleck í mannþröng í Teheran í hlutverki sínu í myndinni Argo þar sem sögð er sönn saga um æsilegan björgunarleiðangur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Ben Affleck. Aðalhlutverk: Ben Affleck, Bryan Cranston, Alan Arkin og John Goodman. Bandaríkin 2012, 120 mín.

Fyrir 20 árum komu hingað til lands fimm Bandaríkjamenn í því skyni að nema brott tvær ungar stúlkur. Þeir þóttust vera kvikmyndframleiðendur að kanna forsendur þess að gera mynd á Íslandi með Sylvester Stallone í aðalhlutverki. Hópurinn komst meira að segja í fjölmiðla og birtist frétt á forsíðu NT undir fyrirsögninni „Verður Stallone að Íslandsvini“. Brottnámi stúlknanna var afstýrt í Leifsstöð og sat forsprakki hópsins, fyrrverandi sérsveitarmaðurinn Donald Feeney, ár í fangelsi.

Uppleggið í kvikmyndinni Argo er ekki ósvipað. Bandarískur leyniþjónustumaður fer til Írans til þess að bjarga sex sendiráðsmönnum úr landi árið 1980 og villir um fyrir yfirvöldum með því að þykjast vera kvikmyndaframleiðandi. Ef ekki hefði hvílt leynd yfir björgunaraðgerðinni til 1997 mætti halda að sá björgunarleiðangur hafi orðið Feeney innblástur að aðgerðinni hér.

Ben Affleck leikstýrir Argo og leikur jafnframt Tony Mendez, sem skipulagði leiðangurinn. Í myndinni tekst Affleck fullkomlega að ná tíðarandanum 1980. Áferð myndarinnar er meira að segja þannig að maður fær á tilfinninguna að hún hafi verið tekin fyrir þremur áratugum.

Ári áður en myndin gerist komst erkiklerkurinn Khomeini til valda í Íran eftir að Mohammad Reza Pahlevi hafði verið steypt af stóli. Bandaríkjamenn höfðu bylt hinum lýðræðislega kjörna Mohammed Mossadegh og komið Pahlevi til valda. Í augum klerkastjórnarinnar voru Bandaríkjamenn hinn mikli Satan. Þegar stúdentar brutust inn í bandaríska sendiráðið lýsti Khomeini yfir stuðningi við þá og starfsmenn þess voru teknir í gíslingu. Sex sendiráðsmönnum tókst hins vegar að laumast út úr sendiráðinu og fela sig í bústað kanadíska sendiherrans. Bandarísk yfirvöld vilja koma þeim úr landi, en hafa ekki hugmynd um hvernig fara eigi að því. Hver hugmyndin kemur fram annarri fáránlegri, þar á meðal að þykjast vera að leita tökustaða fyrir geimtrylli, sem verður ofan á af því að hún er ekki fáránlegust.

Affleck er greinilega mikið í mun að vera trúverðugur. Senur af mótmælum fyrir utan bandaríska sendiráðið í Teheran eru byggðar á fréttamyndum frá þeim tíma og leikararnir, sem leika gíslana, líkjast fyrirmyndunum.

Atburðarásin er ekki hröð, en spennan magnast hægt og þétt. Affleck nær því vel fram hvernig örvæntingin grípur um sig hjá gíslunum, sem lifa í stöðugum ótta við að finnast. Ekki er alltaf sniðugt að vera með spilandi þjálfara, en Affleck stendur sig vel í hlutverki hins yfirvegaða útsendara, sem heldur sínu striki þótt upplagið sé veikt.

Argo hefur verið hlaðin lofi og er spáð óskarsverðlaunum. Þetta er framúrskarandi mynd og kæmi ekki á óvart þótt þær spár rættust.

Karl Blöndal

Höf.: Karl Blöndal