— Morgunblaðið/Ómar
Börnin á frístundaheimilunum í Breiðholti gerðu hetjulega tilraun til að setja heimsmet í fjölda samankominna sjóræningja í Miðbergi í gær.

Börnin á frístundaheimilunum í Breiðholti gerðu hetjulega tilraun til að setja heimsmet í fjölda samankominna sjóræningja í Miðbergi í gær. Það vantaði herslumuninn upp á að það tækist, 30 sjóræningja eða svo, en alls voru sjóræningjarnir 343 í Breiðholtinu í gær og sumir heldur illúðlegir að sjá.

Um var að ræða börn frá fimm frístundaheimilum, sem öll tóku þátt í að búa til sjóræningjahatta og -fána, einn fyrir hvert frístundaheimili, og gengu þau í fylkingum í átt að Miðbergi og nýju Íslandsmeti í sjóræningjasamkomu.

Krakkarnir hafa einnig verið iðnir við málaralistina og verða verk þeirra, um gildi frístundaheimilanna, til sýnis í Gerðubergi um helgina.