Davíð Hjálmar Haraldsson setti saman skemmtilegan brag öðrum þræði til að vekja athygli á fjölbreytni og tilbrigðum íslensks máls. Yfirskriftin er Halla ber: Milt er haustið. Halla ber til húsasölu tínir. Rekstur hennar halla ber, höfuðbókin sýnir.

Davíð Hjálmar Haraldsson setti saman skemmtilegan brag öðrum þræði til að vekja athygli á fjölbreytni og tilbrigðum íslensks máls. Yfirskriftin er Halla ber:

Milt er haustið. Halla ber

til húsasölu tínir.

Rekstur hennar halla ber,

höfuðbókin sýnir.

Hægt að vörum halla ber

heitum kaffibolla

en Höllu kýr í halla ber;

hún má ekki drolla.

Að hörku oft er Halla ber,

helst með grein af eini

húsbóndann þá Halla ber

sem hertan fisk á steini.

Svipmót himins halla ber

húsbóndinn – og fjalla.

Húfu sína halla ber;

hylur jökulskalla.

Dagur íslenskrar tungu er haldinn ár hvert 16. nóvember á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar. Það er við hæfi að rifja upp ljóð þjóðskáldsins. Af nógu er að taka. Hér verður fyrir valinu „Suðursveit er þó betri“. Ef til vill vegna þess að umsjónarmaður býr á Seltjarnarnesi.

Suðursveit er þó betri

en Seltjarnarnesið var;

taðan er töluvert meiri

og tunglið rétt eins og þar.

Hitinn úr hófi keyrir,

en honum uni ég þó;

börnin hér bograst í skuggann

og blaðra sem hvolpar í mó.

Og bæjardyraburstin

ber um hvað margt sé féð –

sex þúsund sauðarleggi

er Sigfús minn búinn með.

Gylfi Þorkelsson yrkir:

Lifðu glaður, laus við blaður,

leggðu þvaður af.

Orðastaður! Ydda, maður,

Íslands fjaðurstaf.

Ingólfur Ómar Ármannsson óskaði eftir því að birta tvær hringhendur á degi íslenskrar tungu:

Andans gróður yljar mér

örar blóðið streymir

auðug ljóðalistin er

ljúfan hróður geymir.

Vísan þjála vörum á

visku strjálað getur

ljóðamálið lipurt

lífgar sálartetur.

Pétur Blöndal

pebl@mbl.is