Jón Sveinsson (Nonni) fæddist að Möðruvöllum í Hörgárdal 16.11. 1857. Hann var sonur Sveins Þórarinssonar, amtskrifara á Möðruvöllum i Hörgárdal, og k.h., Sigríðar Jónsdóttur húsfreyju. Foreldrar hans eignuðust átta börn en þrjú þeirra létust haustið 1860 úr barnaveiki.
Árið 1865 flutti fjölskyldan til Akureyrar og settist að í svokölluðu Pálshúsi. Faðir Nonna lést 1869 úr sullaveiki. Þá var búið tekið til gjaldþrotaskipta og varð Sigríður að láta öll börnin frá sér nema Ármann. Hún flutti síðar til Kanada og giftist þar aftur.
Nonna var hins vegar boðin námsdvöl í Frakklandi og fór utan 1870. Hann dvaldi fyrst í Kaupmannahöfn en lauk síðan stúdentsprófi frá Collége de la Providence, Jesúítaskóla í Amiens í Frakklandi, 1878. Þá lærði hann heimspeki og nam guðfræði í Ditton-Hall í Lancashire á Englandi.
Nonni vígðist prestur í Jesúítareglunni 1891 og var kennari við St. Andreas Collegium í Ordrup í Danmörku til 1912. Þá gerðist hann rithöfundur og flutti fyrirlestra víða um heim, mest um Ísland, sögu þess og bókmenntir.
Barnabækur Nonna um hann og Manna, bróður hans, og um bernskuár þeirra við Eyjafjörðinn urðu mjög vinsælar í Þýskalandi og víðar í Evrópu og voru þýddar á þriðja tug tungumála.
Nonni kom til Íslands 1894 og ári síðar átti hann samstarf við kaþólska biskupinn í Danmörku, Johannes von Euch, um fjársöfnun fyrir holdsveikraspítala á Íslandi. Danskir Oddfellow-bræður stofnuðu slíkan spítala í Laugarnesi 1898 en söfnunarfé Nonna rann til stofnunar Landakotsspítala. Hann kom aftur til Íslands á Alþingishátíðina 1930 í boði ríkisstjórnarinnar.
Nonnasafn á Akureyri er bernskuheimili Nonna og á þjóðdeild Þjóðarbókhlöðunnar í Reykjavík er sérsafn Nonna þar sem sjá má bréf hans, skjöl og rit á hinum ýmsu tungumálum.
Nonni lést 1944.