Þórunn Kristjánsdóttir
thorunn@mbl.is
„Ungmennin á listnámsbrautinni teiknuðu þetta alfarið sjálf. Enginn kennari kom nálægt þessu. Verkefnið er ekki hluti af venjulegum áfanga, heldur er þetta stórt samvinnuverkefni,“ segir Elín Rafnsdóttir, kennari og verkefnastjóri umhverfisverkefnis sem nefnist Regnbogabrú.
Nemendur í listnámi, húsasmíði og rafvirkjun við Fjölbrautaskólann í Breiðholti hafa hannað og unnið verkefnið ásamt sex breskum gestanemendum. Verkefnið er liður í Comeníusar-verkefni listnámsbrautar FB og breskra nemenda frá Sir Roger Manwood's School of Sandwich í Kent. Reykjavíkurborg er fimmti samstarfsaðilinn.
Á Breiðholtsdögum, sunnudaginn 18. nóvember kl. 14:00, verður Regnbogabrúin vígð á Markúsartorgi við Gerðuberg.
Bjartsýn fyrir framtíð landsins
„Þetta gengur mjög vel. Ungmennin eru mjög jákvæð. Þau hafa sýnt mikið sjálfstæði og unnið mörg hver langt fram á kvöld. Þau eru hreint út sagt alveg dásamleg. Maður er bjartsýnn fyrir framtíð landsins eftir að hafa séð þau vinna þetta verkefni. Þau eru bara svo flott,“ segir Elín stolt, sem beið eftir að sendiferðabíll birtist með listaverkið innanborðs.„Það er mikil lífsreynsla að fá að vinna þetta. Mikil hugmyndavinna liggur á bak við slíkt verkefni og það tók tíma að stilla allar hugmyndirnar af. Þetta er mjög krefjandi en skemmtilegt,“ segir Ragna Ragnarsdóttir, nemi á öðru ári í listnámi við FB.
„Þetta byrjaði hægt en nú er þetta loksins búið. Samvinnan hefur gengið vel. Það var erfitt að finna tíma en það tókst að lokum. Við unnum þetta líka mikið eftir skóla.“
Ragna segir að þau hefðu viljað fá að hafa bresku krakkana aðeins lengur með í verkefninu en þau höfðu lítinn tíma hér á landi.
„Við erum mjög ánægð með verkefnið og mér er sagt að þetta sé einstaklega vel heppnað,“ segir Ragna sem myndi ekki slá hendinni á móti því að taka þátt í öðru sambærilegu verkefni.
Torg í biðstöðu
Verkefnið er unnið í samstarfi við umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar sem undanfarið hefur unnið að því að fegra og bæta mannlíf á torgum Reykjavíkur undir yfirskriftinni „Torg í biðstöðu“.Regnbogabrúin er tilvísun í brúna Bifröst í norrænni goðafræði; brú milli tveggja heima.
Verkefninu er m.a. ætlað að þjálfa samvinnu og þekkingu nemenda á mismunandi menningu og lífssýn. Brúin er skreytt með hefðbundnum íslenskum og breskum munstrum sem gerð eru úr gosflöskutöppum og kalla má „tappa-mósaík“.
„Listaverkið er heljarinnar smíði sem ungmennin á trésmíðadeild smíðuðu, auk þess lögðu nemar við rafvirkjun rafmagn á verkið,“ segir Elín.
Regnbogabrúin
» Er liður í Comeníusar-verkefni, sem er samstarfsverkefnis listnáms, húsasmíði og rafvirkjunar í FB og breskra nemenda.
» Listaverkið er unnið í samstarfi við umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar.
» Verður afhjúpað á Breiðholtsdaginn, sunnudaginn 18. nóvember á Markúsartorgi við Gerðuberg.