Markahæstur Sturla Ásgeirsson skoraði 7 mörk fyrir ÍR-inga.
Markahæstur Sturla Ásgeirsson skoraði 7 mörk fyrir ÍR-inga. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í AUSTURBERGI Kristján Jónsson kris@mbl.is Nýliðarnir í ÍR virðast vera að stimpla sig inn í efri hlutann í hinni annars mjög jöfnu og illútreiknanlegu N1-deild karla í handknattleik.

Í AUSTURBERGI

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Nýliðarnir í ÍR virðast vera að stimpla sig inn í efri hlutann í hinni annars mjög jöfnu og illútreiknanlegu N1-deild karla í handknattleik. ÍR-ingar unnu í gær Aftureldingu 27:21 í Breiðholtinu en ÍR vann seinni hálfleikinn með níu marka mun. Að loknum fyrri hálfleik var staðan 11:8 fyrir Aftureldingu.

Eftir fyrstu umferðirnar í deildinni var útlit fyrir að markvarslan yrði viss höfuðverkur fyrir Breiðhyltinga í vetur. Sú hugsun að hinn síungi Hrafn Margeirsson myndi taka sér stöðu í markinu eina ferðina enn var ekki langt undan þar til ÍR sigraði HK á dögunum. Þá hrökk markvörðurinn Kristófer Fannar Guðmundsson í gang svo um munaði og hann fylgdi því vel á eftir í gærkvöldi og varði 20 skot.

Töpuðu boltanum ítrekað

Kristófer hélt ÍR-ingum inni í leiknum í fyrri hálfleik þegar sóknarleikur liðsins var í molum. Hér er ekki einu sinni kveðið mjög fast að orði því sóknarleikur liðsins var örugglega sögulega lélegur, sem sést best á því að ÍR kastaði boltanum alls tólf sinnum frá sér í sókninni.

Leikur Mosfellinga var hins vegar mun heilsteyptari og þeir voru með sanngjarna þriggja marka forystu að loknum fyrri hálfleik. Það læddist þó að manni sá grunur að þeir hefðu þurft að nýta sér það betur að fá aðeins á sig 8 mörk í einum hálfleik. Sú varð raunin því ÍR-ingar voru ekki lengi að éta þetta forskot upp þegar leikur þeirra small saman. Þá hrundi leikur Aftureldingar að sama skapi og þeim tókst aldrei að finna taktinn á ný eftir það.

Sterkir á heimavelli

Frá því ÍR-ingar fluttu heimaleiki sína í Austurbergið skömmu fyrir aldamótin hefur liðið alla jafna verið sterkt á heimavelli. Ekki er útlit fyrir að nein breyting verði á því á þessu tímabili. Liðið fær góðan stuðning og umgjörðin er góð. Ef nýliðarnir hala inn stigunum í Breiðholtinu þá ættu þeir að eiga góða möguleika á því að komast í úrslitakeppnina. Ég tala nú ekki um ef Kristófer verður í sama stuðinu í markinu og hann hefur verið í undanförnum leikjum.

Ef lykilmenn eru heilir þá er varnarleikur ÍR mjög góður en sóknarleikurinn er meira spurningamerki. Þeir eiga ennþá gamla brýnið Brynjar Steinarsson til góða sem er meiddur. Hann ætti að auka breiddina hjá þeim í sókninni þegar hann getur beitt sér á ný.

Þurfa að vera agaðir

Lið Aftureldingar hefur sýnt í haust að það er sterkara en undanfarin ár. Í gærkvöldi var útlitið gott hjá liðinu eftir um 45 mínútna leik en þá kom í fyrsta skipti í leiknum verulegt mótlæti og það réðu leikmenn liðsins ekki við. Á meðan leikmenn liðsins eru skynsamir og agaðir í sínum leik þá er erfitt við þá að eiga því baráttugleðin og stemningin er fín. Liðið saknar enn skyttunnar efnilegu Böðvars Páls Ásgeirssonar og það er áhyggjuefni.

ÍR – Afturelding 27:21

Austurberg, úrvalsdeild karla, N1 deildin, fimmtudaginn 15. nóvember 2012.

Gangur leiksins : 0:1, 2:1, 4:2, 5:5, 6:8, 8:9, 8:11 , 9:11, 10:12, 10:14, 13:14, 14:15, 19:15, 19:17, 21:17, 25:18, 27:21 .

Mörk ÍR : Sturla Ásgeirsson 7/2, Sigurjón Björnsson 5, Björgvin Hólmgeirsson 5, Guðni Már Kristinsson 3, Ingimundur Ingimundarson 3, Jón Heiðar Gunnarsson 2, Davíð Georgsson 2.

Varin skot : Kristófer Fannar Guðmundsson 20/1 (þar af 7 aftur til mótherja).

Utan vallar : 12 mínútur. (Ingimundur fékk rautt spjald vegna þriggja brottvísana.)

Mörk Aftureldingar : Pétur Júníusson 4, Benedikt Reynir Kristinsson 4, Örn Ingi Bjarkason 3/1, Hilmar Stefánsson 3, Sverrir Hermannsson 3, Helgi Héðinsson 2, Þrándur Gíslason 1, Jóhann Jóhannsson 1.

Varin skot : Davíð Svansson 14 (þar af 3 aftur til mótherja).

Utan vallar : 10 mínútur.

Dómarar : Magnús Kári Jónsson og Ómar Ingi Sverrisson.

Áhorfendur : 600.