Aðdráttarafl Perlan er á besta stað í borginni.
Aðdráttarafl Perlan er á besta stað í borginni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, hefur lagt fram tillögu um að heimila Reykjavíkurborg að ganga til viðræðna við Orkuveitu Reykjavíkur um kaup á Perlunni.

Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, hefur lagt fram tillögu um að heimila Reykjavíkurborg að ganga til viðræðna við Orkuveitu Reykjavíkur um kaup á Perlunni. Borgarráð tók tillöguna til umfjöllunar í gær en að beiðni sjálfstæðismanna var málinu frestað um viku.

Í tillögunni er Reykjavíkurborg heimilað að ganga til samninga við ríkið um að það leigi húsið í allt að 15 ár og komi þar upp náttúruminjasafni. Í fréttatilkynningu segir að í greinargerð starfshóps sem skipaður var um kaup borgarinnar á Perlunni kom fram að Perlan bjóði upp á mjög góða möguleika til að koma upp náttúruminjasýningu. Jón Gnarr segir að Perlan sé best komin í opinberri eigu og hann vonist til að þarna verði blómleg starfsemi sem laði að börn og fullorðna sem og erlenda gesti. „Börn og unglingar fá þarna einstakt tækifæri til að auka víðsýni sína og fræðast um náttúru Íslands og Perlan mun fá göfugra hlutverk en hún hefur haft,“ segir Jón. Heimild borgarráðs er bundin við að viðunandi leigusamningur um sýningu Náttúruminjasafns Íslands og væntanlegar leigutekjur standi undir kaupverði.

heimirs@mbl.is