Sigurður Eyjólfsson fæddist í Neshjáleigu í Loðmundarfirði 9. júní 1946. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 9. nóvember 2012.

Foreldrar hans voru Stefán Eyjólfur Þórarinsson bóndi, f. 1914, d. 1986 og Sigurlilja Ingibjörg Einarsdóttir ljósmóðir, f. 1912, d. 1988. Systkini Sigurðar eru: Þórhallur, f. 1941, Þórey, f. 1942, Bergþóra, f. 1944, Einar, f. 1953 og Björgvin, f. 1955. Árið 1970 kvæntist Sigurður Margréti Petersen, f. 1947. Foreldrar Margrétar voru Lauritz Petersen, f. 1906, d. 1972 og Guðný Petersen, f. 1907, d. 1971. Systkini Margrétar eru: Gunnar, f. 1930, Aage, f. 1934, Guðjón, f. 1938, Hulda, f. 1941 og fóstursystir er Anna Kristín, f. 1953. Börn Sigurðar og Margrétar eru: 1) Eyjólfur, f. 1973, kvæntur Kristínu Þorgeirsdóttur, f. 1970, eiga þau saman soninn Sigurð Dag, f. 2006. Fyrir á Kristín börnin Þorgerði Gyðu, f. 1988, Benedikt Pétur, f. 1992 og Júníu Kristínu, f. 1995. 2) Inga Lára, f. 1978, í sambúð með Arnfinni Jónassyni, f. 1973, þau eiga dótturina Sunnu, f. 2007 og soninn Orra, f. 2011. 3) Ævar Páll, f. 1982, í sambúð með Jenny Hansen, f. 1984. Þau eru búsett í Svíþjóð.

Á fyrri hluta ævi sinnar ólst Sigurður upp við sveitastörf í foreldrahúsum. Hann bjó með foreldrum sínum og systkinum á Neshjáleigu í Loðmundarfirði en þaðan fluttu þau að Svínaskála við Eskifjörð þar sem þau bjuggu í eitt ár. Frá Svínaskála flutti fjölskyldan að Áreyjum í Reyðarfirði og síðan að Eiðum á Fljótsdalshéraði. Sigurður tók landspróf á Eiðum en eftir það lá leiðin í Menntaskólann á Akureyri þaðan sem hann útskrifast með stúdentspróf árið 1967. Eftir menntaskóla hóf hann nám í verkfræðideild Háskóla Íslands og lauk hann fyrri hluta námsins 1970. Það sama ár giftist hann Margréti. Árið 1970 fluttu þau til Noregs þar sem Sigurður tók seinni hluta verkfræðinámsins í Þrándheimi við Universitetet i Trondheim. Í ársbyrjun 1973 hélt nýútskrifaður verkfræðingur til Íslands ásamt konu sinni og nokkurra vikna gömlum syni. Sigurður og fjölskylda bjuggu í Reykjavík og byggðu hús 1981 við Eyktarás 16 í Árbænum þar sem þau bjuggu allt til ársins 2012 en þá fluttu hjónin í Kópavog. Við komuna til Íslands hóf hann störf hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen (síðar VerkÍs) þar sem hann vann alla sína starfsævi.

Sigurður verður jarðsunginn frá Grafarvogskirkju í dag, 16. nóvember 2012 kl. 13.

Ég kveð með virkt tengdaföður minn Sigurð Eyjólfsson.

Margs er að minnast, svo mikið er víst. Ferðalög austur, vestur, norður og suður auk einstaks ferðalags til Tenerife þegar Margrét varð sextug. Öll þessi ferðalög voru í alla staði vel heppnuð.

Á Austurlandi heimsóttum við Loðmundarfjörð þar sem Sigurður var fæddur og búsettur fyrstu æviárin. Hann sýndi mér hvar hann hafði búið og sagði mér frá foreldrum sínum og búskaparháttum þess tíma. Við vorum í bústað að Eiðum, seinni hluta ferðarinnar, þar sem hann hafði einnig búið og fór hann með okkur út í eyju á bát og sýndi okkur hvar hann hafði leikið sér með systkinum sínum. Það var greinilegt að hann hafði miklar taugar til Austurlands og því var sérlega gaman að upplifa svæðið með honum.

Ferðalag á Tálknafjörð verður einnig lengi í minnum haft hjá mér og mínum. Við fórum þá m.a. svokallaða Vesturgötu og um Ófæruhrygg á tveimur litlum jepplingum. Ég viðurkenni að í þessari ferð stóð mér ekki alltaf á sama og oft á tíðum, í ferðinni, sá ég eftir að hafa lagt af stað í hana svo hrikalegur var vegurinn. Í þessari ferð ferðuðumst við einnig vítt og breitt um sunnanverða Vestfirði, á staði sem ég hafði ekki komið á áður. Þessi ferð er mér algjörlega ógleymanleg og hefði ég ekki fyrir nokkurn mun viljað hafa misst af henni. Svona gæti ég lengi talið.

Mörgum yndislegum áramótum eyddum við saman auk annarra samverustunda í gegnum árin. Tengdafaðir minn var einstakur í Scrabbli. Hann hafði mikla kunnáttu í íslensku og oft á tíðum varð efi mótherjanna svo mikill um að orðið sem hann lagði á spilaborðið væri ekki til að þeir leituðu í orðabók. Það var líka sérstaklega skemmtilegt að spila við hann Pictionary þar sem verkfræðingurinn naut sín í teikningunum.

Sigurður var ekki maður margra orða. Hann var rólegur, skipulagður, vinnusamur, víðsýnn og vel að sér um hin ýmsu málefni enda vel lesinn. Hann hjálpaði okkur við framkvæmdir og gaf leiðbeiningar og góð ráð, t.d. við lagfæringar á gamla húsinu okkar.

Blessuð sé minning Sigurðar Eyjólfssonar.

Minning um góðan mann mun alltaf lifa hjá mér.

Innilegar samúðarkveðjur til ættingja og vina.

Kristín Þorgeirsdóttir.

Til moldar oss vígði hið mikla vald,

hvert mannslíf, sem jörðin elur.

Sem hafsjór, er rís með fald við fald,

þau falla, en guð þau telur,

því heiðloftið sjálft er huliðstjald,

sem hæðanna dýrð oss felur.

(Einar Benediktsson.)

Í dag kveðjum við elskulegan bróður minn. Allir vissu að kveðjustundin nálgaðist, en alltaf vill maður lengri tíma. Við erum bara taflmenn á skákborði lífsins og fáum engu um ráðið hvenær leiknum lýkur.

Sigurður var afar skipulagður maður og vann markvisst að því að allt væri frágengið þegar kallið kæmi, engir endar lausir. Hann notaði góðu stundirnar vel.

Hann var glæsimenni, afburðanámsmaður, víðlesinn og fróður. Fastur fyrir og fór sínar eigin leiðir án margra orða. Traustur og fasæll í sínu starfi. Maður sem gott var að leita til ef faglega ráðgjöf vantaði.

Sigurður var gæfumaður í sínu einkalífi. Hann kynntist Margréti á námsárunum og saman fóru þau til Noregs er hann hélt þangað í framhaldsnám. Eignuðust þau þar góðan vinahóp sem heldur sambandi enn í dag. Hefur þessi hópur stundað gönguferðir um fjöll og óbyggðir og þannig skoðað margar af okkar fegurstu náttúruperlum. Stundum var grínast með að Drottinn hefði sérstakar mætur á þessu liði, því alltaf fengu þau gott veður, þótt öðru væri spáð.

Sigurður og Margrét hafa alltaf átt glæsilegt heimili og þangað hafa ættingjar og vinir ávallt verið velkomnir til lengri og skemmri dvalar. Þau voru höfðingjar heim að sækja.

Börnin þeirra bera það með sér að hafa alist upp hjá frábærum foreldrum sem vildu þeirra hag sem bestan.

Lífið er fljótt;

líkt er það elding sem glampar um nótt

ljósi, sem tindrar á tárum,

titrar á bárum.

(Matthías Jochumsson.)

Já lífið er fljótt, mér finnst ekki langt síðan við systkinin vorum öll í foreldrahúsum, en það er þó einn mannsaldur, einn horfinn úr hópnum.

Gangan með þér æviárin

okkur líður seint úr minni.

Við sem fellum tregatárin

trúum varla brottför þinni.

Þína leið til ljóssins bjarta

lýsi drottins verndarkraftur.

Með kærleiksorð í klökku hjarta

kveðjumst núna, sjáumst aftur.

(Hákon Aðalsteinsson.)

Blessuð sé minning míns kæra bróður.

Okkar innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.

Þórey og fjölskylda.

Kæri bróðir.

Þegar ég átti síðasta símtalið við þig þrem dögum fyrir andlát þitt gerði ég mér grein fyrir að við myndum ekki hittast aftur hérna megin. Veiðiferðin okkar frá Eyjum yrði að bíða betri tíma en hún verður farin þó síðar verði.

Sumrin fyrir austan koma upp í minningunni. Þú fórst í burtu á veturna í skóla en komst alltaf heim í sveitina á sumrin, tókst ávallt stjórnina við bústörfin á þinn rólega en samt ákveðna hátt og við krakkarnir litum upp til þín. Þú varst sá sem allt vissi. Á sama hátt tókst þú á við veikindin þín og gekkst í gegnum kvalirnar með þeirri ró og yfirvegun sem þér einum var gefið. Við Óla Heiða og strákarnir minnust með hlýhug og þakklæti allra samverustundanna í Eyktarásnum þar sem við áttum alltaf vísa gistingu í Reykjavíkurferðum okkar. Við geymum í minningunni góðan bróður og traustan vin sem tekinn var frá ástvinum sínum alltof snemma

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Elsku Magga, Eyjólfur, Inga Lára og Ævar. Megi guð og góðar vættir gefa ykkur og fjölskyldum ykkar styrk í sorginni og söknuðinum.

Björgvin.

Ég kynntist Sigurði fyrst sumarið 1970 þegar við störfuðum báðir við landmælingar á virkjunarsvæðinu við Þórisvatn. Hann hjá Landsvirkjun en ég hjá verktakanum. Strax þarna fann ég fyrir þeirri hlýju og einlægni sem einkenndi allt hans fas og viðmót. Um haustið héldum við báðir til náms við verkfræðiháskólann í Þrándheimi. Þau Siggi og Magga voru mjög dugleg við að heimsækja þá sem áttu síður heimangengt. Mynduðust á þessum árum mikil vinatengsl milli okkar Íslendinganna sem eflaust má rekja til þess hve takmörkuð samskipti voru við ættingjana heima á þessum tíma þegar ekki var um aðrar samskiptaleiðir að ræða en sendibréf og símann. Að eiga þau Möggu og Sigga að vinum var okkur mikils virði, vinátta sem var fölskvalaus, sem sýndi sig best síðar í veikindum Camillu heitinnar.

Íslenskir námsmenn og fjölskyldur þeirra í Þrándheimi höfðu mikil samskipti og brölluðu ýmislegt á þessum árum okkar í Þrándheimi. Hyttuferðirnar um páskana, skíðaferðir og göngutúrar í skóginum eru minnisstæðir en þó eru mér minnisstæðastar stundir yfir tafli og við heimspekilegar samræður. Þau voru ófá skiptin sem við Siggi brutum heilann yfir heimsmálunum án þess að hafa um það svo ýkja mörg orð, stundum yfir glasi af bjór eða „dýrindis“ rauðvíni sem við Siggi brugguðum saman og létum það ekki spyrjast um okkur að við tækjum eitthvað annað fram yfir þó svo að aðrir kynnu ekki að meta veigarnar. Stundum er sagt að það sé vandasamt að þegja saman. Það átti ekki við um Sigga. Hann hafði svo þægilega nærveru. Og þegar heimsgátan fór að skýrast, lauk Siggi heimsóknum þeirra með orðunum: „Jæja Margrét, það er sennilega kominn tími á að koma sér heim.“

Magga mín, lífið tekur stundum óvænta stefnu, það þekkjum við bæði. Siggi háði áralanga hetjulega baráttu við sjúkdóm sem þó að lokum hafði betur. Ekki heyrði ég hann kvarta, hann sagðist hafa það „bara gott“ í þau skipti sem við hittumst síðustu árin.

Kæra fjölskylda, hugur okkar Gerðar er hjá ykkur. Góður vinur er genginn og mun ég minnast hans sem eins af mínum traustustu vinum. Minning um góðan dreng er mér kær.

Garðar Sverrisson.

Þá er hann farinn hann Siggi, allt of snemma. Þó svo að það hafi verið ljóst um nokkurt skeið að hverju stefndi þá er maður aldrei viðbúinn því að missa góðan vin.

Það var fyrir um 40 árum að leiðir okkar lágu saman í Þrándheimi er við hjónin sóttum þangað fróðleik. Sigurður var þar fyrir í verkfræðinámi og var Margrét þar með honum. Tókst með okkur kær vinátta sem stendur enn þann dag í dag. Margs er að minnast, til dæmis er okkur sérstaklega í huga er við stóðum í flutningum fyrsta vorið okkar úti og flutti Siggi allt dótið á Bjöllunni þeirra Möggu. Þetta var svo sjálfsagt að honum þótti varla taka því að hafa orð á því. Þannig var Siggi, alltaf tilbúinn að bjarga hlutunum og var ekki maður margra orða.

Í Íslendinganýlendunni í Þrándheimi var mjög góður andi og áttum við góðar stundir saman, ekki síst í félagsheimilinu okkar Ísakoti. Eftir að heim var komið urðu samverustundirnar líka margar og góðar. Alltaf var Siggi sá trausti og yfirvegaði, hvað sem á dundi. Eftir að börnin uxu úr grasi höfum við oft notið þess að ferðast saman hér innanlands og þá gjarna fleiri saman. Meðal annars er minnisstætt er við komum í Loðmundarfjörð í einni af jeppaferðum okkar en þar átti Siggi sín bernskuspor og ljóst var að honum var staðurinn kær.

Margar góðar ferðir höfum við ásamt Möggu og Sigga líka farið til Evrópulanda og þá gjarna notið þess að aka um. Siggi var alveg einstaklega góður ferðafélagi og var mjög fróður um þjóðir og staði þá sem heimsóttir voru. Var alltaf vel undirbúinn, jafnvel þó að um hálfgerðar óvissuferðir væri að ræða. Ein ferðin var sérleg pílagrímaferð til að skoða hinar fornu slóðir okkar í Þrándheimi og voru þá leitaðir uppi allir gömlu góðu staðirnir frá námsárunum. Í ferðinni var Atlanterhavsvejen líka skoðaður, sem er einstaklega skemmtilega hönnuð leið milli skerja og eyja á Vestlandinu. Siggi fræddi okkur um hina mismunandi hönnun brúnna og nutum við þar af fróðleiksbrunni hans eins og svo oft áður.

Við þökkum samfylgd góðs vinar og ljúfar minningar um dýrmætar samverustundir sem munu fylgja okkur um ókomna tíð. Möggu, Eyjólfi, Ingu Láru og Ævari og fjölskyldum vottum við samúð okkar og hluttekningu er við vísum í orð Spámannsins: „Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín.“

Sigurjón og Anna.

Á kveðjustund við lífsins leiðaskil

er litið yfir gengnar ævislóðir.

Og þó að ríki hryggð og harmaspil

er hlýtt og bjart við minninganna glóðir.

(Þorfinnur Jónsson)

Fráfall Sigurðar Eyjólfssonar heggur mikið skarð í vinahópinn, sem hefur haldið dyggilega saman allt frá námsdvöl okkar í Þrándheimi í byrjun áttunda áratugarins. Sigurður var þar við nám í seinni hluta byggingaverkfræði og lauk mastersnámi árið 1973. Íslendingahópurinn í Þrándheimi átti margar góðar stundir saman, ekki síst konurnar, sem hafa haldið saumaklúbb allt frá þeim tíma. Sigurður og Margrét kona hans höfðu komið til Þrándheims nokkrum árum á undan okkur flestum og sýndu okkur nýliðunum mikla hjálpsemi við að koma okkur fyrir á ókunnum slóðum.

Þegar heim var komið hófst lífsbaráttan í starfi og við barnauppeldi. Sigurður starfaði eftir námið hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen við mörg flókin verkefni. Orðspor Sigurðar frá þeim vettvangi er framúrskarandi þekking og yfirvegun, sem skilaði góðum lausnum á flóknum verkefnum.

Saumaklúbburinn góði hittist reglulega og erum við karlarnir hafðir með í ýmsar uppákomur. Stofnað var til árlegrar ferðar um óbyggðir landsins, þar sem blandað var saman jeppa- og gönguferð. Ferðirnar urðu margar og ógleymanlegar. Við undirbúning þeirra kom fljótlega í ljós hve fróður Sigurður var um landið og var hlustað vel eftir áliti þessa hógværa heiðursmanns við ákvörðun um ferðaleiðir. Færni hans var einstök, hvort sem var að komast leiðar sinnar í ófærum á litla jeppanum eða hafa úthald á löngum gönguleiðum. Hann bjó yfir miklu jafnvægi í því sem hann tók sér fyrir hendur og alltaf var stutt í kankvísan húmorinn. Við nutum félagsskapar Sigurðar löngu eftir að hinn illvígi sjúkdómur hóf að herja á heilsu hans. Hann sýndi ávallt æðruleysi og kvartaði ekki undan þessum vágesti, sem að lokum lagði hann að velli.

Við söknum sárt góðs drengskaparmanns og vinar, sem nú hefur öðlast frið.

Elsku Margrét, Eyjólfur, Inga Lára og Ævar. Við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum góðan Guð að vera með ykkur.

Fyrir hönd vinahópsins frá Þrándheimi,

Haukur Hauksson.

Kveðja frá bekkjarsystkinum

Vinur okkar og skólafélagi, Sigurður Eyjólfsson, hefur nú kvatt um aldur fram. Okkur bregður við, erum enn á ný minnt á það hversu hverfult og stutt lífið er.

Minningarnar leita á okkur frá námsárunum í Menntaskólanum á Akureyri og frá háskólaárunum hér heima og erlendis. Við vorum 22 bekkjarsystkinin í 6.SA sem urðum stúdentar vorið 1967. Við héldum að við værum orðin fullorðin en alvara lífsins beið okkar handan við hornið. Sum okkar höfðu þekkst frá barnæsku, önnur höfðu fyrst kynnst þegar þau byrjuðu í menntaskólanum. Við komum alls staðar að af landinu en þekktum hvert annað orðið býsna vel. Okkur þótti vænt hverju um annað og kennararnir töluðu oft um hve gott væri að koma inn í bekkinn okkar. Í horninu aftast við gluggann sat Sigurður eða Siggi eins og hann var alltaf kallaður. Hann var frá Eiðum, íslenskur sveitastrákur í bestu merkingu þess orðs. Við bárum öll virðingu fyrir honum. Framganga hans var slík. Siggi var óvenjulega prúður ungur maður en þó fastur fyrir og einarður í skoðunum. Hann var framúrskarandi námsmaður sem veittist létt að vinna með öðrum og að rétta hjálparhönd þeim sem eitthvað höfðu verið að slá slöku við. Hann kunni að gleðjast með glöðum en gat einnig tekið þátt í vandamálum annarra þegar þess þurfti.

Siggi var glæsilegur í sjón, hávaxinn, dökkur á brún og brá. Á menntaskólaárunum bjó hann alltaf á Gömlu vistum ásamt nokkrum öðrum félögum okkar. Þar var þröngt og lágt til lofts. Ekki voru þeir félagarnir að gera sér rellu út af smámunum. Það tók því til dæmis ekki að festa eina tölu þótt hún dytti af. Betra var að bíða þangað til allar voru farnar og festa þær þá allar í einu.

Sigga leið vel í menntaskólanum og stundaði námið af alúð. Hann hlakkaði samt til að útskrifast og hefja nám í háskóla. Þegar þar var komið sögu lagði hann stund á byggingaverkfræði við Háskóla Íslands og síðan Tækniháskólann í Þrándheimi þaðan sem hann útskrifaðist með meistaragráðu árið 1973. Hann starfaði að námi loknu sem verkfræðingur hjá VST og síðan Verkís eftir sameiningu. Ávallt stundaði hann starf sitt af sömu samviskuseminni og námið áður.

Við erum þakklát fyrir að hafa kynnst Sigga og mannkostum hans. Heilindi, drengskapur og hjálpsemi voru hans einkenni. Með honum er genginn maður sem lagði sitt af mörkum til uppbyggingar í þjóðfélaginu af samviskusemi og heiðarleika.

Margréti, Eyjólfi, Ingu Láru, Ævari Páli og öðrum aðstandendum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

F.h. 6. bekkjar sa veturinn

1966-67,

Jóhanna Margrét

Guðjónsdóttir,

Steinar Friðgeirsson,

Svava Þorsteinsdóttir.

Stöðugleiki, styrkur, öryggi, seigla, traust og þol eru orð sem koma upp í hugann þegar nafn Sigurðar Eyjólfssonar er nefnt. Orðin eru einnig lýsandi um mikilvæga eiginleika vandaðra burðarvirkja sem voru viðfangsefni hans á farsælum starfsferli sem byggingarverkfræðingur, sérfræðingur í húsagerð og hönnun burðarvirkja. Orðin eiga vel við um verk Sigurðar.

Sigurður Eyjólfsson var samstarfsmaður okkar á Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen (nú Verkís). Við fundum fljótt eftir að við hófum þar störf, ungir og óreyndir verkfræðingar, að gott var að leita til Sigurðar um ráð og leiðbeiningar varðandi hönnun burðarvirkja. Með fáum orðum ásamt handteiknaðri skýringarmynd lýsti hann flæði krafta um burðarvirki yfir í traustar undirstöður. Stundum hengdi hann kraftana upp og flutti í járnum frá veikari hluta burðarvirkis þangað sem meiri fyrirstöðu var að finna. Kraftana teiknaði hann upp þannig að örvar sýndu stefnu þeirra líkt og um spjót væri að ræða eins og hefðbundið er í burðarþols- og stöðufræðum. Það var sem Sigurður, þéttur á velli og þéttur í lund, gripi þessi spjót á lofti úr hvaða átt sem þau bárust og kæmi þeim tryggilega fyrir þar sem ekkert gæti haggað þeim. Vindar mættu blása og jörð skjálfa. Mannvirkið var traust.

Sigurður fylgdist vel með sínu fagi, ekki síst nýjungum um allt sem það snerti svo sem um byggingaraðferðir og byggingarefni, nýja staðla eða hugbúnað til greiningar á burðarvirkjum. Hins vegar þegar mikið lá við fletti hann, þrautreyndur og þrautgóður, upp í gamalli sænskri handbók eða fann leið að lausn með lestri af þýsku línuriti. Allt í bókum þar sem fáum öðrum hefði dottið í hug að leita. Að því loknu sagði Sigurður rólega og yfirvegað eins og hans var háttur: Ætli við getum ekki möndlað þetta svona.

Sigurður hafði jafnan meira en nóg af verkefnum á Verkfræðistofunni, enda færni hans kunn og viðurkennd. Hann gaf sér samt alltaf góðan tíma til að aðstoða aðra í þeirra verkefnum.

Það eru forréttindi að hafa unnið með Sigurði Eyjólfssyni. Við munum í störfum okkar ætíð búa að þeim lærdómi og þeirri reynslu sem hann miðlaði til okkar.

Minningin um Sigurð Eyjólfsson er í hugum okkar óhagganleg, traust og góð.

Fjóla Guðrún Sigtryggsdóttir og Eggert V.

Valmundsson.

Sigurður Eyjólfsson byggingaverkfræðingur er fallinn frá, samstarfsmaður minn og góður félagi til tæpra fjörutíu ára. Hann tók til starfa á Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen 1973 eða þremur árum eftir að ég hóf þar störf. Fljótt kom í ljós að þar fór afar vandvirkur og traustur vinnufélagi. Lét fátt hagga sér og sinnti þeim verkefnum sem honum voru falin af samviskusemi og alúð.

Ekki verður hér rakinn allur sá fjöldi verka sem hann leysti af hendi, heldur lýst hvernig hann sinnti þeim.

Verkefni sem Sigurður tók að sér var jafnan þar með borgið, skildi ekki við þau fyrr en þau voru fullunnin. Hann naut sín vel við verkfræðistörfin, það mátti sjá á þeirri alúð sem hann sýndi þeim.

Sigurður ávann sér strax traust þeirra arkitekta og verkfræðinga sem með honum unnu, enda var hann ávallt ósérhlífinn við vinnu og fágætur fagmaður. Lausnir voru jafnan traustar og aðgengilegar í framkvæmd. Oft höfðu verktakar orð á að gott væri að vinna eftir teikningum Sigurðar. Ef þeir vildu breyta einhverju til sparnaðar eða einföldunar, stóð hann jafnan fastur fyrir og sló ekki af þeim gæðakröfum sem hann hafði sett. En var þó einnig reiðubúinn að taka góðum ábendingum.

Nægir að nefna þrjú íþróttamannvirki í Reykjavík þar sem Sigurður gaf burðarvirkjum form af kunnáttu og smekkvísi í samvinnu við þá ágætu arkitekta sem með honum unnu. En það eru Árbæjarsundlaug, frjálsíþróttahúsið við Laugardalshöll og heilsuræktar- og innisundlaugarbyggingin í Laugardal.

Við fráfall Sigurðar sakna ég vinar í stað. Ekki verður framar gengið yfir til hans og leitað álits eða ráða og er það mér og okkur félögunum mikill missir.

Mestur er þó missir ástvinanna. Votta ég Margréti, börnum þeirra og barnabörnum mína dýpstu samúð.

Blessuð sé minning Sigurðar Eyjólfssonar.

Níels Indriðason.

Sigurður Eyjólfsson kom árið 1973 til starfa hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen (nú Verkís) og starfaði þar alla tíð síðan. Hann kom beint frá Þrándheimi eftir framhaldsnám í byggingaverkfræði en hafði lokið fyrrihlutaprófi frá Háskóla Íslands 1970. Hann var einn af hópi verkfræðinga sem komu til starfa á þessum tíma og mynduðu sterkan kjarna í starfsliði fyrirtækisins.

Sigurður var mjög hæfur verkfræðingur og burðarþol mannvirkja varð hans aðalstarfsvettvangur. Hann var einn af bestu burðarþolshönnuðum stofunnar og naut mikils álits á því sviði bæði innan stofunnar, hjá samstarfsaðilum og viðskiptamönnum en þeir sóttust eftir Sigurði í hin vandasamari og stærri verkefni. Hann gerðist fljótlega hluthafi í verkfræðistofunni og tók þátt í uppbyggingu hennar og rekstri.

Sigurður var afar farsæll í starfi og verkin hans standa sem vitnisburður um mikla fagmennsku. Hann hafði þá afstöðu að mannvirki yrðu að vera vel byggð, traust og vönduð. Hann hvikaði ekki í þeirri afstöðu en gaf sér þó alltaf góðan tíma til að leita að lausnum sem væru hagkvæmar og auðveldar í framkvæmd.

Í virkjanaverkefnum seinni árin var hann bakhjarl í burðarvirkjum og fór yfir verkefni annarra. Þegar leita þurfti lausna á flóknum kraftayfirfærslum í Kárahnjúkavirkjun var kallað á Sigurð og nýttist þá hans mikla reynsla og yfirsýn. Flókin verkefni uxu honum aldrei í augum en hann réðst að þeim með skipulegum og yfirveguðum hætti.

Sigurður var hægur, rólyndur og fremur fámáll en þegar hann tjáði sig hlustuðu menn vel því hann lagði ávallt gott til mála og sýndi samstarfsmönnum sínum sanngirni og traust. Okkur vinnufélögum leið vel að vinna með honum í verkefnum og hann hafði góða nærveru. Honum var gefið mikið líkamlegt og andlegt atgervi sem hann nýtti sér vel en hann var ótrúlega vinnusamur og afkastamikill.

Við sjáum á bak traustum og góðum félaga og söknum hans, en geymum minningu um mikinn afbragðsmann. Fráfall Sigurðar kom ekki á óvart en hann hafði lengi glímt við erfið veikindi og í þeirri glímu sýndi hann æðruleysi og jafnaðargeð.

Við, félagar og samstarfsmenn Sigurðar hjá Verkís, sendum Margréti og fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Samstarfsmenn og vinir hjá Verkís,

Viðar Ólafsson.

Í dag kveð ég vinnufélaga til 30 ára sem ég kynntist fyrst þegar ég nýkominn úr framhaldsnámi hafði hafið störf á Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen. Þetta sumar var ég sendur víða um landið til vinnu við mælingar og eftirlit í gatnaframkvæmdum og tilfallandi verkefnum. Sigurð sá ég fyrst þegar ég var í Neskaupstað og hann kom þangað til að fara yfir, með Loga bæjarstjóra, ýmis verkefnamál sem hann var að sinna þar. Þá strax fann ég fyrir þeirri virðingu sem borin var fyrir honum og verkfræðistörfum hans. Síðan þá höfum við Sigurður unnið saman að mörgum verkefnum og hef ég alltaf litið á hann sem einn af mentorum mínum á sviði burðarvirkjahönnunar og við úrlausn verkfræðilegra verkefna, enda hef ég og margir fleiri talið hann einn af fremstu burðarvirkjahönnuðum landsins hvað varðar hagkvæmar og einfaldar lausnir á flóknum burðarvirkjum. Ófáir arkitektar hafa leitað til hans þegar leysa hefur þurft úr flóknum vandamálum við að bera uppi hús án þess að rýra fegurð þeirra. Sigurður var fámáll að eðlisfari en sinnti sinni vinnu af alúð og ábyrgð. Hann var mjög vinnusamur enda var oftast leitað til hans þegar finna þurfti mann til að stýra burðarvirkjahönnun í stórum verkefnum á stofunni. Þannig var tryggt að verk yrði vel af hendi leyst og innan þess tíma- og kostnaðarramma sem til verksins var settur. Sigurður var í upphafi starfs míns á stofunni ein af mínum fyrirmyndum og félagi sem alltaf var hægt að leita til við úrlausn verkefna enda vann ég þá oft undir hans stjórn. Síðustu árin hafa málin þó þróast þannig að Sigurður var orðinn undirmaður minn á byggingarsviði Verkís en Verkís varð til við sameiningu nokkurra verkfræðistofa. Sigurður var einn af máttarstólpum sviðsins á sviði burðarvirkja og naut mikils trausts hjá viðskiptavinum okkar og mér ómetanlegur styrkur við rekstur sviðsins. Að hafa mann eins og Sigurð til að stýra verkefnum á sviðinu er ómetanlegt og verður seint þakkað. Erfitt verður að fylla skarð það sem hann skilur eftir í hópnum en við búum þó að því að hann hefur verið ötull við að leiðbeina yngri mönnum.

Sigurður greindist með krabbamein fyrir nokkrum árum sem hann hefur barist hatrammlega við og nú orðið að lúta í lægra haldi fyrir. Þessu mótlæti hefur hann tekið af æðruleysi og reynt að sinna vinnu sinni eins og fyrr en þó með breyttri forgangsröðun.

Ég kveð núna góðan félaga og vin sem ég hef borið mikla virðingu fyrir og lært mikið af.

Ég sendi þér, Margrét, börnunum og barnabörnum mínar innilegustu samúðarkveðjur sem og fyrir hönd okkar félaganna á byggingasviði Verkís. Megi góður Guð styrkja ykkur á erfiðri stund.

Flosi Sigurðsson.