Tókýó í lit kallast ljósmyndasýning Árna Kristjánssonar sem stendur yfir á KEX hosteli nú um helgina, 17.-18. nóvember. Viðfangsefni mynda Árna er daglegt líf í japönsku samfélagi og reynir hann að fanga stutt augnablik í daglegu lífi Japana og hina sérstöku birtu sem umvefur fólk og stræti Tókýóborgar. Myndirnar á sýningunni „Tókýó í lit“ eru litmyndir teknar 2011-2012 víðsvegar um Tókýó og framkallaðar af filmu á ljósmyndapappír af Árna sjálfum.
Árni fæddist árið 1981 og vaknaði áhugi hans á ljósmyndun í menntaskóla en fór á skrið eftir að hann kynntist ódýrum japönskum filmuvélum í Japan. Eftir útskrift úr Menntaskólanum í Hamrahlíð lá leið hans í japönskunám við Háskóla Íslands sem hann lauk í desember 2006. Í apríl 2008 fluttist hann til Japans og hóf nám í menningarfræðum við Tokyo University of the Arts. Hann lauk meistaragráðu í mars 2011 og er nú í doktorsnámi við sama skóla.