Fíkniefni Tollverðir fundu kókaínið falið í töskum stúlknanna.
Fíkniefni Tollverðir fundu kókaínið falið í töskum stúlknanna.
Aðalræðismaður Íslands í Tékklandi heimsótti í vikunni íslensku stúlkurnar tvær sem voru handteknar í landinu í síðustu viku vegna gruns um fíkniefnasmygl.

Aðalræðismaður Íslands í Tékklandi heimsótti í vikunni íslensku stúlkurnar tvær sem voru handteknar í landinu í síðustu viku vegna gruns um fíkniefnasmygl.

„Auðvitað er þetta rosalegt sjokk fyrir þær,“ sagði Þórir Gunnarsson aðalræðismaður í samtali við mbl.is. „Þær eru búnar að gera sér grein fyrir þessum veruleika að einhverju leyti.“

Þórir sagði að nú væri beðið eftir að fá að vita hversu mikið magn af fíkniefnum hefði verið í farangri stúlknanna.

„Þangað til er ekkert rætt við þær eða neitt. Þær fá bara að dúsa þarna,“ segir Þórir. Hann bendir á að frumskýrslur hafi verið teknar af stúlkunum þegar þær voru handteknar á flugvellinum í Prag 7. nóvember sl. og stóð skýrslutakan yfir í um 18 tíma.

Aðbúnaðurinn slæmur

Stúlkurnar eru nú hvor í sínu fangelsinu í höfuðborginni Prag, önnur er í Ruzyne- og hin í Pankrác-fangelsi. Að sögn Þóris er aðbúnaður þeirra „jafnlélegur“ á báðum stöðum; þær séu í nokkurs konar einangrun og megi aðeins ræða við tvær konur.

„Ég fékk allan tíma sem ég vildi,“ segir Þórir en hann sat með hvorri stúlknanna í um einn og hálfan tíma. Megintilgangurinn var að huga að aðbúnaði þeirra og veita þeim stuðning. Hann útvegaði þeim m.a. peninga sem þær geta notað til að kaupa nauðsynjavörur í fangelsinu, t.d. sjampó. jonpetur@mbl.is