Í GRINDAVÍK
Skúli B. Sigurðsson
sport@mbl.is
Grindvíkingar höfðu betur í toppslag gegn Stjörnunni, 90:86, í Dominos-deild karla í körfuknattleik í nokkuð kaflaskiptum leik þar sem fátt var svo sem um fína drætti hjá liðunum. Grindvíkingar og Stjörnumenn deila þar með öðru sæti deildarinnar, bæði með 10 stig eftir sjö umferðir.
Fyrir leik bjóst undirritaður við flugeldasýningu frá báðum liðum. Stjörnumenn hafa spilað fanta vel upp á síðkastið og Grindvíkingar í lægð sem þeir voru staðráðnir að skilja eftir í baksýnisspeglinum. En kvöldið olli vonbrigðum, fátt um tilþrif og í besta falli var skotið upp nokkrum ýlum og kveikt á fáeinum blysum. Leikurinn var þó jafn að mestum hluta ef undan er skilið þegar Grindvíkingar náðu 13 stiga forystu í fyrri hálfleik og leiddu með tíu stigum þegar flautað var til hálfleiks. Frábær fimm mínútna kafli í byrjun seinni hálfleiks skilaði þeim í jafna stöðu aftur og stöðubaráttan hélt til loka leiks.
Brian Mills, leikmaður Stjörnunnar, lék vel og þessi maður fárra orða er enginn „tívolí bomba“ en gerir nákvæmlega það sem af er honum ætlast. Þegar horft var á leikinn þá virtist frákastabaráttan vera einkaeign Stjörnumanna en tölfræði leiksins sýnir annað, en sá tölfræðiþáttur sem varð gestunum að falli að þessu sinni voru þeir 20 tapaðir boltar sem enduðu í lúkunum á heimaliðinu. Aaron Broussard hefur spilað upp og ofan í vetur og þeir sem hafa valið hann í sitt draumadeildarlið hafa orðið fyrir smá vonbrigðum með pilt. En í gærkvöldi spilaði hann eins og engill og skilaði 24 stigum í sarpinn fyrir Grindvíkinga þar af mikilvæg stig á lokamínútu leiksins þegar Stjörnumenn voru við það að stela sigrinum.
Til að halda dampi þarf Grindavíkurliðið að spila allan leikinn á fullu og nýta þann hraða sem það hefur upp völlinn. Það gerðu leikmenn liðsins á köflum en um leið og þeir hægðu á sér voru Stjörnumenn fljótir að refsa með góðri vörn. En þrátt fyrir lítil tilþrif þetta kvöldið sér undirritaður ekki annað en að í það minnsta annað hvort ef ekki bæði liðin muni verða í baráttu um titilinn.
Býrð til þína eigin heppni
Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, var ekki með böggum hildar þrátt fyrir tapið í gær. „Það kom hörmulegur leikkafli hjá okkur í öðrum leikhluta þar sem einbeitingin datt niður hjá okkur. En við áttum góðan möguleika á að komast yfir og vorum að spila ágætis vörn en þá datt á okkur þessi ömurlegi kafli þar sem við hendum boltanum frá okkur fimm eða sex sinnum. Þessi kafli hjá okkur fannst mér vera leikurinn hérna í kvöld. Þú býrð sjálfur til þína heppni en ég er kannski sáttur við að þótt mínir leikmenn hafi ekki allir spilað vel erum við samt vel inni í leiknum allan tímann,“ sagði Teitur.„Barátta og vilji skilaði okkur sigri. Við ætluðum að halda mönnum fyrir framan okkur og stíga vel út en það gekk bara ekki nógu vel. Við vorum með margar klaufalegar sendingar og margt sem við hefðum getað gert betur en það er sigurinn sem skiptir öllu,“ sagði Þorleifur Ólafsson, leikmaður Grindvíkinga, eftir leikinn.