Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
„Fólk er spennt fyrir því að heimsmeistaramót sé haldið í stórborg eins og Berlín. Margir eru að gera borgarferð úr þessu, ásamt því að sækja viðburðinn,“ segir Rúnar Guðbrandsson sem er tengiliður skipuleggjenda Heimsleika íslenska hestsins sem haldnir verða í höfuðborg Þýskalands í byrjun ágúst á næsta ári. Fjöldi Íslendinga er þegar búinn að kaupa sér ferð eða panta far og hótel í Berlín.
Mótið verður haldið á hestaíþróttasvæði í Karlshorst í austurhluta Berlínar dagana 4. til 11. ágúst 2013. Skipuleggjendur mótsins hafa boðið til hópreiðar frá Brandenborgarhliðinu í miðborg Berlínar að keppnissvæðinu á setningardaginn, 4. ágúst.
Unnið hefur verið að undirbúningi svæðisins fyrir mótið. Þar hefur verið lögð keppnisbraut, innan í gömlu brokkbrautinni. Fyrir mótið verða settar upp áhorfendastúkur við brautina og aðstaða til að þjóna gestum og kynningarsvæði fyrir fyrirtæki. Stórt mót, unglingamót þýskra Íslandshestaeigenda, sem haldið var á keppnissvæðinu í lok júlí í sumar, var eins konar reynslumót og gekk það vel.
Mótssvæðið getur tekið við 19 þúsund áhorfendum. Búist er við fjölda eigenda íslenskra hesta frá Evrópulöndum en í Þýskalandi einu eru 24 þúsund félagar. Þá kemur alltaf stór hópur frá Íslandi. Skipuleggjendur mótsins munu auglýsa það vel upp í Þýskalandi og höfða sérstaklega til fjölskyldufólks í Berlín að sækja einstaka viðburði.
Íslandsstofa er að undirbúa kynningu á íslenskum fyrirtækjum á mótssvæðinu. Þá verða menningarviðburðir á vegum sendiráðsins um sumarið.
Íslendingar fjölmenna
» Um þúsund Íslendingar hafa þegar keypt sér sæti í hópferðum eða pantað hótelherbergi í Berlín vegna heimsleikanna.
» Úrval-Útsýn hefur fyllt eina flugvél í heimsmeistaramótsferð sína og biðlisti er þegar í næstum aðra vél.
» Stjórnendur fyrirtækjanna Hrímnis og Top Reiter hafa bókað 320 herbergi fyrir ferð sem þeir skipuleggja fyrir vini sína í samvinnu við þýska ferðaskrifstofu.
» Þá fara margir á eigin vegum. Wow air og fleiri flugfélög bjóða ferðir frá Íslandi.
» Búist er við mörgum Íslendingum að sækja sitt fyrsta heimsmeistaramót.