HANDBOLTI
Ívar Benediktsson
iben@mbl.is
„Það hefur aldrei verið eins erfitt að velja landsliðshóp til æfinga hjá kvennalandsliðinu og núna,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, landsliðsþjálfari í handknattleik kvenna, þegar hann tilkynnti val á 22 leikmönnum til æfinga fyrir þátttöku á Evrópumeistaramótinu sem hefst í Serbíu þriðjudaginn 4. desember. Æfingar hefjast hjá íslenska landsliðinu á næsta mánudag og reiknar Ágúst með að velja endanlegan 16 manna hóp föstudaginn 23. nóvember. „Stóri hópurinn æfir væntanlega saman sjö sinnum áður en ég vel endanlegan EM-hóp. Ég þarf að leita svara hjá nokkrum leikmönnum áður en endanlegt val fer fram en ljóst er að það verður erfitt fyrir okkur Gústaf Adolf Björnsson aðstoðarþjálfara að skera hópinn niður,“ sagði Ágúst ennfremur.
Spurður um markmið íslenska landsliðsins á Evrópumeistaramótinu sagðist Ágúst eiga eftir að fara yfir þau með landsliðshópnum. „Það er alveg ljóst að við viljum taka að minnsta kosti eitt skref fram á við frá síðasta Evrópumeistaramóti með því að komast upp úr riðlinum í Vrsac og til þess verðum við að vinna að minnsta kosti einn leik. Það verður ekkert létt því andstæðingarnir eru sterkir eins og vera ber í lokakeppni EM. Segja má að enginn leikmaður eigi öruggt sæti í lokahópnum,“ sagði Ágúst.
Íslenska landsliðið verður í riðli með Svartfellingum, Rúmenum og Rússum og leikur við þjóðirnar í fyrrgreindri röð 4., 5. og 7. desember í Vrsac. Þar lék íslenska karlalandsliðið einnig í riðlakeppni EM í janúar sl.
Ekkert kom á óvart í vali Ágústs í gær. Allar sterkustu handknattleikskonur landsins eru í hópnum, þar á meðal Ramune Pekarskyte, sem fékk íslenskan ríkisborgararétt í vor. Karen Knútsdóttir er sú eina sem glímir við meiðsli. Ágúst sagðist telja víst að hún yrði búin að jafna sig þegar á hólminn kæmi í Serbíu. „Hún kemur hingað heim og æfir með okkur og verður í sjúkraþjálfun hjá okkar fólki. Það er ekkert sem bendir til annars en Karen verði með enda er hún nauðsynlegur hlekkur í landsliðshópnum,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik.
Markverðir:
Dröfn Haraldsdóttir, FH
Guðný Jenný Ásmundsdóttir, Val
Ólöf Kolbrún Ragnarsdóttir, HK
Sunneva Einarsdóttir, Stjörnunni
Aðrir leikmenn:
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, Val
Arna Sif Pálsdóttir, Aalborg DH
Ásta Birna Gunnarsdóttir, Fram
Birna Berg Haraldsdóttir, Fram
Dagný Skúladóttir, Val
Elísabet Gunnarsdóttir, Fram
Hanna Guðrún Stefánsdóttir, Stjörnunni
Hildur Þorgeirsdóttir, Blomberg-Lippe
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, Val
Jóna Margrét Ragnarsdóttir, Stjörnunni
Karen Knútsdóttir, Blomberg-Lippe
Rakel Dögg Bragadóttir, Stjörnunni
Ramune Pekarskyte, Levanger HK
Steinunn Björnsdóttir, Fram
Stella Sigurðardóttir, Fram
Rut Jónsdóttir, TT-Holstebro
Þorgerður Anna Atladóttir, Val
Þorey Rósa Stefánsdóttir, TT-Holstebro. 2