„Við tökum þetta að sjálfsögðu mjög alvarlega,“ segir Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, um úrskurð kærunefndar jafnréttismála þess efnis að Heilsugæslan hafi brotið lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ákvörðun launakjara.
Í úrskurðinum, sem birtur var fyrir skömmu, kemur fram að iðjuþjálfi, kona, hafi hafið störf hjá Geðheilsu-eftirfylgd í nóvember 2005. Í desember 2007 hafi karlmaður í meistaranámi í sálfræði verið ráðinn til starfa á sama stað. Í október í fyrra hafi iðjuþjálfinn óskað eftir skýringum á launamun milli hennar og nefnds karlmanns og farið fram á að bætt yrði úr þeim mun. Laun kæranda hafi verið hækkuð um tvo launaflokka og eftir hækkunina hafi laun viðkomandi verið nánast þau sömu, en frá 1. júní 2010 höfðu laun konunnar hækkað um einn launaflokk þegar hún varð staðgengill forstöðumanns.
Nær fimm ára tímabil
Konan leitaði til Jafnréttisstofu fyrr á líðandi ári og kemst kærunefnd jafnréttismála að því að brotið hafi verið á konunni frá 1. desember 2007 til starfsloka hennar 30. maí 2012.Svanhvít Jakobsdóttir segir að hún geti ekki tjáð sig um málið á þessu stigi. Verið sé að fara yfir úrskurðinn og stefnt sé að því að eiga fund með iðjuþjálfanum á næstu dögum. Hún segist ekki halda að fleiri sambærileg mál séu hjá Heilsugæslunni en verið sé að kanna stöðuna. „Við munum að sjálfsögðu fara mjög vandlega yfir þetta,“ segir hún.
steinthor@mbl.is