Guðrún Dýrleif Kristjánsdóttir fæddist í Reykjavík 4. apríl 1958. Hún lést í Reykjavík 24. október 2012.

Útför Dýrleifar fór fram frá Neskirkju við Hagatorg 7. nóvember 2012.

Afburða snjöll, leiftrandi skemmtileg og góður vinur. Þannig var Dilla. Hún kom inn í vinahópinn í 3. bekk í MR og ávann sér samstundis sess í þéttri klíku Hagaskólakrakka sem héldu til í Fjósinu í öllum frímínútum. Hún passaði svo vel inn í hópinn að það var eins og við hefðum alltaf þekkt hana. Þessi yndislega stúlka varð mín besta vinkona og nágrannakona næstu áratugina.

Hún var fær í sínu fagi sem hjúkrunarfræðingur og ég naut leiðsagnar hennar um brjóstagjöf, kvilla og barnastúss. Hún var líka huggari í ástarsorg og sú sem var trúað fyrir öllum leyndustu hugsunum. Dilla gat verið undurblíð en líka harðákveðin og þrautseig. Hún ól upp Kristján sinn, einkason og augastein og bjó þeim fallegt heimili á Ásvallagötunni. Þegar hún hóf nám í lögfræði, hellti hún sér í það heilshugar og af miklum krafti. Lögmannsstörfin virtust eiga vel við hana og ekki var annað að sjá en að hún blómstraði. Það gladdi gömlu vinkonurnar ósegjanlega þótt við sæjum minna af henni en áður. Nú sitjum við eftir harmi slegnar því vinkona okkar fór alltof snemma og alltof snöggt. Hvernig er hægt að kveðja bestu vinkonu? Dóttir mín segist alltaf sjá Dillu fyrir sér hlæjandi. Það er líka þannig sem hún stendur fyrir mínum hugskotssjónum og mun gera um ókomna tíð. Elsku Dilla, sem var okkur öllum svo kær. Ég sendi mínar dýpstu samúðarkveðjur til Kristjáns, Hjördísar og barnabarnanna sem hún elskaði og dáði. Til Unnar sem hefur misst yndislega dóttur og vinkonu og til systkina Dillu og fjölskyldna þeirra.

Brynhildur Bergþórsdóttir.