Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur ákveðið að auglýsa ekki að svo stöddu breytingar á aðalskipulagi sem heimila myndu byggingu vindrafstöðva á bænum Vorsabæ á Skeiðum. Í bókun sinni vísar sveitarstjórn til álits Umhverfisstofnunar sem hvetur til þess að áhrif vindrafstöðva verði metin, þótt það sé ekki skylt að lögum.
Steingrímur Erlingsson, eigandi hluta jarðarinnar Vorsabæjar 1, óskaði eftir breytingum á aðalskipulagi til að gera honum kleift að reisa þar vindmyllur til raforkuframleiðslu. Hann hefur áform um að reisa tvær myllur til að byrja með en einnig menningarhús og íbúðarhús. Vindmyllurnar geta náð upp í 74 metra hæð.
Sjást langt að
Skeiða- og Gnúpverjahreppur hefur heimilað Landsvirkjun að reisa tvær vindmyllur í tilraunaskyni í nágrenni Búrfellsstöðvar. Þar hafa farið fram mælingar á vindi. Landsvirkjun vinnur nú að undirbúningi stöðvanna.Í afgreiðslu sveitarstjórnar á erindi eiganda Vorsabæjar kemur fram það álit að svo stórar vindmyllur falli illa að landslagi á svæðinu. Gunnar Örn Marteinsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps, segir öðru máli gegna um vindmyllur ofan við Búrfellsstöð. Þar sé engin byggð. Á Skeiðum sé hins vegar flatlent og vindmyllur sjáist langt að. Telur Gunnar rétt að sjá hvernig vindmyllur Landsvirkjunar komi út í landslagi áður en lengra er haldið.
Ekki hafa verið gerðar athugasemdir við áform um uppbyggingu annarra mannvirkja á landinu.
Tillaga jarðareigandans var kynnt fyrir íbúum og ýmsum stofnunum. Athugasemd kom frá Umhverfisstofnun og landslagsarkitekt. Umhverfisstofnun vekur athygli á því að raflínur fari um land Vorsabæjar. Telur stofnunin mikilvægt að skoða hvernig sameiginleg sjónræn umhverfisáhrif frá raflínum og vindrafstöð verði. Einnig er vakin athygli á fjölda frístundabyggða á þessu svæði og skoða þurfi hvaða áhrif vindrafstöðvar hafi á umhverfið og á útsýni frá frístundabyggðum til fjalla.