Heila- og taugaskurðlækningadeild B6 á Landspítala Fossvogi hefur fengið að gjöf ómskoðunartæki til að mæla blóðflæði í æðum við skurðaðgerðir. Gjöfin er til minningar um Jakob Örn Sigurðarson sem lést 9.

Heila- og taugaskurðlækningadeild B6 á Landspítala Fossvogi hefur fengið að gjöf ómskoðunartæki til að mæla blóðflæði í æðum við skurðaðgerðir. Gjöfin er til minningar um Jakob Örn Sigurðarson sem lést 9. mars 2008 af völdum heilablæðingar, þá á ellefta ári.

Foreldrar Jakobs Arnar og einn af þremur bræðrum hans afhentu gjöfina. Aðdragandi hennar var sá að fyrirtækið Sensa ehf. varð 10 ára fyrr á árinu en faðir Jakobs hefur starfað þar síðan 2003. Í tilefni af afmælinu og að Jakob Örn var 10 ára þegar hann lést færði Sensa fjölskyldunni peningagjöf til minningar um drenginn sem henni var falið að gefa áfram þangað sem hún kæmi að góðum notum. Jakob Örn hafði átt margar stundir á skrifstofu Sensa og þekkti starfsfólkið mjög vel. „Fjölskyldan vildi að minningargjöfin tengdist heilablæðingum á einhvern hátt og ákvað að færa heila- og taugaskurðlækningadeildinni hana,“ segir í tilkynningu frá LSH.

Herdís Þorláksdóttir, móðir Jakobs Arnar, segir að það sé gott að geta gefið í minningu barnsins síns og haldið minningu þess lifandi. „Tækið er ekki eins og hvert annað tæki sem er keypt heldur er það minning um barn,“ segir Herdís.

Viðstödd afhendinguna voru Ingvar Hákon Ólafsson, heila- og taugaskurðlæknir, Aron Björnsson, yfirlæknir heila- og taugaskurðlækninga, Herdís Þorláksdóttir (móðir), Sigurður Magnús Jónsson (faðir), Rafnar Örn Sigurðarson, 10 ára yngri bróðir, og Valgerður Hrund Skúladóttir, framkvæmdastjóri Sensa ehf. Tveir yngri bræður, Óttar Örn og Ívar Örn, voru heima. Ingvar brá nýja tækinu á Rafnar Örn og það reyndist vera ágætis blóðflæði í fimleikastráknum.