Verðmæti Í Mývatni er fjölbreyttur lífmassi sem skoðaður verður með tilliti til nýtingar. Á myndinni er sérstakur gerlagróður á botni Mývatns.
Verðmæti Í Mývatni er fjölbreyttur lífmassi sem skoðaður verður með tilliti til nýtingar. Á myndinni er sérstakur gerlagróður á botni Mývatns. — Morgunblaðið/Birkir Fanndal
Birkir Fanndal Mývatnssveit MýSköpun heitir félag sem stofnað hefur verið í Mývatnssveit.

Birkir Fanndal

Mývatnssveit

MýSköpun heitir félag sem stofnað hefur verið í Mývatnssveit.

Tilgangur félagsins er að vinna að umhverfisvænni nýsköpun í sveitinni, sem byggð verði á ræktun lífmassa svo sem þörunga úr Mývatni og nýtingu umframvarma sem hér er til staðar í verulegu magni.

Unnið hefur verið að undirbúningi þessa verkefnis síðan 2010 í samstarfi Skútustaðahrepps, Háskólans á Akureyri og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Segja má að hugmyndin hafi kviknað á íbúafundi sem haldinn var í Skjólbrekku 27. febrúar 2010. Það var síðan í júní á þessu ári sem haldinn var kynningarfundar í Reykjahlíð. Á þann fund voru boðaðir íbúar Mývatnssveitar og nágrannasveitarfélaga. Þar voru hugmyndir reifaðar og fyrirspurnum svarað. Á stofnfundinum, sem haldinn var í síðustu viku, voru nær 40 manns, heimafólk ásamt fulltrúum frá Háskólanum á Akureyri, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Matís.

Eftir framsöguerindi og umræður var gengið til stofnunar félagsins MýSköpun ehf. Í stjórn hins nýja félags voru kosin: Dagbjört Bjarnadóttir, oddviti Skútustaðahrepps, sem er formaður – aðrir í stjórn: Þorsteinn Ingi Sigfússon, Hjörleifur Einarsson, Óli Grétar Blöndal Sveinsson og Jóhann Friðrik Kristjánsson.

Rúmum 10 milljónum hefur verið safnað í hlutafé auk þess sem nokkrir aðilar hafa heitið margskonar stuðningi við fyrirtækið.

Bjartsýni var ríkjandi á fundinum og ekki síst vegna þeirra fjölbreyttu möguleika sem eru í lífríki Mývatns og jarðvarmanum auk annars.