Björn Jóhann Björnsson
Una Sighvatsdsóttir
„Maður er aðeins vonbetri en áður með að þetta sé að ná til eyrna ráðamanna og það verði brugðist við með einhverjum hætti. Allir gera sér grein fyrir að hér varð efnahagshrun, við fundum vel reiði fólksins í mótmælunum á Austurvelli og vitum vel hvert ástandið er. Það vantar fé í mörg brýn verkefni en öryggi borgara og lögreglumanna hlýtur að vera í fremstu röð þegar kemur að útdeilingu fjármuna,“ segir Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, sem var á pöllum Alþingis í gær þegar fram fór sérstök umræða um skipulagða glæpastarfsemi og stöðu lögregluembættanna í landinu. Málshefjandi var Jón Gunnarsson þingmaður og innanríkisráðherra til svara.
Öryggi fólks lætur undan
Frm kom í umræðunum að þörf væri á 500 milljóna króna fjárveitingu aukalega til að koma í veg fyrir frekari uppsagnir og fækkun lögreglumanna og standa þannig vörð um öryggi bæði borgara og lögreglumanna. Voru þingmenn bæði stjórnar og stjórnarandstöðu sammála um að aðgerða væri þörf.Þingmenn vísuðu m.a. í frétt Morgunblaðsins frá í gær um að sýslumannsembættið á Selfossi sæi fram á að segja upp fjórum lögreglumönnum vegna fjársveltis. „Það er ljóst hvað lætur undan og það er öryggi borgaranna,“ sagði Tryggvi Þór Herbertsson, Sjálfstæðisflokki. „Í Þingeyjarsýslu er einn lögreglumaður á vakt á svæði sem er stærra en sem nemur Ísrael og hluta af Egyptalandi. Einn maður á vakt, það sér hver maður að þetta gengur ekki upp.“
Snorri sagði við Morgunblaðið eftir umræðurnar að 500 milljónir króna til viðbótar væru dropi í hafið miðað við að útgjöld til lögreglunnar hefðu dregist saman um 2,8 milljarða króna undanfarin tvö ár, framreiknað til dagsins í dag. Það hefði fengist staðfest í þingumræðunni. „Þetta er gríðarlega mikið högg sem stéttin hefur orðið fyrir. Það er verið að biðja um hið ómögulega að ætla lögreglustjórum að reka embættin með þessum hætti,“ sagði Snorri.
Hann sagðist telja að staða lögregluembætta væri í mörgum tilvikum svipuð og á Selfossi. „Hún getur verið mismunandi eftir stöðum en alls staðar er hún slæm,“ segir Snorri og bendir á að lögreglumenn hafi undanfarin fjögur ár ítrekað bent á áhrif fjársveltisins sem löggæslan býr við.
„Lögreglustjórar eru að gera sitt besta við alveg gríðarlega erfiðar aðstæður og þeir hafa í raun unnið kraftaverk í að nota það fjármagn sem til fellur. Alls staðar er verið að keyra á lágmarksmannskap,“ segir Snorri.
Ástandið grafalvarlegt
Á undanförnum árum hefur stöðugildum innan lögreglunnar fækkað um 80, sem er vel yfir 10% af mannskapnum í heild. Árið 2007 voru lögreglumenn í landinu ríflega 700 talsins en eru í dag í kringum 650. Fram kom í mannaflagreiningu ríkislögreglustjóra árið 2006 að árið 2012 yrði þörf fyrir um 900 lögreglumenn til að sinna lögboðinni skyldu löggæslunnar.„Ef við förum lengra aftur, og miðum við þá miklu yfirvinnu sem þá var unnin, erum við í raun að tala um mun fleiri ársverk en 80 sem hafa farið úr lögreglunni. Landssambandið hefur margbent á að ástandið er grafalvarlegt og hefur verið lengi. Ábyrgð á því ber fjárveitingavaldið en við lifum í þeirri von að loksins verði farið að hlusta á okkur,“ segir Snorri að endingu.
INNANRÍKISRÁÐHERRA Í UMRÆÐUM Á ALÞINGI