Sterkur Guðmundur Hólmar Helgson sækir hér að vön FH-inga. Til varnar eru Ásbjörn Friðriksson og Ísak Rafnsson. Guðmundur var sterkur á lokakaflanum.
Sterkur Guðmundur Hólmar Helgson sækir hér að vön FH-inga. Til varnar eru Ásbjörn Friðriksson og Ísak Rafnsson. Guðmundur var sterkur á lokakaflanum. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í KAPLAKRIKA Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Það er óhætt að segja að leikur FH og Akureyrar í Kaplakrika hafi verið kaflaskiptur.

Í KAPLAKRIKA

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Það er óhætt að segja að leikur FH og Akureyrar í Kaplakrika hafi verið kaflaskiptur. Akureyingar höfðu undirtökin í fyrri hálfleik og voru fjórum mörkum yfir eftir hann en fyrstu 20 mínúturnar í seinni hálfleik hrökk allt í baklás hjá norðanmönnum. FH-ingar gengu á lagið og náðu þriggja marka forskoti þegar rúmar átta mínútur voru eftir. Hvort FH-ingar hafi haldið að sigurinn væri í höfn er ekki gott að segja en alltént lögðu þeir hreinlega árar í bát og það færðu Akureyringar sér heldur betur í nyt. Þeir fögnuðu sætum sigri í Krikanum en þetta var fyrsti sigur Akureyringa í deildinni í rúman mánuð. Fyrir leikinn höfðu þeir tapað þremur leikjum í röð.

„Það gekk allt leikskipulag upp hjá okkur í fyrri hálfleik en við mættum værukærir til leiks í seinni hálfleik og það gekk hreinlega ekkert hjá okkur í sókninni. Mér leist ekki á blikuna þegar við vorum komnir þremur mörkum undir en við tókum leikhlé og þar var ákveðið að menn gæfu allt sem þeir áttu og það var sætt að koma til baka og vinna,“ sagði hornamaðurinn Andri Snær Stefánsson við Morgunblaðið eftir leikinn.

Vörn og markvarsla Jovans Kukobat voru þeir þættir sem skópu sigur Akureyringa. Gamla brýnið Guðlaugur Arnarsson er mættur aftur til leiks og hann stjórnaði vörn sinna manna eins og herforingi og Kukobat varði oft vel í leiknum, ekki síst úr góðum færum FH-inga. Í sókninni var Bergvin Gíslason mjög drjúgur og Guðmundur Hólmar kom sterkur upp þegar mest á reyndi í lokin. Þetta var sterkur sigur Akureyringa eftir mikið basl á undanförnum vikum. FH-ingar eru heillum horfnir þessa dagana. Fyrri hálfleikurinn hjá þeim var beint framhald af Haukaleiknum þar sem þeir voru jarðaðir en þeir náðu að snúa leiknum sér í vil í seinni hálfleik með góðum varnarleik. Lokakaflinn var hrein hörmung af hálfu liðsins og ljóst er að þjálfarinn Einar Andri Einarsson hefur um ýmislegt að hugsa eftir tvö slæm töp á heimavelli. Sjálfstraust leikmanna FH laskaðist mikið eftir skellinn á móti Haukum og það mátti glöggt merkja á lokamínútunum í gær. Það er eitthvað að í herbúðum FH og menn þar á bæ þurfa flestir að fara í naflaskoðun.

FH – Akureyri 23:26

Kaplakriki, úrvalsdeild karla, N1 deildin, fimmtudaginn 15. nóvember 2012.

Gangur leiksins : 0:1, 4:3, 6:7, 7:10, 10:13, 12:16 , 14:16, 17:17, 22:19, 22:24, 23:26 .

Mörk FH : Ólafur Gústafsson 6, Ragnar Jóhannsson 5, Ásbjörn Friðriksson 3, Einar Rafn Eiðsson 3/1, Sigurður Ágústsson 2, Bjarki Jónsson 2, Andri Berg Haraldsson 1, Ari Magnús Þorgeirsson 1.

Varin skot : Daníel Freyr Andrésson 14, Sigurður Örn Arnarson 5.

Utan vallar : 2 mínútur.

Mörk Akureyrar : Guðmundur Hólmar Helgason 7, Bergvin Þór Gíslason 5, Bjarni Fritzson 5, Andri Snær Stefánsson 4, Friðrik Svavarsson 2, Geir Guðmundsson 1, Heimir Örn Árnason 1.

Varin skot : Jovan Kukobat 15/1.

Utan vallar : 6 mínútur.

Dómarar : Hlynur Leifsson og Hafsteinn Ingibergsson.

Áhorfendur : Um 600.