Karl Maríus Jensson (Carló) fæddist í Vejle á Jótlandi í Danmörku 18. október 1918. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Eir 9. nóvember 2012.

Móðir Carlós lést í spænsku veikinni þegar hann var nokkurra daga gamall. Fyrstu árin ólst Carló að mestu leyti upp á barnaheimili í Vejle en eftir að faðir hans kvæntist á nýjan leik flutti Carló inn á heimili föður síns og uppeldismóður sem Carló nefndi ævinlega móður sína.

Carló kvæntist í júlí 1956 Sigríði Jónsdóttur, f. 4. september 1903, d. 9. mars 1999. Þau eignuðust ekki börn.

Carló hóf snemma að vinna fyrir sér. Frá unglingsaldri og fram að stríðsbyrjun var Carló messagutti á dönskum farskipum sem sigldu víðsvegar um heiminn. Á stríðsárunum vann Carló um skeið í Þýskalandi en lengst af í heimalandi sínu. Til Íslands kom Carló 7. maí 1948 og hóf þegar störf á Álafossi. Þar vann Carló við ýmis störf þar til starfsævinni lauk 1987. Hann fékk íslenskan ríkisborgararétt vorið 1956. Carló bjó á Álafossi frá 1948 til 1992 að hann og Sigríður flutti á Hlaðhamra, íbúðir aldraðra í Mosfellsbæ. Carló var til heimilis á Hlaðhömrum til ársins 2010 að hann flutti á Hjúkrunarheimilið Eir.

Útför Karls Maríusar fer fram frá Lágafellskirkju í dag, 16. nóvember 2012, kl. 15.

Kær vinur minn er látinn.

Carló eins og hann var kallaður bjó í íbúðum aldraðra að Hlaðhömrum, síðar öryggisíbúðum að Eirhömrum frá 1992 til 2010 er hann flutti á hjúkrunarheimilið Eir en þá var hann orðinn ansi lúinn og farinn að þurfa meiri þjónustu en við í öryggisíbúðum aldraðra gátum boðið honum upp á. Vel var hugsað um minn góða vin og fá allir þeir sem að komu bestu þakkir fyrir. Carló giftist henni Siggu sinni 1956 og lifðu þau í hamingjusömu hjónabandi til andláts hennar árið 1999. Sigga og Carló áttu engin börn en Carló átti samt fullt af börnum því börn nágrannanna og vinanna löðuðust að honum, hann var mikill barnavinur. Carlo var danskur að ættum, hann var fæddur í Vejle á Jótlandi og þótti honum mjög vænt um bæinn sinn, hann talaði mikið um hann og heimsótti hann á meðan Karen systir hans var á lífi. Nú er þessi vinur minn fallinn frá og óska ég honum guðs blessunar og þakka góð kynni liðinna ára.

Far þú í friði, kæri vinur.

Valgerður Magnúsdóttir.

Þá er hann fallinn frá vinur okkar til margra ára hann Carlo. Hann bjó í íbúðum aldraðra í Hlaðhömrum og var því nágranni okkar í leikskólanum Hlíð. Carlo hafði gaman af því að fylgjast með börnunum og bar mikla umhyggju fyrir þessum litlu nágrönnum sínum og því starfi sem fram fór í leikskólanum.

Carlo var sérstakur vildarvinur okkar, vildi gleðja börnin og starfsfólkið og sýndi það í verki með því að færa okkur höfðinglegar gjafir svo sem fánastöng og fána en honum fannst brýnt að við gætum flaggað við hin ýmsu tækifæri. Hann heimsótti okkur stundum í leikskólann og þáði kaffisopa og átti góðar stundir með okkur. Á stórafmæli hans fyrir nokkrum árum heimsóttu börnin hann, færðu honum mynd sem þau höfðu búið til og sungu fyrir hann. Þetta gladdi hann mjög.

Við kveðjum með söknuði okkar kæra vin og biðjum Guð að blessa minningu hans.

Fyrir hönd starfsfólks og barna

leikskólanum Hlíð Mosfellsbæ,

Jóhanna S. Hermannsdóttir.