Uppbygging Skipulagsmál Landspítalans eru mikið deiluefni.
Uppbygging Skipulagsmál Landspítalans eru mikið deiluefni. — Morgunblaðið/ÞÖK
Meirihluti borgarráðs hefur samþykkt breytingar á svæðisskipulagi höfuðborgarinnar.

Meirihluti borgarráðs hefur samþykkt breytingar á svæðisskipulagi höfuðborgarinnar. Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, greiddi atkvæði gegn tillögunni og ítrekaði mótmæli sín vegna fyrirhugaðs byggingarmagns á svæði Landspítalans sem er fjórfalt meira en það sem fyrir er á reitnum. Í fréttatilkynningu segist hann hissa á að eftir öll þau mótmæli sem borist hafa vegna mikillar uppbyggingar við Landspítalann sé ekki staldrað við, staðan endurmetin og tillit tekið til athugasemda borgarbúa.

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir að nánast engar athugasemdir hafi verið gerðar við breytingar á svæðisskipulaginu enda séu þær minni háttar. „Þær felast fyrst og fremst í að fella út Holtsgöng sem umferðarspár hafa aldrei sýnt fram á að brýn þörf sé fyrir. Einnig er verið að færa byggingarmagn milli reita. Burtséð frá deilunni um Landspítalann þá held ég að þessi svæðisskipulagstillaga sé skynsamleg. Breytingarnar á deiliskipulaginu eru umdeildari en ekki er verið að taka afstöðu til þeirra núna,“ segir Dagur. heimirs@mbl.is