Eftir Orra Hauksson, Sigrúnu Guðnýju Markúsdóttur, Guðrúnu Ingu Torfadóttur, Ingibjörgu Guðmundsdóttur og Ingva Hrafn Óskarsson: "Á næstu misserum kemur í hlut íslenskra stjórnmálamanna að taka margar flóknar ákvarðanir."

Á næstu misserum kemur í hlut íslenskra stjórnmálamanna að taka margar flóknar ákvarðanir. Afnám gjaldeyrishafta, þrotabú bankanna, stjórn peningamála, fjárhagsvandi Íbúðalánasjóðs, opinber skuldasöfnun, lífeyrishalli ríkisins og fjárfestingaleysi atvinnulífsins eru nokkur dæmi um risavaxin verkefni sem fyrir liggja. Þetta eru kannski ekki skemmtilegustu viðfangsefnin sem stjórnmálamenn fást við. Núverandi stjórnvöld hafa þannig gefið þessum þáttum lítinn gaum undanfarin ár og ýtt þeim inn í framtíðina.

Afar mikilvægt er hins vegar að ganga skipulega til verka hið allra fyrsta, hvernig tekst til getur ráðið miklu um efnhagslega velferð þjóðarinnar til langs tíma. Óvenjulega rík þörf er því nú á að til forystu í stjórnmálum veljist hæfileikafólk sem kann til verka í þessu sviði.

Fjármálalæsi stjórnmálamanna

Stjórnmálaflokkarnir eru nú í óðaönn að velja sér fólk á framboðslista fyrir þingkosningar. Hvetja ber fólk til að nýta sér lýðræðislegan rétt sinn, þar sem prófkjör eða forvöl ráða hvernig fulltrúar þeirra raðast á lista. Það er mikilvægt að allir alvöru stjórnmálaflokkar geti boðið upp á breiða fylkingu af fólki með fjölbreytta reynslu.

Höfundar þessarar greinar telja að nú sé grundvallaratriði að í lykilsætum sé fólk með reynslu og hæfni í efnahags- og fjármálum. Það er efsta fólkið af listum þeirra flokka, sem skipa ríkisstjórn hverju sinni, sem ræðst til hagstjórnar og fjárhagslegra verkefna.

Illuga í efsta sætið

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík heldur prófkjör innan skamms og þar gefur kost á sér Illugi Gunnarsson alþingismaður. Fáir núverandi þingmenn hafa sett sig betur inn í ríkisfjármál, peningamál og önnur hagræn úrlausnarefni. Illugi á að baki áralanga menntun á þessu sviði, auk þess að hafa starfað í atvinnulífinu í Reykjavík, á landsbyggðinni og utan Íslands.

Fjármálastjórnun og áætlanagerð eru meðal þeirra lykilverkefna sem hafa komið í hans hlut. Við undirrituð erum ekki í vafa um að Illugi geti unnið efnahagsframvindu landsins mikið gagn á næstu árum og hyggjumst því setja hann í fyrsta sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Með greinarkorni þessu viljum hvetja við aðra til hins sama.

ORRI HAUKSSON,

verkfræðingur og MBA.

SIGRÚN GUÐNÝ

MARKÚSDÓTTIR

markaðshagfræðingur.

GUÐRÚN INGA

TORFADÓTTIR

hdl.

INGIBJÖRG

GUÐMUNDSDÓTTIR

viðskiptafræðingur.

INGVI HRAFN

ÓSKARSSON

hdl.

Eftir Orra Hauksson, Sigrúnu Guðnýju Markúsdóttur, Guðrúnu Ingu Torfadóttur, Ingibjörgu Guðmundsdóttur og Ingva Hrafn Óskarsson

Höf.: Orra Hauksson, Sigrúnu Guðnýju Markúsdóttur, Guðrúnu Ingu Torfadóttur, Ingibjörgu Guðmundsdóttur, Ingva Hrafn Óskarsson