Halldór Nilsson fæddist á Akureyri 27. janúar 1982. Hann lést 1. nóvember 2012.

Úför Halldórs fór fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju 9. nóvember 2012.

Elskulegur bekkjarbróðir minn Halldór Nílsson, eða Doritt eins og hann var oftast kallaður af okkur krökkunum, er dáinn. Við kynntumst í Master Commison Biblíuskólanum hér á Íslandi. Við bjuggum þar 6 strákar í herbergi, geri aðrir betur. Stundum var hlerað yfir í herbergi stelpnanna og hafðir þú ekki síst gaman af því.

Doritt var mikill hagleiksmaður og gat lagað allt frá minnstu hlutum upp í að koma bílnum hans Varðar, sem var nánast ónýtur, í gang. Hann var harðduglegur og þurfti sko ekki að hvetja hann til vinnu hvort sem var á bók eða verklegt. Mér er mjög minnisstætt þegar bekkjarsystur okkar voru að krulla upp á þér hárið einu sinni og hafðir þú gaman af.

Doritt var mikill matmaður og var unun að horfa á þá nafna borða. Ef einhverjir afgangar voru eftir var Erna vön að segja, Halldór og Halldór klára þetta. Það sem tengdi okkur saman var kærleikur krists og lærðum við að þekkja styrkleika og takmarkanir hvor annars. Þú varst alltaf til staðar ef mann vantaði hjálp við hvað sem var og ekki var langt í húmorinn hjá þér þó stundum væru sumir dagar erfiðari en aðrir.

Ég á bágt með að trúa því að þú sért farinn frá okkur, svona ungur, við áttum svo margt ógert saman. Að heyra ekki röddina þína og hlátur lengur er ólýsanleg tilfinning. Mikið skarð hefur nú myndast, Doritt minn, í Biblíuskólahópinn. Þú ert einstök sköpun Guðs sem hefur nú kvatt þennan heim alltaf fljótt. Stundum er sagt að þeir deyi ungir sem guðirnir elska. Ég vil að endingu þakka þér fyrir það að vera vinur minn og trúbróðir.

Okkur virðist hart að þola það

Sem þó er létt á móti byrðum hans

Er forðum einn á krossi bænir bað

um blessun Guðs og náð til sérhvers manns.

(H.H.)

Ég vil senda stórfjölskyldu Halldórs mínar dýpstu samúðarkveðjur .

Megi algóður Guð styrkja ykkur í ykkar miklu sorg.

Hvíl í friði.

Þinn bekkjarbróðir

úr MCI Biblíuskólanum,

Vilhjálmur Karl Haraldsson.