Frá Kópavogi Verðbólgan fór af stað við efnahagshrunið árið 2008.
Frá Kópavogi Verðbólgan fór af stað við efnahagshrunið árið 2008. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is „Útlán Íbúðalánasjóðs eru um 800 milljarðar. Sjóðurinn er þegar búinn að fá greiddar verðbætur á tímabilinu sem dómsmálið vísar til.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Útlán Íbúðalánasjóðs eru um 800 milljarðar. Sjóðurinn er þegar búinn að fá greiddar verðbætur á tímabilinu sem dómsmálið vísar til. Tökum einfalt dæmi um 25 ára lán tekið í árslok 2002 og notum það sem dæmigert lán til að álykta út frá um verðbætur. Ef vextir hafa verið t.d. 5% og lánið 10 milljónir í upphafi þá nema greiddar og ógreiddar verðbætur samtals um 8,5 m.kr. en lánið stendur í 13,2 m.kr. Ef endurgreiða þarf 8,5 m.kr. þá svarar það til 64,5% af eftirstöðvum lánsins með verðbótum. Ef um er að ræða 40 ára lán þá breytist þetta hlutfall í 58%. Ef við gefum okkur töluna 60% og að eftirstöðvar útlána hjá Íbúðalánasjóði nemi 800 milljörðum þá erum við að tala um hugsanlega fjárhæð sem næmi 480 milljörðum. Sú tala væri þá tap sjóðsins,“ segir Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri ráðgjafafyrirtækisins Analytica, um áhrifin af því ef hjón sem stefnt hafa Íbúðalánasjóði vinna málið. Er vikið að stefnunni hér fyrir neðan.

Yngvi tekur fram að þetta sé mjög gróf áætlun en hann var einn höfunda skýrslu sem unnin var fyrir efnahagsráðuneytið árið 2010 um kosti og galla verðtryggingar.

Yrði mikið högg fyrir sjóðina

Hann víkur að lífeyrissjóðunum.

„Gefum okkur að veðlán lífeyrissjóðanna séu til öll til neytenda – þ.e. sjóðfélaga – sem kann að vera ofureinföldun. Fjárhæð þeirra skv. skýrslum FME nemur um 200 milljörðum. Ef 60% af þeirri fjárhæð tapast þá svarar það til 120 milljarða króna. Það myndi bitna á lífeyrisréttindum sjóðfélaga.

Þessi dæmi eru einföldun en ég tek ekki með í reikninginn að lífeyrissjóðirnir hafa verið að byggjast upp í nokkurn tíma. Það sama á við um Íbúðalánasjóð. Þar eru líka á ferð háar fjárhæðir. Málið varðar ekki aðeins núverandi stöðu. Þetta er þannig líka spurning um hvort málið beinist gegn öllum verðtryggðum eignum lífeyrissjóðanna eða eingöngu að sjóðsfélagalánum. Lífeyrissjóðirnir hafa vaxið með iðgjöldum sem varið er til fjárfestinga. Þá kemur til vöxtur vegna afraksturs fjárfestinga, þ.m.t. verðbóta. Það þarf því að fara mjög varlega í allar tölur í þessu samhengi, skoða þarf málið betur,“ segir Yngvi en samkvæmt þessu yrði heildartap Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna um 600 milljarðar.

Kveðið á um skaðabætur

Að sögn Þórðar Heimis Sveinssonar, hdl. og lögmanns hjónanna, felur stefnan í sér að Íbúðalánasjóði hafi verið óheimilt að krefja þau um heildarlántökukostnað af láninu, þ.m.t. vexti, verðbætur og lántökukostnað en til vara að óheimilt hafi verið að krefjast verðbóta. Þessi kostnaður verði sóttur ef málið vinnst en engin fjárupphæð sé tilgreind.

Í neytendalánalögunum sé heimild fyrir því að krefjast skaðabóta í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttar ef brot á neytendalánalögum sannast. Því geti hjónin mögulega átt skaðabótakröfu 10 ár aftur í tímann. Þórður Heimir telur málið munu hafa fordæmisgildi fyrir önnur lán Íbúðalánasjóðs, verðtryggð lán lífeyrissjóðanna og önnur verðtryggð lán.

HUGSANLEG ÁHRIF STEFNUNNAR FYRIR LÁNTAKENDUR

Milljónir yrðu slegnar af lánum

Aðspurður hvaða áhrif það hefði á verðtryggð lán ef hjónin Theodór Magnússon og Helga Margrét Guðmundsdóttir vinna mál sitt gegn Íbúðalánasjóði stillir Yngvi upp tveim dæmum. Í fyrsta lagi dæmi af lántaka sem tók 25 milljóna kr. lán árið 2002 á 5% vöxtum og upplifði sömu breytingar á vísitölunni og orðið hafa síðustu tíu árin. Greiddar verðbætur af láninu í árslok 2012 séu 6.745.558 kr., eftirstöðvarnar 18.411.556 krónur og áætlaðar verðbætur af þeim 14.567.928 kr. Samanlagt geti lántakinn því krafist 21.313.486 króna endurgreiðslu á greiddum og ógreiddum verðbótum sem séu samtals um 64,6% af eftirstöðvum með verðbótum.

Annað dæmi er 10 milljóna kr. lán samkvæmt sömu forsendum.

Greiddar verðbætur séu 2.698.223 kr. í árslok 2012 og eftirstöðvar með verðbótum 13.191.794 kr. og verðbætur á þær 5.827.171 kr. Samanlagt séu verðbætur, greiddar og ógreiddar, því 8.525.394 kr. Líkt og í fyrra dæminu er hlutfall þeirra af verðbættum eftirstöðvum 64,5%.

Samkvæmt þessu ætti lántakinn því endurkröfurétt á hendur lánveitandanum upp á ríflega 8,5 milljónir króna, ef varakrafan um endurgreiðslu verðbóta í máli hjónanna verður samþykkt.