Heimir Snær Guðmundsson heimirs@mbl.is Vanskil viðskiptavina Landsbankans hafa minnkað það sem af er ári. Þetta kemur fram í 9 mánaða uppgjöri bankans sem kynnt var í gær.

Heimir Snær Guðmundsson

heimirs@mbl.is

Vanskil viðskiptavina Landsbankans hafa minnkað það sem af er ári. Þetta kemur fram í 9 mánaða uppgjöri bankans sem kynnt var í gær. Vanskilahlutfall fyrirtækja var 8,5% í lok október en hjá einstaklingum var sama hlutfall 9,8%. Heildarvanskil eru því 8,9% en eftir þriðja ársfjórðung á síðasta ári var hlutfall vanskila 16,4%.

Afkoma Landsbankans er jákvæð um 13,5 milljarða kr. eftir skatta fyrstu níu mánuði ársins. Hagnaðurinn er helmingi minni en á sama tíma á síðasta ári en þó kemur fram að samanburður sé erfiður vegna sveiflukenndrar afkomu á síðasta ári. Hagnaður þriðja ársfjórðungs er mun minni en á fyrri helmingi ársins eða 1,7 milljarðar kr. Í uppgjörinu er skýringin sögð rýrnun lánasafns og aukinn rekstarkostnaður sem að hluta má rekja til gjaldfærslu vegna starfsloka sem tengjast hagræðingaraðgerðum.

Í uppgjörinu kemur einnig fram að útlán til fyrirtækja hafa lækkað lítillega en útlán til einstaklinga hafa hins vegar hækkað umfram verðlagsþróun það sem af er árinu.

Rekstrarkostnaður of hár

Landsbankinn hefur samfara skipulagsbreytingum gripið til hagræðingar og aðhalds í rekstri á árinu. Í uppgjörinu segir að rekstrarkostnaður sé enn of hár en hann hefur hækkað um 15% frá því á sama tíma í fyrra.
9 mánaða uppgjör
» Hagnaður bankans lækkar um helming frá því á síðasta ári.
» Heildarvanskil eru 9,2% en voru á sama tíma í fyrra 16,4%.
» Rekstrarkostnaður hefur hækkað um 15% það sem af er ári.